Heyrði tónlist og rann á hljóðið

Monica Xiao flutti til landsins fyrir mánuði síðan þegar maðurinn hennar fékk vinnu sem háskólaprófessor hér á landi. Hún er kínversk, starfaði sem leikskólakennari í Þýskalandi í fimm ár, en er þess utan píanóleikari.

„Þegar ég kom þekkti ég engan og vissi ekki hvað ég ætti af mér að gera, svo ég fór á bókasafnið,“ segir Monica. Það var á fimmtudagsmorgni, um ellefuleytið, sem Monica var stödd í Grófinni og heyrði ljúfa tóna berast úr barnadeildinni. Hún kannaðist við sum lögin, hafði sungið þau með þýskum leikskólabörnum, en þótti mikið til flutningsins koma. „Ég vildi ekki trufla tónlistarfólkið,“ segir Monica en seinna um daginn spurði hún Valla út í hljómleikana, í tónlistardeildinni. „Hann sagði mér að þetta væri Krílastund og ég spurði hvort það væri pláss fyrir píanó líka og hann gekk í málið og lét þetta gerast!“

Monica segist vera heilluð af börnum sem áhorfendum þegar kemur að tónlistarflutningi. „Þau eru uppáhaldsáhorfendahópurinn minn. Þau eru svo ófeimin við að eiga samskipti og laus við samskiptahömlur sem samfélagið hefur kennt okkur fullorðna fólkinu, að bregðast ekki við því sem við hlustum á.“

Enda ríkti mikil stemmning á síðustu Krílastund ágústmánaðar, þegar Monica tók þátt í tónlistarflutningnum ásamt Valla og Báru – og börnin dilluðu sér ófeimin við ljúfa og hressa tónana.

Flokkur
Merki
UppfærtFimmtudagur, 31. ágúst, 2023 13:50