Anna Guðrún Jónsdóttir, Sjöfn Þorvarðardóttir og Bjarney Njálsdóttir
Anna Guðrún, Sjöfn og Bjarney all started doing handycarft young at age

Hannyrðastundir | „Þetta er ómissandi partur af vikunni, ég læt mig ekki vanta“

segir Anna Guðrún Jónsdóttir en hún, ásamt Sjöfn Þorvarðardóttur og Bjarneyju Njálsdóttur, er fastagestur á vikulegum hannyrðastundum á Borgarbókasafninu Spönginni. Í græna sófanum á efri hæðinni er prjónað og heklað jöfnum höndum en einnig gripið í útsaum og aðrar hannyrðir.

Stundirnar eru ekki hugsaðar sem kennslustundir en þó má alltaf leita ráða, þar sem meðal annars leynast tveir fyrrverandi handavinnukennarar í hópi fastagesta.

„Við erum duglegar að miðla hver til annarrar, bæði ef við þurfum einhverja aðstoð og einnig skiptumst við á hugmyndum að verkefnum, litasamsetningum og garni“

segir Bjarney og bætir við að þótt þær hafi allar stundað hannyrðir í fjölda ára þá séu þær enn að læra og þá sé frábært að geta spurt í hópnum. Undir þetta tekur Anna Guðrún sem segir þær allar vera mjög jafnar.
 

Karlar hvattir til að mæta

Á bilinu 8 - 10 manns mæta á hannyrðastundirnar en vinkonurnar segja alltaf pláss fyrir fleiri, það sé ákveðinn hópur sem mætir alla fimmtudaga en reglulega birtast ný andlit sem tekið er fagnandi. Sjöfn segir öll velkomin, byrjendur og lengra komin, og að aldurshópur þeirra sem mæta sé mjög breiður, þær vinkonurnar séu komnar á eftirlaun en ungar mæður mæti líka með lítil börn sín. Það hafi þó fram til þess nær eingöngu konur komið á hannyrðastundirnar en karlarnir eru hvattir til að mæta:

„Það var einn maður sem mætti um daginn, ansi flinkur, hann var frá Ungverjalandi og talaði mjög góða íslensku. Ég held að karlmenn stundi alveg hanyrðir, að minnsta kosti í meira mæli en áður, þeir eru bara feimnir við að sýna það.“

Öll eru velkomin á hannyrðastundirnar, líka þau sem ekki tala íslensku enda oftast einhver í hópnum sem talar ensku.
 

Hælalausir snúningssokkar

Þær Anna Guðrún, Bjarney og Sjöfn byrjuðu allar ungar að stunda hannyrðir, mikil handavinna var unnin á heimilinum þeirra í barnæsku og lærðu þær þannig af mæðrum sínum og ömmum. Heima hlusta þær á hljóðbækur eða horfa á sjónvarpið á meðan þær prjóna heimferðarsett á barnabörnin, hekla tuskur í jólagjafir eða kósý teppi handa sjálfri sér, en á hannyrðastundunum er spjallað um allt milli himins og jarðar, bækur gagnrýndar, fréttirnar krufðar og nýjustu prjónauppskriftirnar að sjálfsögðu skoðaðar. Sjöfn og Bjarney eru oft með nokkur verkefni í vinnslu í einu en Önnu Guðrúnu finnst best að klára hvert verkefni fyrir sig. Þó finnst henni gott að vera komin með hugmynd að næsta verkefni, jafnvel óskir frá afkomendunum, áður en hún lýkur því sem hún vinnur að hverju sinni. Hún hefur nýlokið við svokallaða „lestarsokka“, finnska uppskrift með fallega sögu:

„Það var finnsk kona í lest í seinni heimsstyrjöldinni. Á móti henni sat ung móðir með lítið berfætt barn. Konan tók sig til, rakti upp trefilinn sem hún var með og prjónaði úr garninu sokka handa barninu.“

Bjarney er einnig að prjóna sokka:

„Það er vinsælt hjá ömmustelpunum mínum að vera í háum sokkum, svokölluðum snúningssokkum, sem hentar mér vel því þeir eru hælaausir, mér leiðist svo að prjóna hæl. Það var Ragnheiður, gamall starfsmaður á safninu sem kenndi mér að prjóna snúningssokka, hún var sú sem byrjaði hannyrðastundirnar hér í Spönginni.“

Lestarsokkar

 

Alltaf ró og næði á bókasafninu

Þær Anna Guðrún, Bjarney og Sjöfn eru sammála um að bókasafnið henti mjög vel fyrir hannyrðastundir.

„Hér er alltaf ró og næði,, segir Sjöfn ,,og starfsfólkið, það er svo yndislegt, sýnir okkur hannyrðabækur og blöð til að fá hugmyndir og svo er alltaf heitt á könnunni, stundum jafnvel smá sætt með því.“

„Við komum líka stundum með eitthvað með okkur til að maula á með kaffinu“ bætir Bjarney við.

„Þetta er svo kærkomin tilbreyting, miklu skemmtilegra en að sitja ein heima með handavinnuna“

segir Anna Guðrún að lokum og þær Sjöfn og Bjarney taka heilsugar undir það.

Hannyrðastundir eru í boði á tveimur söfnum Borgarbókasafnsins, í Spönginni og Úlfarsárdal  og standa öllum opnar, engin skráning, bara mæta.

Safnið á fjöldan allan af bókum og tímaritum um hannyrðir sem gestum er velkomið að skoða á staðnum og kortþegar geta fengið lánaðar með sér heim. Hér fyrir neðan má sjá lítið brot af því sem finna má í hillum safnsins. 

Þau sem vantar stað fyrir prjónaklúbb eða aðrar samverustundir er bent á að hafa samband við afgreiðsluna á sínu safni eða senda fyrirspurn á borgarbokasafn@borgarbokasafn.is

ATH! Hannyrðastundirnar í Spönginni eru nú farnar í sumarfrí. Hittumst aftur 7.september í grænu sófunum á annarri hæðinni. Öll velkomin, byrjendur og lengra komin. 

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 30. maí, 2023 10:03
Materials