Grindvíkingar fá frítt bókasafnskort
Borgarstjórn kom með þær góðu fréttir á dögunum að allir íbúar Grindavíkur geti nýtt sér ýmsa þjónustu Reykjavíkurborgar sér að kostnaðarlausu, þar á meðal fengið frítt í sund og ókeypis aðgang að söfnum borgarinnar.
Við bjóðum Grindvíkinga hjartanlega velkomna á Borgarbókasafnið. Við hvetjum öll að koma við og fá bókasafnskort - munið bara eftir skilríkjunum!
Miðbæjarsafnið okkar í Grófinni, Tryggvagötu 15.
Það getur verið gott á erfiðum tímum að dreifa huganum í rólegu umhverfi bókasafnsins, næla sér í góða skáldsögu eða tímarit, spila, leika í barnadeildinni, grípa í prjóna eða hlusta á tónlist. Á söfnunum er líka góð aðstaða og gestanet fyrir þau sem vilja sinna fjarvinnu.
Bendum líka á að kennarar með leikskóla- og grunnskólahópa eru velkomnir að heyra í okkur og bóka skólaheimsóknir og sögustundir. Við tökum vel á móti ykkur.
Borgarbókasafnið er á átta stöðum í Reykjavík, og er þar boðið upp á fjölbreytta og ókeypis viðburði fyrir börn og fullorðna allt árið um kring. Föndur, upplestrar, íslenskukennsla, ritsmíðaverkstæði, listsýningar og svo mætti lengi telja. Kynnið ykkur dagskrána hér.
Fyrir fjölskyldufólk vekjum við sérstaka athygli á Fjölskyldumorgnunum okkar sem eru í Grófinni, Gerðubergi og Úlfarsárdal, einu sinni í viku. Öll hjartanlega velkomin með krílin ykkar.