Marjón með dómnefndinni

Viðtal | „Mig langaði að segja eitthvað magnað með þeim auðvelda orðaforða sem ég kann“

segir Marjón sem kom sá og sigraði á Ljóðaslammi Borgarbókasafnsins 2025. Ljóðið Ég neita er fyrsta ljóðið sem Marjón semur á íslensku, en hún kemur frá Bretaníuhéraði í Frakklandi.

Ljóðaslamm á uppruna sinn í Chicago á níunda áratugnum og snýst um flutning frumsaminna ljóða. Ólíkt hefðbundnum ljóðaupplestri er áhersla lögð á ljóðaflutning sem sviðslist, sem getur birst á margvíslegan og oft skemmtilegan hátt. Viðburðurinn á Vetrarnótt var vel sóttur og frábær stemmning í húsinu meðan þátttakendur fluttu atriði sín. Ljóst er að áhugi á ljóðaslammi er mikill hér á landi og hugsanlega má tengja vaxandi áhuga við aukinn sýnileika ljóðlistar í samfélaginu, með viðburðum eins og Ljóð & vinir og Reykjavik Poetics


Langar í orðaforða um stjórnmál og feminisma

Marjón kom fyrst til Íslands sem skiptinemi í háskóla þegar hún var í grunnnámi í norrænum fræðum. Eitt leiddi af öðru og nú er hún á lokasprettinum í doktorsnámi við Háskóla Íslands, í sama fagi.

„Ég held þetta hafi verið smá svona reiðitilfinning í ljóðinu vegna þess að mér finnst ég ekki geta verið til á íslensku. Mér finnst sorglegast að læra tungumálið til nota það á íslenskunámskeiði en ekki í lífinu sjálfu, sem er mjög skrítið því við búum á Íslandi. Mig langar að fá orðaforða um stjórnmál, um femínisma, um fréttir eða eitthvað sem ég hef áhuga á. Uppáhaldstilfinningin mín er þegar ég gleymi því að ég er að tala íslensku því ég hef svo mikinn áhuga á því sem ég er að tala um! Við erum svo ólík að það er mikilvægt að hafa fjölbreyttar aðferðir við að læra tungumálið. Til dæmis gengur mér best að læra tungumál þegar ég er skapandi. Einnig væri gaman að læra orðaforða til að geta grínast á íslensku.“ 

Hún segir að það sé fínt að læra orð eins og foss, hraun og eldgos, sem hún notar í sigurljóðinu, en þau komi fólki ekki langt í daglegu lífi. Þá vanti tilfinnanlega fleiri bækur á íslensku sem brúi bilið milli barnabóka og skáldsagna, fyrir þau sem eru að læra tungumálið,

„Ég bara get ekki lesið fleiri barnabækur.“

 

Hefði hætt við ef ekki fyrir stund með prjónahópnum

Þegar Marjón flutti til Íslands lærði hún fyrst ensku áður en hún lærði íslensku. Auk frönsku talar hún einnig spænsku vegna tengsla við Argentínu, og smá í pólsku en maðurinn hennar er frá Póllandi. Þrátt fyrir það segist hún ekki vera góð í að læra tungumál, það sé ferðalag og mikilvægt sé að geta hlegið að sjálfri sér. Í Argentínu hafi hún byrjað að tala spænskuna eftir nokkra mánuði og fólk þar sagt að framburðurinn og mistökin skiptu engu máli, öll þekktu ömmu eða afa sem talaði spænsku með hreim, að vera innflytjandi væri bara jákvætt og mistök skemmtileg.

„Einu sinni í viku fer ég í Gröndalshús og skrifa smásögur og ljóð með „Zebras“, hópi fólks sem er ekki með íslensku sem móðurmál. Rithöfundar koma í heimsókn og við deilum reynslu við skapandi skrif á Íslandi. Síðasta sumar fór ég síðan á námskeið í skapandi skrifum á Borgarbókasafninu þar sem ég skrifaði fyrstu stuttsöguna mína á íslensku og flutti hana á safninu á menningarnótt. Ég upplifi Grófina sem öruggt rými svo ég ákvað að prófa.“

Þetta var í fyrsta sinn sem Marjón tekur þátt í ljóðaslammi en þar til í sumar hafði hún aðeins skrifað texta á frönsku og ensku.

„Ástæðan fyrir því að ég tók þátt var að Elías vinur minn, sem tók einnig þátt, sagði að það væri mikilvægt að þátttakendahópurinn væri fjölbreyttur og að við sýndum skap okkar í opinberu rými. Mér fannst ég mjög, mjög heppin að það var stór hópur af erlendum uppruna meðal þátttakenda, það skiptir máli að vera skapandi á íslensku og ensku og eitthvað þar á milli. Það er svo mikilvægt að hafa pláss til að taka þátt í samfélaginu. Innflytjendur eru hópur sem hefur eitthvað að segja, það skiptir ekki máli að það sé fullkomið. Ljóðaslamm var mjög nýtt fyrir mér en ég elskaði þennan, mic drop stíl, ekki bara lesa ljóðin heldur eiga samskipti við gesti, sem var sterkari tilfinning en t.d. í ljóðabók. En ég var mjög hrædd við hugmyndina, ég vissi ekki hvað ljóðaslamm var og í Frakklandi myndi listformið þykja skrítið. Mér finnst ég hafa meira að segja hér en í Frakklandi.“

Marjón hefur ekki aðeins lært íslensku og ensku eftir að hún flutti til Íslands heldur einnig að prjóna og prjónar nú öllum stundum, lopapeysur, sjöl og fleira. Hún er tíður gestur í vikulegum hannyrða-og bókahittingum í Grófinni sem standa öllum opnir.

