Berglind Erna Tryggvadóttir

Íslenskukennsla…eins og í sögu | „Leikurinn er hvetjandi tæki til þess að æfa sig“

„Listgreinar, t.d. ritlist, gefa fólki færi á að sleppa fram af sér beislinu, prófa sig áfram og leyfa sér að gera mistök, sem er svo einstaklega mikilvægt þegar man er að læra nýtt tungumál.“ segir Berglind Erna Tryggvadóttir en hún, ásamt Þórunni Rakel Gylfadóttur, fór nýverið af stað með nýstárlegt íslenskunámskeið á Borgarbókasafninu Kringlunni og í Grófinni.

Auk þess að kenna saman á námskeiðinu, semja þær stöllur báðar námsgögn í íslensku, eru báðar meistaranemar í ritlist við Háskóla Íslands og rithöfundar.

Á námskeiðinu lesa þátttakendur örsögur á staðnum og ræða efni þeirra. Eftir það er þeim leiðbeint við ritun einfalds en skapandi texta á íslensku. Þau sem vilja geta deilt textum sínum í lok hvers námskeiðs og hópurinn ræðir þá.

„Í stað þess að fylla inn í eyður eða svara spurningum fá nemendurnir tækifæri til þess að leika sér með tungumálið, nota orðin sem þau kunna á skapandi hátt og þannig skerpa á skilningnum en líka gera tengingar innan tungumálsins. Leikurinn er hvetjandi tæki til þess að æfa sig, bæði á blaði en líka í framsögu. Þannig dýpkar skilningurinn á sama tíma og nemendur skapa eitthvað sem þau geta verið stolt af.“

Á Menningarnótt 2024, verður þátttakendum boðið að lesa sögur sínar upp á sérstökum viðburði á Borgarbókasafninu Grófinni. Þannig gefst nýjum skáldum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og upplifun á framfæri og taka lýðræðislega þátt í samfélaginu á eigin forsendum.


Sex námskeið, sex þemu

Um er að ræða sex örnámskeið, þrjú í Kringlunni og þrjú í Grófinni, sem öll hafa yfirskriftina …eins og í sögu.  

„Titillinn vísar í uppbyggingu námskeiðsins, þ.e.a.s. það byggir á smá- og örsöguskrifum, en gefur kannski líka fyrirheit um velgengni, samanber að eitthvað gangi eins og í sögu. Við höfum mikinn áhuga á að skoða orðasambönd og orðatiltæki og kemur hugmyndin þaðan.“

Þá er hvert örnámskeið sjálfstæð eining með sitt þema; vorið, vinátta, vatn, ferðalag, matur og að lokum veislur, partý og hátíðir á því síðasta. Hægt er að sækja eitt eða fleiri námskeið þar sem hvert og eitt er sjálfstæð eining. Þrjú námskeið verða í Kringlunni í maí/júní og þrjú í Grófinni í haust.

Berglind Erna Tryggvadóttir og Þórunn Rakel Gylfadóttir


Bókasöfn eins og samkomuhús

Aðspurð hvaðan hugmyndin að námskeiðunum er sprottin segir Berglind Erna þær Þórunni Rakel afar samrýmdar og í daglegum samtölum fljúgi á milli þeirra hugmyndir, ráðleggingar og fyndnar sögur.

„Fyrir tæpum tveimur árum bauðst okkur að skrifa smásögur fyrir fólk sem er að læra íslensku út frá rannsóknum á orðaforða í samstarfi við Árnastofnun og Hug- og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Báðar höfum við mikla ástríðu fyrir tungumálinu okkar og þáðum starfið sem reyndist bæði einstaklega skemmtilegt og lærdómsríkt.“

Síðan þá hafi þær unnið fleiri sögur og leikið sér með tungumálið í þeim tilgangi að búa til námsefni sem gaman er að lesa. Í vetur hafi síðan komið upp sú hugmynd að halda ritlistarnámskeið fyrir fólk sem vill ná betri tökum á tungumálinu og eftir að hafa heyrt viðtal við Dögg Sigmarsdóttur, verkefnastjóra borgaralegrar þátttöku á Borgarbókasafninu hafi þær stöllur áttað sig á að bókasafnið væri góður staður fyrir slíkt námskeið.

„Bókasafnið er frábær vettvangur fyrir verkefni sem þetta. Það er staður þar sem fólk getur komið saman og lært en líka myndað samfélag. Bókasöfn eru opin öllum og aðgengileg, rými þar sem hægt er að sækja sér næði en líka félagsskap. Síðastliðin ár hefur viðburðahald orðið meira áberandi á bókasöfnunum og þau orðið að einhverju leyti eins og félagsheimili eða samkomuhús. Þau eru því tilvalin umgjörð fyrir námskeið eins og okkar.“
 

Námsefni í takt tímann

Berglind Erna segir að þeim Þórunni Rakel þyki mjög mikilvægt að það sé til nýtt námsefni í íslenskukennslu þar sem tungumálið sé síbreytilegt. Fólk verði svo samdauna að það tekur ekki eftir orðum sem slæðast inn milli ára, hvernig orðfæri breytist og þróast, orð detta úr umferð eða öðlast nýja merkingu. Það sé því mikilvægt að vera vakandi fyrir þessu og endurskoða og bæta íslenskunámsefni reglulega. Þá segir hún mikilvægt að búið sé til nýtt námsefni sem er í takt við tímann hverju sinni, hvað málefni varðar, bæta inn og breyta eftir þörfum.

Örnámskeiðin hlutu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og eru einn angi ýmissa íslenskutengdra verkefna sem þær stöllur hafa unnið að undanfarin tvö ár.

„Ef námskeiðin ganga vel þá væri auðvitað virkilega gaman að þróa þau áfram og halda fleiri. Tungumálið okkar er eitthvað sem þarf að viðhalda og til þess að fjölmenning megi ríkja í samfélaginu okkar þá er nauðsynlegt að búa til rými fyrir fólk sem flytur hingað og vill ná tökum á málinu.“

Örnámskeiðin eru ókeypis og standa öllum opin sem hafa íslensku ekki að móðurmáli en búa yfir einhverri þekkingu í málinu (A2-B2). Skráning er nauðsynleg. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 29. maí, 2024 13:39