
Móðir, kona og meyja fara í bústað með bækur, kokteila og tilfinningaflækjur
LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins. __________________________________________________________
__________________________________________________________
Síðastliðinn laugardag var leiksýning sett upp á Amtsbókasafninu. Það er ekki óvenjulegt að menningin eigi aðsetur á Amtinu, enda fjölmargir viðburðir haldnir þar í hverri viku. En hér var ekki hefðbundin lestrarstund á ferðinni, heldur svokölluð pop-up sýning þar sem gestir og gangandi gátu sest og notið þess að sjá nýja íslenska leiksýningu. Í tilefni kvennaárs 2025 var sett upp brot úr verkinu Móðir, kona, meyja eftir Sesselíu Ólafs. Aðgangur var ókeypis, sýningin var um miðjan dag og safnið opið með tilheyrandi barnagalsa og blaðagrúski. Litlu sviði var komið fyrir hjá kaffiteríunni og stólum raðað, sem reyndust síðan vera of fáir fyrir forvitna leikhúsgesti.
        
           
      
Allt umhverfið var ólíkt hinni hefðbundnu leikhúsupplifun og óvíst hvað biði okkar áhorfendanna. En andrúmsloftið breyttist hratt þegar leikararnir stigu á stokk. Fljótt varð ljóst að hér var boðið upp á vandaða og metnaðarfulla sýningu. Móðir, kona, meyja fjallar um þrjár áður ókunnugar konur sem skrá sig á lestrarnámskeið yfir helgi. Þær hittast í bústað til að lesa, en þegar leiðbeinandanum seinkar verður ljóst að lesturinn mun víkja fyrir samtali þeirra á milli og persónuleg vandamál koma upp á yfirborðið.
        
           
      
Lestur er vissulega áberandi í sýningunni. Tónninn var sleginn strax í upphafsorðunum sem Bjarklind Ásta flutti sem meyjan Sigga þegar hún las úr Stúlku Júlíönu Jónsdóttur. Í framhaldi fylgdu fjölmargar vísanir og sú spurning vaknaði óhjákvæmilega hvort þetta væri sýning fyrir bókmenntafólk, elítuna, sem stillir Halldóri Laxness upp í stofunni og lítur jafnvel niður á illa læsan almúgann. Bókmenntalega umfjöllunin varð þó ekki yfirþyrmandi, heldur eins og einn leikhúsgestur sagði síðar, hún var meira eins og fræðslumolar, frekar en snobbuð einræða. Vísanir eru fjölmargar en mjög fjölbreyttar, allt frá Hávamálum til Engla alheimsins, frá Guðrúnu frá Lundi til Jenny Colgan, og kvikmyndir voru alls ekki undanskildar. Á tímabili voru konurnar þrjár málaðar eins og persónan No Face úr japönsku teiknimyndinni Spirited Away, en hún þrífst á því að tileinka sér persónuleika annarra.
Sjálfsskoðun og að standa með sinni persónu er eitt aðal umfjöllunarefni sýningarinnar. Í grunninn fjallar hún um flóknar tilfinningar og að standa á tímamótum. Konurnar þrjár eru allar afskaplega mannlegar og það er auðvelt fyrir áhorfandann að spegla sig í þeim og þeirra aðstæðum. Meyjan Sigga er ung og bráð, metnaðarfull en skortir sjálfstraust og lifir í gegnum símann sinn. Konan Vilborg er jakkaklæddur markaðsfræðingur, sem er óhamingjusöm í hjónabandinu, og Guðrún móðir er tengd við andlegu hliðina ásamt því að syrgja látinn eiginmann sinn. Þjóðtrúin lifir í henni og Guðrún verður einhvers konar alvitur völva sem dregur upp tarrot spil og spáir, réttilega, fyrir konunum. Eftir því sem líður á kvöldið, og drykkjunum fjölgar, verður áhorfandanum ljóst að meyjan og konan þurfa að taka á sig rögg og ná betri stjórn á lífi sínu. Og hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir móðurina Guðrúnu?
        
           
      
Leikkonurnar þrjár standa sig allar með mikilli prýði. Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir er heillandi sem hin lífsglaða og jákvæða Sigga, Sesselía Ólafs dregur salinn að sér með sín sorgmæddu augu og djúpa harm sem hún vill ekki takast á við og Ásta Sighvats Ólafsdóttir er sérstaklega sannfærandi sem hin kynngimagnaða Guðrún. Sýningin er samt ekki gallalaus þótt góð sé. Siggu og Vilborgu er stillt upp sem andstæðum og völvan Guðrún skapar jafnvægi á milli þeirra. Hún verður þó á köflum of fullkomin, alltaf með réttu svörin á reiðum höndum. Kannski er meira í pokahorni þeirrar persónu en sást í þessu stutta broti. Eins var aldur mærinnar Siggu á reiki, hún er búin með stúdentsprófið en dregur samt upp snúsnú band sem er í hrópandi ósamræmi við alla þá framhaldsskólanema sem undirrituð hefur kennt í gegnum tíðina. Ég hefði viljað sjá meira af hinni tæplega fertugu, kaldhæðnu Vilborgu, sem Sesselía leikur af mikilli sannfæringu. Það bíður seinni tíma.
Mér finnst það til marks um vel heppnaða sýningu að áhorfendur vildu meira. Í salnum ómuðu spurningar, vangaveltur og margir spegluðu sig í persónunum. Sýningartími var um 45 mínútur og hún hætti á ögurstundu. Enda var þetta aðeins forsmekkurinn. Vonandi verður öll sýningin sett á fjalirnar í framhaldinu. Sesselía Ólafs stígur hér fram sem öflugt leikritaskáld. Verkið er langt frá því að hafa byrjendatón yfir sér, heldur heyrist hér þroskuð rödd sem hefur margt að segja. Sesselía er á miklu flugi þessa dagana því nú fyrir jólin mun koma út hennar fyrsta skáldsaga, fantasíubókin Silfurberg. Það er ánægjulegt að sjá þessa snjöllu skáldkonu marka sér stað á ólíkum sviðum ritlistarinnar. Sesselía er einnig hluti af Umskiptingum, atvinnuleikhópi á Akureyri. Sami hópur setur upp sýninguna Jólaglögg í Samkomuhúsinu í desember.
        
           
      
Þessi uppsetning var hluti af samstarfsverkefninu „Læsi á stöðu og baráttu kvenna“ sem er verkefni á vegum almenningsbókasafna á Íslandi í tilefni af Kvennaári 2025. Þrátt fyrir að umfjöllunarefnin smellpassi inn í þemað læsi og konur, þá tók feminísk og bókmenntaleg umræða ekki völdin. Sesselía hefur skoðanir, en hún þvingar þær ekki inn í huga áhorfenda, heldur byggir verkið á hversdagslegum samtölum kvennanna þriggja, sem gerir það aðgengilegt. Ég hlakka í það minnsta til að sjá framhaldið og vona að verkið í heild sinni fái að njóta sín á stærra sviði í komandi framtíð. Því eins og flestir vita getur margt fengið að flakka í góðri bústaðarferð, sérstaklega þegar líður á helgina!
Höfundur er menntaskólakennari og áhugamanneskja um bækur, kokteila... og mögulega tilfinningaflækjur.
Greinargerð eftir Aðalbjörgu Bragadóttur
 
        