
Um þennan viðburð
Ljóðakaffi | Skáldkvennaþrenna
Með hækkandi sól koma þrjú ljóðskáld á Borgarbókasafnið í Kringlunni að lesa upp og spjalla um nýútkomnar ljóðabækur sínar. Ljóðskáldið Brynja Hjálmsdóttir stýrir umræðum Önnu Rósar Árnadóttur, Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur og Þórdísar Drafnar Andrésdóttur. Þessar þrjár ungu skáldkonur eiga það allar sameiginlegt að vera að gefa út fyrstu ljóðabókina sína en þær eru aldeilis að hasla sér völl innan bókmenntaheimsins.
Anna Rós hefur birt ljóð og ljóðaþýðingar í Tímariti Máls og menningar, Ljóðabréfi Tunglsins og víðar. Anna er hluti ljóðahópsins MÚKK, hóps ungskálda sem hafa látið nokkuð að sér kveða undanfarið. Í janúar 2025 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Skeljar“. Með ljóðabókinni Fyrir vísindin kveður Anna Rós sér hljóðs með vísindalegri nákvæmni.
Birgitta Björg er skáld og tónlistarkona. Skáldsaga hennar Moldin heit (2024) var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Fjöruverðlaunin 2025 í flokki fagurbókmennta. Í nýútkominni ljóðabók hennar Draugamandarínur (2025) er að finna hennar helstu yrkisefni: erótík, líkamann, skynjun og hrylling.
Þórdís Dröfn er nýlega komin aftur til Íslands eftir nám við háskólann í Árósum og starfar nú sem aðjúnkt við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í fyrra fyrir ljóðabókina Síðasta sumar lífsins. Umfjöllunarefni ljóðanna eru þau sömu og skáld hafa fengist við frá örófi alda; ástin, dauðinn, náttúran, svo eitthvað sé nefnt, en höfundur tekst á við þemun af tilfinningalegri dýpt, næmni og frumleika.
Brynja Hjálmsdóttir er mjög virk í íslensku ljóðsenunni, ásamt því að skrifa stendur hún líka á bak við upplestrarseríuna Ljóð og vinir, ásamt Fríðu Ísberg. Brynja fékk tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir sína fyrstu bók, Okfrumuna, og hlaut einnig Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslanna. Fyrir ljóðabókina, Kona lítur við, hlaut Brynja tilnefningu til Maístjörnunnar. Hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2022 og sama ár hlaut hún Hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur. Fyrsta skáldsaga hennar Friðsemd kom út 2024.
Öll velkomin
Nánari upplýsingar veita:
Hólmfríður María Bjarnardóttir, sérfræðingur
holmfridur.maria.bjarnardottir@reykjavik.is | 411 6202
Guttormur Þorsteinsson, sérfræðingur
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | 411 6204