Margt smátt | Glútenóþolandi
Glútenóþolandi
Það birtir af morgni en það er ennþá dálítið kalt. Sólin er að gægjast upp fyrir sjóndeildarhringinn og hitar rólega upp eftir kulda næturinnar. Í húsgarði í miðbæ Reykjavíkur eru tvö stór grenitré og undir þeim báðum eru að því er virðist einhverjar fatahrúgur. Það heyrast stunur undan öðru trénu og hreyfing kemur á aðra hrúguna sem stynur. Hreyfingar hennar eru stirðar og hægar og það er ekki laust við að maður sjái líkingu við bíómyndina Matrix. Það eru þó engir hetjulegir taktar í þessum hreyfingum eins og hans Neos. Skítugt andlit kemur í ljós og það lítur út fyrir að það tilheyri konu á sjötugsaldri. Hún barmar sér ógurlega og tekur um höfuð sitt.
- Æ, æ aaaaaíííííííííí...
Hún fer rólega yfir í það að fálma á fötunum sínum og rekur svo hendurnar á kaf í alla vasa í leit að einhverju. Hún leitar líka innan í fötunum en virðist ekki finna það sem hún leitar að. Vonbrigðin í óhreinu andliti hennar leyna sér ekki.
- Nú jæja það var aldrei að ég myndi svo bara drepast úr þorsta af öllum öðrum mögulegum dánarorsökum.
Hún réttir hendurnar upp eins og hún sé að skrifa í loftið stórum stöfum.
- Það verður þá ekki „Kona fannst látin, frosin í hel.“ heldur „Kona fannst látin úr þorsta og héldu fyrstu menn á vettvang að ofvaxin sveskja væri þar fundin.“ Ég hefði átt að verða fréttamaður. Ég sé það núna. Gott að ég komst að því hvað ég átti að verða núna þegar engin von er til þess að fá vinnu við slíkt. Þeir fara nú ekki að ráða konu á mínum aldri og ég sem er í mínu fínasta pússi núna, lít út eins og uppvakningur eða eitthvað dregið upp úr fjóshaug.
Hún bisar við að standa upp sem gengur erfiðlega en tekst þó að lokum og þegar það tekst þá grípur hún aftur um höfuð sér.
- Æ! Þvílíkar kvalir, er ekki nóg að drepa mann úr þorsta þarf líka að stinga mann með hníf í hausinn? Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta, blásaklaus konan?
Hún lítur ásakandi til himna og steytir hnefann upp í loftið. Skýin virðast færa sig frá en sólin heldur áfram upprás sinni eins og hún hvorki heyri né sjái kerlinguna.
- Þú færð að kenna á því gamli gaur þegar ég kem til þín. Þá færðu að vita hvar Bubbi keypti bjórinn, helvítis melurinn sá.
Hún fer aðra umferð yfir vasa sína og finnur ekkert. Hún lítur í kringum sig eins og hún sé að leita að einhverju og sér þá í svört stígvél sem standa undan hinu grenitrénu í garðinum við hliðina á því sem hún skreið undan.
- Bubbi! Hún sparkar lauslega í annað stígvélið en ekkert heyrist í honum og enga hreyfingu að sjá.
- Ertu dauður? Ekkert svar berst undan trénu.
- Hvað gerðir þú við bjórinn? Hún togar í fæturna á honum og sér að ekki er allt með felldu.
- Þú ert þá í alvörunni dauður, auminginn. Hún fer að gramsa í fötunum hans og finnur einn bjór.
- Já það var lagið, nú verður allt betra. Takk Bubbi minn, félagi og vinur. Hún opnar bjórinn og lyftir honum upp eins og í skál.
- Skál fyrir þér félagi og þeirri fórn sem þú færir mér í dag. Hún tekur drjúgan sopa, en frussar honum út úr sér.
- Ojbara, hveitibjór! Veistu ekki að ég er glútenóþolandi drullusokkurinn þinn, ertu að reyna að drepa mig?
