Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur
Ból eftir Steinunni Sigurðardóttur

Bókmenntavefurinn | Af jöklasorgum og öðrum

Steinunn Sigurðardóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 fyrir skáldsöguna Ból. Er þetta í annað sinn sem hún hreppir verðlaunin en þau komu einnig í hennar hlut árið 2005 fyrir bókina Hjartastaður.
Sjá hér grein um alla verðlaunahafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023.

Við vekjum athygli lesenda á ritdómi Þórunnar Hrefnu um bókina Ból sem nýlega var birt á Bókmenntavefnum. Þar er einnig að finna ítarlega umfjöllun um höfundinn ásamt ritaskrá og ritdómum um fleiri bækur.

Líneik Hjálmsdóttir, kölluð LínLín, er komin á leiðarenda og sagan er eins konar uppgjör hennar við lífið þar sem ástir, sorg, söknuður og óuppgerð leyndarmál koma við sögu. Ást höfundar á íslenskri náttúru kemur einnig sterkt fram og hún syrgir jafnt lífið sem og örlög landsins. Um þetta segir Þórunn Hrefna:

„Hún er innileg ástin á íslenskri náttúru sem logar og skín í þessu verki, eins og í fleiri verkum Steinunnar Sigurðardóttir, með ótrúlega fallegum lýsingum. Sérlega næm tilfinning fyrir landslagi er enda samofin öllu höfundarverki hennar. Hin síðari ár fær óttinn við yfirvofandi hamfarir af mannavöldum æ meira pláss.“

Jöklasorgin grípur mig, jafnvel núna grípur hún mig. Að það skuli geta gerst að við tortímum heimsins hvíta himnaljósi. Hversu óhugsandi að heimajökullinn minn, okkar pabba, mömmu, Ásu, muni aðeins lifa mig um hundrað ár eða svo, fara stöðugt hrakandi, tærast upp eins og sjúklingur með berkla, með krabbamein. (177)

Sjá hér umfjöllun Þórunnar Hrefnu í heild sinni á Bókmenntavefnum.

Materials