Friðrik Agni giving a workshop

Kærleiksorðræða | Orðasmiðja með Miriam og Friðriki

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Friðrik Agni Árnason hvöttu okkur til að endurhugsa hvaða þættir gera Íslending að Íslendingi? Hverskonar manneskju ímyndum við okkur þegar við heyrum orðið Íslendingur? Hvernig Íslendingar erum við og hvað myndi styðja okkur í að viðurkenna fólk með fjölbreytta fjölskyldusögu og misdökkan húðlit sem jafn íslensk og önnur sem falla betur að staðalímynd um Íslending. Eins og Miriam og Friðrik bentu á:

Við erum öll bara Íslendingar og það ætti að vera nóg sem svar - en við þurfum samt oft að útskýra það með auka orðum því fólk tekur ekki mark á skýringum okkar.

Í orðasmiðjunni var leitað að nýjum íslenskum orðum sem ná utan um lifða reynslu Íslendinga sem hafa oft verið krafin um svör um uppruna sinn vegna húðlitar eða annarra persónueinkenna. Hópurinn fór á hugarflug og prófaði sig áfram með ýmis orð sem gætu hjálpað við að lýsa raunveruleika án þess að draga úr því hversu mikið eða hvort einstaklingur teljist íslenskur eða ekki. Hér eru nokkur orðanna sem komu frá hópnum: fjöllendingur, kokteill, hérlenskur, bragðarefur, píosý Íslendingur (P.O.C. person of color).

person writing on paper Orðasmiðja, hver er íslendingur

Orðasmiðjan var hluti af verkefni Bókasafnsins Kærleiksorðræða. Kærleiksorðræða er verkefni sem leggur áherslu á upplifun, tilfinningalæsi og eignarhald á tungumálinu. Öll þau sem koma að verkefninu eru hvött til að búa til ný íslensk orð. Eins og titill verkefnisins ber með sér er lögð áhersla á leik að orðum. Öllum nýju orðunum er safnað saman í nýstárlega orðabók sem er geymd á Borgarbókasafninu. Auk þess sköpum við vettvang til að ræða það sem er okkur kært – upplifun okkar af samskiptum.

Frekari upplýsingar um Kærleiksorðræðu veitir:
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is

UppfærtÞriðjudagur, 20. ágúst, 2024 10:37