Jazz, blús, fönk og fleira hljómar um Reykjavík

Lifandi jazztónlist hefur verið nokkuð áberandi á ýmsum stöðum í Reykjavík undanfarið og hefur lífgað verulega upp á mannlífið, má þar nefna staði eins og Skuggabaldur, Hús máls og menningar, Jómfrúin, Jörgensen Kitchen & Bar.

Tónleikaröðin Jazz í hádeginu mun hefja göngu sína á ný í haust á Borgarbókasafninu en fyrir þann tíma geta jazzunnendur sannarlega fagnað því að langþráð Jazzhátíð Reykjavíkur verður haldin 28. ágúst til 4. september 2021. Hátíðin hefur verið haldin allt frá árinu 1990 og er meginmarkmið að styðja við jazztónlist og bjóða upp á framúrskarandi vettvang og umgjörð um tónlist, listafólk og unnendur jazztónlistar.

Dagskráin í ár er gríðarlega fjölbreytt, hátt í 40 viðburðir með tæplega 200 listamönnum. Á boðstólnum verður jazz, blús, fönk og spunatónlist með listafólki frá Bandaríkjunum, Evrópu og Íslandi.

Einn af þeim fjölmörgu listamönnum sem koma fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í ár er saxófónleikarinn Melissa Aldana, en hún spilar ásamt kvartett sínum í Hörpu. Melissa er upprunalega frá Chile, og hefur frægðarsól hennar risið hratt sem tenór saxófónleikari í jazzgeiranum, en hún var fyrsta konan til að vinna hina frægu Thelonius Monk Jazz Saxophone keppni. Nýjasta plata hennar nefnist Visions, en þar sækir hún innblástur í uppruna sinn og arfleifð listakvenna frá Rómönsku Ameríku, ekki síst Fridu Kahlo.

Ambrose Akinmusire mun einnig spila á hátíðinni með kvartett sínum, en hann fékk tilnefningu á Grammy verðlaunahátíðinni 2021 fyrir nýjustu plötu sína On The Tender Spot Of Every Calloused Moment sem er gefin út af Blue Note útgáfufyrirtækinu. Tónsmíðum hans er lýst sem ljóðrænum og þokkafullum, jafnframt að hann sé óþreytandi í leit sinni að þversögnum, sé óhefðbundinn í nálgun, sæki innblástur í önnur listform og lífið sjálft.

Það mætti lengi telja upp framúrskarandi tónlistarmenn sem koma fram á hátíðinni: Högni Egilsson spilar með nýjum kvartett, Broken Cycle Trio, Charlie Christian heiðurskvintett, Kathrine Windfeld, Kadi Vija,  LILJA, Sigurður Flosason, Óskar Guðjónsson, Blúsmenn Andreu, Guðmundur Pétursson, Tómas R. Einarsson og Ragnhildur Gísladóttir, Una Stef og Stefán S., Rebekka Blöndal og fleiri góðir gestir.

Borgarbókasafnið verður með jazzdagskrá í haust stuttu eftir að Jazzhátíð Reykjavíkur lýkur. Fyrstu tónleikar haustsins verða haldnir í hádeginu fimmtudaginn 9. september í Grófinni kl. 12.15, föstudaginn 10. september í Gerðubergi og laugardaginn 11. september í Spönginni. Það eru tónlistarmennirnir Mikael Máni Ásmundsson og Leifur Gunnarsson sem að koma fram og hafa umsjón með dagskrá sem verður tileinkuð Miles Davis. 

Á safninu er jafnframt til úrval af jazztónlist sem hægt er að lána, bæði geisladiskar og vínylplötur. Þá hafa lánþegar aðgang að streymi fyrir tónlist og myndir. Í Naxos Music Library er að finna tónverk frá mörg hundruð útgáfufyrirtækjum, sjá nánar: Naxos.  Auk sígildrar tónlistar má finna jazz, heimstónlist og nokkuð af dægurtónlist.  Einnig eru allir ávallt velkomnir að koma á safnið á opnunartíma til að hlusta á tónlist á staðnum.

Materials