
Bókmenntaganga | Saga og raddir kvenna
LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.
__________________________________________________________
Almenningsbókasöfn um land allt sameina krafta sína undir merkjum verkefnisins Læsi á stöðu og baráttu kvenna í tilefni af Kvennaári 2025. Kvenréttindafélag Íslands og Borgarbókasafnið leiddu saman hesta sína með bókmenntagöngu sem verður svo aðgengileg til láns á bókasöfnunum.
Fyrsta gangan var sunnudaginn 19. október 2025 og fékk mjög góðar undirtektir. Góður hópur fólks gekk saman frá Borgarbókasafninu í Kringlunni í fallegu haust veðri. Stoppað var á 11 af 13 mögulegum stöðum og gangan tók um 1,5 klst.

Gangan er hugsuð sem sveigjanleg bókmenntaganga sem hægt er að framkvæma sem víðast. Hún byggir á því að velja nokkra lykilstaði sem flestir bæir eiga sér (t.d. leikskóla, sundlaug, bókasafn, listaverk eða fallega náttúru) og tengja þá við texta kvenna sem kalla fram ákveðin sjónarhorn.
Galdurinn við þessa göngu er að hún þarf ekki eiginlegan leiðsögumann þó svo að það sé auðvitað plús að einhver einn haldi utan um spjöldin með textunum. Hólmfríður María Bjarnardóttir, einn af forsvarsmönnum verkefnisins, leiddi þessa fyrstu göngu. Þessi ganga var fullkomið dæmi um það hvernig hægt er að fara í göngu frá ólíklegustu stöðum og finna fegurð, uppgötva hliðargötur og kynnast umhverfinu sínu betur í góðum hópi eða jafnvel upp á eigin spýtur.
Upplestrar eru í forgrunni og þátttakendur göngunnar eru hvattir til þess að taka þátt í því að lesa upp. Það stuðlar að því að fólk taki virkari þátt og upplifi textana öðruvísi en ef þau heyrðu þá einfaldlega lesna. Gangan er því bæði samverustund og skapandi upplifun.
Unnið er að því að búa til spjöld sem verður hægt að fá lánuð á Borgarbókasafninu og víðar um land. Áhugasöm sem vilja vita af því þegar spjöldin mæta á bókasafnið til útláns eða eru með einhverjar spurningar um verkefnið geta sent tölvupóst á
holmfridur.maria.bjarnardottir@reykjavik.is