„Mig langaði að hætta við þátttöku daginn fyrir Ljóðaslammið því ég fann engan til að lesa yfir málfræðina í ljóðinu mín, þótt það þyrfti ekki að vera fullkomið fannst mér betra að fá yfirlestur. Ég kannaði nokkra staði en það gekk ekki. Svo mætti ég í prjónastundina og spurði hópinn hvort þær vildu lesa yfir fyrir mig sem þær voru mjög til í. Ég hefði hætt við ef ég hefði ekki átt stund með hannyrðahópnum. Það var líka mjög góð hvatning, þær trúðu því að ég gæti þetta. Ég var mjög stressuð en mig langaði að vera með því ég trúði á skilaboðin sem ég var með. Í ljóðinu meinti ég líka að stundum finnst mér eins og ég eigi að elska allt við Ísland til að vera „góður innflytjandi“, en það er ekki þannig þótt ég elski margt. Ég elska ekki íslenskuna en ég hata hana ekki, hún er bara jafn skemmtileg og önnur tungumál. Íslenskan er tæki í mínu tilfelli. En við erum öll með mismunandi tilfinningu og reynslu varðandi íslenskuna og það er allt í lagi! Íslenskan er nauðsynleg fyrir mig, vegna þess að ég bý hér, og mig langar að tala og nota hana. En það sem mér finnst skemmtilegast við íslenskuna er að vera skapandi, og hafa gaman að því að búa til nýjar merkingar og hugmyndir.“
 


Bókasöfnin eru mikilvæg fyrir innflytjendur

Hannyrðahittingurinn er ekki aðeins notaleg prjónastund í góðum félagsskap fyrir Marjón heldur segir hún stundirnar vera um það bil eina tækifærið sem henni gefst til að æfa sig að tala íslensku um allt milli himins og jarðar. Flest störf sem hún hafi unnið hafi verið við þjónustu eða á hótelum og heima tali hún ensku við manninn sinn.

„Bókasafnið er mjög nauðsynlegur staður, gott og öryggt rými, sérstaklega fyrir fólk sem er einangrað. Þar er mjög mikilvægt samfélag, einskonar, "gravitation center". Draumurinn væri bara að það væri opið lengur, þetta er svo miklu meira en bara bækur. Ég fór í veikindaleyfi og byrjaði þá að koma á safnið þegar ég skráði mig á námskeiðið í skapandi skrifum fyrir fólk með íslensku sem annað mál. Í framhaldinu hef ég nýtt mér safnið mjög mikið. Ég er í samskrifahóp sem hittist reglulega, mætti á Framtíðarfestivalið, hannyrðastundirnar og auðvitað Ljóðaslammið. Bókasöfnin eru mikilvæg fyrir innflytjendur, við erum ekki með fjölskyldu og  sum ekki með vinnu og þá er mikilvægt að hafa rými. Í heimalandinu var ekki eins mikil þörf fyrir það. Ég gat fyrst ekki hitt Íslendinga á öðrum stöðum, nema kannski í vinnunni eða skólanum, en þá var það yfirmaður, kennari eða börn, mig langaði að hitta Íslendinga sem væru…hvað heitir það, jafningjar.“ 
 

Nörd sem lærði forníslensku

Á Ljóðaslamminu var Marjón kynnt á svið sem þátttakandandinn sem hefur lesið 40 Íslendingasögur, langt um fleiri en flest þeirra sem eru fædd og uppalin hér á landi. Ástæðuna fyrir valinu á námi í norrænum fræðum segir hún vera tilkomna vegna þess að hana langaði í skiptinám til Norðurlandanna. Á Bretaníu sé líka mikið um söngva um að fara og koma aldrei aftur og áður fyrr var mikið um að sjómenn sigldu þaðan til Íslands. Aðspurð hver sé uppáhalds Íslendingasagan hennar stendur örlítið á svari,

„Þetta er mjög erfið spurning, Gíslasaga eða Grettissaga, ég elska útilegumannasögur vegna þess að þeir ögra samfélaginu. En Melkorka í Laxdælasögu er uppáhalds persónan mín. Ég er að skrifa ljóð um hana núna. Ég held að við, konur af erlendum uppruna, getum tengt við hana. Hún var írsk og talin vera mállaus og heimsk en eftir smá stund uppgvötaði fólk að hún gat talað. Hún var prinsessa frá Írlandi en þræll á Íslandi og ég held að margar konur tengi við reynsluna af því að missa sjálfsmyndina sem þær höfðu áður en hafa ekki lengur hér. Ég tengi mikið við Melkorku, hvernig hún var í samfélaginu og hvernig fólk talaði um hana. Af því að hún talaði ekki íslensku þá var litið svo á að hún gæti ekki neitt. Ég er nörd sem lærði forníslensku og mig langar að Íslendingasögurnar, með stóru S, hafi áhrif og samkennd í nútímanum.“

Marjón segir að sigurinn í Ljóðaslamminu hafi verið sér hvatning til að skrifa meira. 

„Ég lærði mikið á því að skrifa þetta ljóð. Það var mikilvægt að eiga þessa jákvæðu stund þar sem tengist íslenskunni minni! Ég held ég myndi taka þátt aftur.“

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 14. mars, 2025 12:20