Skáldsagan Middlemarch, A Study of Provincial Life eftir George Eliot er á meðal þekktustu bókmenntaverka 19. aldarinnar. Höfundur fléttar saman sögum margra persóna og dregur upp raunsæja, en um leið kómíska, mynd af rótgrónu samfélagi sem sér fram á óvelkomnar breytingar. Sagan gerist í Englandi á árunum 1829-32 og inniheldur ýmsar vísanir í sögulega atburði á þeim tíma, þar á meðal umbótalöggjöfina 1832, upphaf járnbrautarlesta og dauða Georgs IV. Einnig er snert á málefnum eins og stöðu kvenna, eðli hjónabandsins, trúmálum, hugsjónastefnu, hræsni, pólitískum umbótum, læknisfræði, menntun o.fl. George Eliot er höfundarnafn Mary Anne Evans, en hún var enskur skáldsagnahöfundur, skáld, blaðamaður, þýðandi og einn fremsti rithöfundur Viktoríutímans.