Setið saman og menningarnæmni rædd

Margt, mismunandi og ófyrirsjáanlegt | Opið samtal

Menningarnæmnin og -læsið kemur með því sem við sjáum. Við verðum að geta haft tækifæri á að kynnast ólíkum menningaráhrifum. Það eru ekki margir staðir í borginni sem bjóða upp á vettvang þar sem einstaklingar úr mismunandi samfélagshópum geta kynnst. Það er erfitt að skapa tækifæri til að ræða þessi mál utan síns þægindaramma.

segir Sonja Kovačević sem sat hjá okkur á Torginu og tók þátt í opnu samtali um menningarnæmi og fjölbreytileika. 

Sonja sem er í kennaranámi bendir á að innan skólakerfisins, sem og í öðrum stofnunum, þá sé ekki hægt að ganga einungis út frá því að menningaráhrif blandist með fjölbreyttari samsetningu samfélagsins, nú hefur fimmti hver Reykvíkingur ekki íslensku að móðurmáli en ekki allir hafa sömu tækifæri á að móta menninguna. Sonja segir:

Það er mikilvægt að við vitum af hverju fjölbreytileikinn er okkur mikilvægur, hvers vegna ættum við eða stofnanir eins og skólar að leggja áherslu á að einstaklingar með fjölbreytta reynslu, tungumálakunnáttu og bakgrunn séu sýnileg í ólíkum stöðum innan samfélags okkar. Ef það er okkur ekki ljóst, þá munu börn alast upp í þessu þjóðfélagi með takmörkuð tækifæri, því þau sjá ekki að einhver „eins og þau“ sem sinna ólíkum hlutverkum.

Wiola Ujazdowska listamaður og listrænn stjórnandi settist einnig hjá okkur. Hún opnaði nýverið sýninguna Samfélag skynjandi vera, þar sem hún fer með listræna stjórn ásamt Huberti Gromny. Hún ræddi við okkur það sem henni þykir mikilvægt sem innan listageirans:

Við verðum líka að vinna með tölur og tölfræði. Ég er stöðugt að rýna og endurhugsa eigin vinnuaðferðir og hvaða raddir heyrist í mínum verkefnum, hverjir hafi ekki fengið tækifæri til að hafa áhrif á listalífið? Einnig verðum við að skoða hver staða listafólks er sem koma frá löndum utan EFTA eða Evrópska efnahagssvæðisins og starfa á Íslandi? Eru þeirra verk sýnileg og hversu mörg eru varðveitt innan stofnana okkar? Tölfræðin hjálpar okkur að komast út úr óljósum markmiðum og ráðast í aðgerðir.

Sonja leggur áherslu á það hversu mikilvægt sé að skapa vettvang þar sem að ólíkir hópar mætast, þar sem þekking og saga hvers og eins verður sýnileg. Auðveldasta leiðin til að fá fólk til að kynnast er í gegnum sameiginleg áhugasvið. Við mætumst í því sem okkur finnst skemmtilegt, spennandi, áhugavert – í því sem sameinar okkur. Wiola nefnir einnig:

Við verðum að læra að taka pláss, fara á staði sem við höfum ekki verið á áður.

Það sem við vorum sammála í lok spjallsins var að fjölbreytileiki er ekki eitthvað eitt; ein manneskja eða sérstök sýning, heldur verður þráður fjölbreytninnar að vera óslitinn í gegnum allt okkar starf. Við náum frekara menningarnæmi og læsi á ólík menningaráhrif með því að skapa vettvang fyrir:

 

Margt, mismunandi og ófyrirsjáanlegt.

Er ekki bókasafnið akkúrat rétti staðurinn til þess?

 

Við þökkum kærlega fyrir spjallið og hverjum notendur til að senda okkur hugmyndir um áhugaverð umræðuefni í næsta opna samtal. Kannski ættum við að ræða París?

Frekari upplýsingar

Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

Flokkur
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 15:55