Lítil stúlka um sjö ára, með tagl í dökku hárinu og klædd í gallabuxur og Cintamani úlpu, er að ganga framhjá lóðinni.
- Við hvern ertu að tala? spyr hún hissa.
Hún snýr sér að stúlkunni og horfir á hana um stund. - Bubba ef þér kemur það við.
- Hver er Bubba?
- Hann heitir Bubbi.
- Ó.
- Hann er dauður.
- Nei.
- Jú, í alvörunni.
- Draptir þú hann?
- Drap, nei auðvitað ekki. Hann hefði þó átt það skilið fyrir að reyna að eitra fyrir mér þessi dólgur
- Hvað er dólgur?
- Það... æ, hættu þessum spurningum og komdu þér nú heim til þín.
- Já.
Þetta svar stúlkunnar var heldur aumingjalegt og hún drúpir höfði leið. Hún tekur eftir þessu og reynir að leiða það hjá sér en tekst það ekki. - Það er óþarfi að vera leið, varstu ekki á heimleið?
- Nei, ég á að vera úti að leika mér.
- En það er varla kominn dagur.
- Mamma var að vinna í nótt og ég má ekki vera með læti.
- Ertu alltaf með læti þegar þú ert inni?
- Nei, bara stundum og þá er það alveg óvart.
- Hvert ætlaðir þú svo að fara að leika þér?
- Ég veit það ekki, ég á enga vinkonu.
Hún virðist alveg búin að gleyma sínum höfuðkvölum.
- Jú, víst áttu vinkonu.
- Nei.
Hún sér að það læðast tár niður kinnar stúlkunnar. - Núna erum við vinkonur og við skulum koma út á róló.
Stúlkan lítur upp hissa og þurkar sér um augun. - Er það hægt?
- Hvað áttu við, er það hægt? Ég meina, hvað meinar þú?
- Ég er stelpa og þú ert gömul kona.
- Aldur skiptir engu máli ef maður nennir að leika sér.
Stúlkan virðist ekki alveg viss og er óörugg. - Ég má ekki tala við ókunnuga.
- Þú ert nú þegar búin að tala við mig svo heiti ég Kata svo að þá veistu það.
- Ég heiti Klara.
- Þarna sérðu, Klara og Kata byrja á sama staf og hljóta þá að eiga að vera vinkonur. Komum á róló.
Hún fer úr garðinum og þær ganga saman niður götuna, hlið við hlið, gömul og ný. Báðar með tilhlökkun í maganum yfir því að fara að leika. Allt í einu heyrast hróp og köll.
- Klara! Klara mín! Komdu heim!
- Hæ, mamma, ég er að fara út á róló að leika með henni. Stúlkan bendir á Kötu. Mamma stúlkunnar kemur á harðaspretti og rífur í hendi litlu stúlkunnar.
- Komdu heim núna strax! Mamman dregur stúlkuna frá gömlu konunni. - Þú mátt leika inni í dag, Klara.
- En má Kata koma inn að leika?
- Nei!
- Æi, mamma.
- Þú mátt ekki tala við þessa konu aftur, heyrir þú það?
- En hún er góð og vildi leika við mig.
- Þetta er vesalingur og ég banna þér að leika við vesalinga.
- Bless, Kata. Ég má ekki leika....
Mamma Klöru dregur hana hratt í burtu og heim í hús. Á meðan á þessu stendur er það höfuð hennar Kötu sem sígur niður og tár trítla niður skítuga vanga hennar. Hún á enga vini heldur og hún á ekkert til að drekka, ekkert til að deyfa sársaukann í hjartanu. Ekkert. Þegar hún er horfin inn í húsasund hreyfist hin hrúgan og í ljós kemur Bubbi.
- Kata! Hvar ertu, Kata mín?
Höfundur: Oddfreyja H. Oddfreysdóttir