Táknmálsbókmenntir á bókasafninu

Anna Valdís Kro og Elsa G. Björnsdóttir sögðu okkur frá starfinu að baki verkefninu VV-sögum og hvernig hægt sé að læra að semja sína eigin VV-sögu sem málhafi íslensks táknmáls. Anna Valdís Kro hefur haldið utan um samstarfsverkefnið VV-sögur, sem hófst á þessu ári með vinnustofum tileinkuðum táknmálsbókmenntum. Þar kennir Elsa G. Björnsdóttir aðferðir til að semja VV-sögur og þróa þannig íslenskt táknmál og leggja sitt af mörkum til táknmálsbókmennta á Íslandi. Við fengum að  spyrja þær nokkurra spurninga um hvernig hafi gengið og með hvaða hætti bókasafnið getur verið vettvangur fyrir táknmálsbókmenntir og samfélög döff. 

Hvað eru VV-Sögur? 
Visual Vernacular er heiti á tegund táknmálsbókmennta. Eins og hver þjóð á sína tungu þá eru táknmál líka jafn mörg og samfélög döff/heyrnarlausra eru mörg … en VV er frásagnaraðferð sem þarfnast ekki þýðinga, í gegnum þau verk tengir það alla döff hvaðan sem þeir koma. Það er aðaleinkenni sagnanna að þau skiljist heimsálfa á milli.  

Hvernig lærir maður að segja VV-Sögu? 
Eins og maður lærir að skrifa smásögu … þú finnur aðalsögupersónuna, skapar heim í kringum hana og það sem þú vilt segja með þeirri sögu. Engin ein leið er rétt, sögur eins og ritaðar bókmenntir eru ólíkar innibyrðis, þær geta verið allt frá örstuttri reynslusögu upp í langa „doðranta“ í þessu tilfelli. Þú getur bætt við söguna og kryddað hana með lýsingum á persónum, aðstæðum og tilfinningum, haft hana spennandi, rómantíska eða fyndna, allt eftir því sem þér finnst passa þinni sögu. Sögurnar eru síðan teknar upp á myndband og geymdar þannig á sama hátt og sögur eru skrifaðar í bók. 

Hvað var það eftirminnilegasta í vinnustofunum sem þið hélduð í maí? 
Að hitta allt fólkið og sjá hvað þau eru skapandi og fyndin.  

Kom ykkur eitthvað á óvart? 
Það kom mér (Önnu) mest á óvart að uppgötva hvað það er margt sem ég tek sem sjálfsögðum hlut. … Ég byrjaði að semja sögur og ljóð áður en ég byrjaði í grunnskóla. En svo, að verða vitni að því að fólk hefur ekki fengið sömu tækifæri og ég til þess að semja sögur á sínu tungumáli af því að þau tala táknmál finnst mér mjög sorglegt. 

Hvernig tengist bókasafnið verkefninu? 
Borgarbókasafnið hefur stutt við verkefnið með því að skapa vettvang fyrir táknmálsbókmenntir á bókasafninu. Við héldum líka viðburði á Þjóðhátíðardaginn og sýndum þær sögur sem voru tilbúnar í Húsi máls og menningar og á bókasafninu í Grófinni. Það var ágætis mæting á viðburðina. Meðal annarra komu tveir menn sem nú eru að vinna verkefni sem heitir Look at the music. Þeir höfðu áhuga á að búa til tónlist við texta á táknmáli og voru tvær sögur valdar frá vinnusmiðjunum, Veiðiferðin eftir Önnu Jónu Lárusdóttur og Láttu ekki svona eftir Svövu Jóhannesdóttur. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróuninni á þeirra verkefni og hvernig VV sögurnar eru að breiða úr sér. Það verða haldnir tónleikar í Norræna húsinu 28. október næstkomandi sem við hvetjum fólk til að koma á. Síðasta vinnusmiðjan í VV sögum sem við skipuleggjum er opin almenningi og eina skilyrðið fyrir þátttöku er að tala íslenskt táknmál. Það verður haldið á Borgarbókasafninu í Spönginni og opna vinnusmiðjan hefst 11. október. Hin námskeiðin voru haldin í Gröndalshúsi með góðfúslegu leyfi Bókmenntaborgarinnar. 

Hvernig viljið þið halda þróuninni áfram? 
Næstu skref verða svolítið að koma í ljós. Við erum spenntar fyrir opna námskeiðinu sem hefst 11. október og hvers konar sögur verða samdar þar. Við hlökkum líka til að sýna ykkur afraksturinn af þessu verkefni um VV sögur … við stefnum á að halda sýningu í nóvember eða desember. Það væri gaman að sjá sem flesta þar! 

Kærar þakkir fyri samtalið.
Áhugasamir um verkefnið og opnu vinnustofnuna  finna frekari upplýsingar hér: VV-Sögur 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 5. október, 2022 13:40