Jóladagatal | Stikkprufur úr flóðinu 2024
Líkt og síðustu ár laumast rithöfundar og þýðendur til byggða með glóðvolgar bækur. Fyrst komu þau við á Borgarbókasafninu í Sólheimum og sitja þar nú og bíða eftir að við opnum gluggana á dagatalinu.
Fylgist vel með hér eða á Facebook í desember, alla daga fram að jólum!
21. desember
Bjúgnakrækir kom í gær til byggða, í dag kom Gluggagægir og ásamt honum Jónas Reynir Gunnarsson og skáldsagan Múffa. Þar segir frá afar heimakærum manni sem fær sendingu frá jólasveininum. Eða allavega einhverja dularfulla sendingu. Og öll sagan gerist á einni nóttu.
20. desember
Gunnar Helgason hefur skrifað margar barnabækur og það hefur Bjúgnakrækir líka gert. En hann var vant við látinn svo Gunnar birtist einn í glugganum hjá okkur í dag. Hann segir okkur frá nýjustu bókinni Stella segir bless.
19. desember
Þá eru fimm dagar til jóla, Skyrgámur kom til byggða í morgun ásamt Birgittu Björg Guðmarsdóttur og þau koma færandi hendi: Moldin heit, heitir fyrsta skáldsaga Birgittu, sem slegið hefur rækilega í gegn þetta flóðið.
18. desember
Eftir þrjá daga eru vetrarsólstöður, það er stysti dagur ársins, þá er sólargangur stystur og við gleðjumst yfir því að daginn tekur að lengja á ný. Allt fer í hringi og Sólin er hringur er ljóðabók eftir Höllu Þórðardóttur sem birtist okkur eins og völva í dagatalsglugga dagsins.
17.desember
Það er vika í jól. Í glugga dagsins birtist Dauðadómurinn og höfundur hans, Steinunn Kristjánsdóttir. Við gefum henni orðið og vonum það besta.
16.desember
Nú nálgast jólin óðfluga, aðeins átta dagar í aðfangadag og mörg okkar farin að sjá hvíldina í hillingum. Í dag birtast okkur Svikaskáld og bjóða okkur að fylgjast vel með draumförum á þessum helga tíma... Ég er það sem ég sef heitir nýjasta ljóðabók hópsins.
15.desember
Rétt rúm vika til jóla (já, 9 dagar!) og eflaust mörg farin að huga að jólatrjánum, en við skulum ekki láta bókmenntirnar falla í skugga þeirra, en í glugga dagsins birtist Guðrún Eva Mínervudóttir með skáldævisöguna Í skugga trjánna.
14. desember
Tíu dagar til jóla og það var ekki bara Stúfur sem kom til byggða í morgun heldur líka Elías Rúni með bókina Kynsegin, sem er teiknuð sjálfsævisaga höfundarins Maia Kobabe, sem Elías þýddi ásamt Mars Proppé.
13. desember
Föstudagurinn þrettándi, gott fólk og fyrir ótrúlega tilviljun (eða hvað?) birtist okkur Símon Jón Jóhannsson með bókina Svartir kettir, fullt tungl og rauðhærðar konur. Hjátrú, hvað?
12. desember
Það kom óvæntur ferðafélagi með Stekkjastaur í morgun, nefnilega Eiríkur Bergmann og með honum var svo Óvæntur ferðafélagi líka. Meiri fimmtudagurinn.
11. desember
Í dag er það Guðmundur Andri Thorsson sem birtist okkur í glugga jóladagatalsins - og Synir himnasmiðs! „Þetta eru karlar sem eru staddir á ýmiss konar tímamótum í lífi sínu,“ segir hann meðal annars um bókina. Og við minnum á að í kvöld er von á skeggjuðum karli á tímamótum -- sem laumar kannski góðgæti í skó í glugga.
10. desember
Tvær vikur til jóla. Gunnar Theódór Eggertsson leikur melódíu á melódíku í dag. Og Vatnið brennur. Og jólin koma. Það getum við allavega verið viss um.
9.desember
Í dag eru það Eldri konur sem gægjast út um glugga jóladagatalsins, ásamt höfundinum Evu Rún Snorradóttur. Bókin sem var nýlega tilnefnd til Fjöruverðlaunanna er fagurrauð og jólaleg að utan og við skulum heyra hvað höfundurinn segir um innihaldið.
8.desember
Í dag er annar í aðventu. Jólahátíðin nálgast, fólk fer að hugsa heim, leyfir sér kannski að dvelja í nostalgíunni örskamma stund -- og hvað er þá betra en ljóðalestur? Ekkert. Það er því viðeigandi að Þórður Sævar Jónsson birtist í glugga jóladagatalsins í dag með bókina sína, Heimkynni.
7. desember
Það er laugardagur, það er nammidagur og það er Bergrún Íris sem gægist út um gluggann í dag, með bók við hæfi ---
... þó ekki mjög ungra barna.
6. desember
Drungi í desember. Alls konar bækur koma út. Líka drungalegar bækur. Og spennandi bækur – eins og spennan fyrir jólunum sé ekki nóg! Anna Rún Frímannsdóttir gægist út um gluggann í dag með Dauðaþögn.
5. desember
Nú eru nítján dagar til jóla og allir vinahópar herja á ykkur, hvenær eigum við að hittast? En þið hafið ekki tíma til að rigga upp hverri veislunni á fætur annarri ... eða hvað? Gabríel Kristinn Bjarnson erkikokkur, sem gægist út um glugga jóladagatalsins í dag, boðar yður mikinn fögnuð. Þetta verður veisla! Einföld veisla.
4. desember
Lýðræði er mörgum ofarlega í huga þessa dagana og viðeigandi að Hrafnkell Lárusson gægist út um glugga jóladagatalsins í dag með bók sína um það efni: Lýðræði í mótun
3. desember
Í dag blasir enginn annar en Úlfar Þormóðsson við okkur í glugganum. Kafalda heitir skáldsaga hans.
2. desember
Stjörnubjart úti, stjörnum í gluggum jafnvel farið að fjölga líka. Og Margrét Lóa Jónsdóttir birtist okkur í glugga dagsins, með ljóðabók sína Pólstjarnan fylgir okkur heim, sem í ár hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Hlustið af athygli.
1. desember
Fyrsti desember, fyrsti í aðventu og fyrsti eftir kosningar. Tími til að anda ofan í maga, búa sig undir jól og næstu daga, reyna að muna eftir að njóta – ekki síst bókmenntanna. Við opnum fyrsta gluggann í jóladagatalinu okkar og fyrsti rithöfundurinn sem gægist þar út er Lilja Rós Agnarsdóttir, með bók sína Áttunda undur veraldar.
Stikkprufur úr fyrri flóðum: