Viðtal | Hinseginleikinn ekki lengur laumuspil
Hinsegin bókmenntir hafa tekið stakkaskiptum og eru í miklum vexti að sögn lektors í íslenskum samtímabókmenntum við Háskóla Íslands. Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur um árabil fengist við rannsóknir á hinsegin bókmenntum og segir fagnaðarefni að sjá þróun þeirra síðustu ár og áratugi. Bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks sé hins vegar áhyggjuefni og geti sett strik í reikninginn.
Ásta Kristín leiðir kvöldgöngu sem ber titilinn Sögusvið hinsegin bókmennta, fimmtudaginn 4. ágúst kl. 20-21:30, en Borgarbókasafnið hefur staðið fyrir hinsegin göngum í meira en 15 ár.
„Það er ótvírætt þannig að á síðustu fimm til fimmtán árum hafa það sem við köllum hinsegin bókmenntir breyst mikið, bæði erlendis og á Íslandi. Það er verið að fjalla um hinsegin málefni á alvöruþrungnari hátt. Í stað þess að hinsegin þemu séu hálf falin og í bakgrunninum, snerti kannski einhverjar bakgrunnspersónur eða einhverja leynda þætti í lífi aðalpersónunnar, þá erum við komin með fjölmargar bækur sem fjalla fyrst og fremst um aðalpersónu sem er hinsegin. Það er svolítið misjafnt hvort kynhneigðin sjálf eða kynvitundin séu í aðalhlutverki og skipti máli fyrir efni bókarinnar eða hvort hún er bara aukaatriði sem skiptir kannski ekki öllu máli en er samt mikilvæg í lífi aðalpersónunnar. Hvort tveggja er eitthvað sem við sjáum frekar mikið af núna. Þetta er breyting frá því sem áður var,“ segir Ásta Kristín um þróunina.
Áður fyrr þegar höfundar tókust á við það verkefni að skrifa um hinseginleika hafi þeir oft gert það á laumulegan hátt til að forðast ritskoðun útskýrir hún. Skrifað jafnvel á milli línanna þannig að það þurfti að leita að merkingunni. Það hafi frekar heyrt til undantekninga að rithöfundar skrifuðu opinskáar bókmenntir en þegar það hafi gerst hafi þær oft orðið umdeildar og jafnvel verið bannaðar sums staðar.
Áhugaverð þróun
Ásta Kristín segir að frá sjónarhóli bókmenntafræðings þá séu ákveðnar hliðar á þessari þróun mjög áhugaverðar - þótt þær séu henni kannski ekki alltaf alveg að skapi.
„Það sem gerir hinsegin bókmenntarýni svo ógeðslega spennandi er að það sem við leitum að er oft svo falið. Bæði þurfum við að leita að bókunum sjálfum og höfundum og síðan þegar við erum komin með það þá þurfum við oft að grafa á milli línanna, túlka, finna tákn og svo framvegis. Þegar við erum komin með bókmenntaverk sem eru svona opinská eins og mörg hinsegin skáldverk síðustu ára þá er þessi hlið ekki eins „bjóðandi“, getum við sagt. Það er ekki eins mikið fyrir bókmenntafræðinga að gera núna í því að grafa upp hinseginleikann eins og áður var. Þannig að því leyti er þetta ekkert alltaf besta þróunin fyrir okkur sem eru í fræðimennskunni,“ segir hún og kímir.
Kallar á öðruvísi nálgun
Til að fyrirbyggja misskilning flýtir Ásta Kristín sér að taka fram að vissulega sé þetta líka „jákvæð og frábær þróun“. Bókmenntafræðingar nútímans sem eru að skoða hinsegin bókmenntir þurfi bara að horfa öðruvísi á málin. Þetta kalli einfaldlega á öðruvísi umfjöllun. Öðruvísi greiningu. Bókmenntafræðingar séu kannski minna í því núna að kafa eftir merkingu og því að „leiða hið ósagða í ljós“, eins og tíðkaðist ef til vill frekar hér áður fyrr, og meira í því að skoða verkin í heild og félagslegt hlutverk þeirra.
„Ennfremur eru þessar opinskáu hinsegin bókmenntir sem við erum að sjá núna bara eins og allar aðrar bókmenntir; þær eru ekki endilega bara hinsegin bókmenntir, þær eru svo margt annað,“ bendir Ásta Kristín á.
Það skrifist á það að fleiri höfundar séu farnir að skrifa um þessi málefni og fleiri verk séu farin að takast á við þau af alvöru. Stundum sé umfjöllunin dálítið yfirborðskennd og jafnvel óþægileg eða óviðeigandi en einnig sjáist margar bækur með dýpri hugsun en áður sást og fjölbreyttari persónugalleríum og viðfangsefnumin. Verkin sé því hægt að skoða frá endalaust mörgum sjónarhornum og það bjóði upp á fleiri túlkunarmöguleika.
Óttast bakslag í útgáfu hinsegin bókmennta
Ásta Kristín skýtur inn í að þó þetta hafi verið þróunin síðustu ár og áratugi þá sé alls ekki sjálfgefið að hún verði það áfram. Víða um heim hafi orðið bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks og viðbúið að það bitni á útgáfu hinsegin bókmennta.
„Ég held að bakslagið geti vel haft þau áhrif að rithöfundar sem ætla að skrifa um hinseginleika þurfi að fara skrifa meira undir rós til þess að verða ekki ritskoðaðir eða verða fyrir alvarlegu aðkasti.“
Hún segir að vissulega yrði erfitt að fara í það far aftur og eins að geta ekki gefið út bækur sem hafa orðið til á síðustu 10 - 20 árum. „En við verðum að búa okkur undir visst bakslag í útgáfu hinsegin bókmennta rétt eins og við erum að sjá bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Ég vona að það verði ekki mikið hér á landi en ég held að við þurfum ekki að horfa langt út fyrir landsteinanna til þess að sjá að það er farin af stað ákveðin þróun sem þrengir að tjáningarfrelsi hinsegin fólks - og það hefur líka áhrif á tjáningu í skáldverkum.“
Mikilvægt að fyrirbyggja þöggun
Í því sambandi minnir Ásta Kristín á að skáldskapur hafi alltaf verið eitt mikilvægasta tæki fólks í jaðarstöðu til að tjá sig um sig og sína reynslu. Skáldskapurinn sé oft mjög afgerandi pólitískt verkfæri. Það að skrifa skáldskap um hinsegin líf og hinsegin reynslu sé ekki bara einhver aðgerð sem fagni fjölbreytileikanum heldur sé hún líka í sjálfu sér pólitísk aðgerð. Ekkert síður nú en áður.
„Og við þurfum að vera vakandi fyrir því að skáldskapurinn mun skipta miklu máli í framtíðinni. Við þurfum að halda áfram að skrifa og gefa út hinsegin skáldverk. Það er bara hluti af þeirri baráttu sem við verðum að halda áfram á næstu árum og áratugum. Við þurfum að halda áfram að skrifa um hinsegin líf og hinsegin reynslu einfaldlega til að minna á hún er til og á rétt á sér og hún er sýnileg og verður ekki þögguð niður.“
Að því leyti segist Ásta Kristín vera bjartsýn á framtíð hinsegin bókmennta þar sem hún lítur á þær sem mikilvægt tól. Bæði fyrir skáldskapinn almennt og lesendur sem leita í þær eða þurfa á þeim að halda en líka í pólitískri baráttu fyrir sýnileika og réttindum.
„Skáldskapurinn er allt þetta. Við getum endalaust rifist um hvort hann eigi að vera fullkomlega fagurfræðilegur eða pólitískur og með samfélagslegar vísanir,“ segir hún, „en persónulega held ég að hann sé alltaf bæði, alltaf hvort tveggja, og í hinsegin samhengi er hann ekkert minna mikilvægur en í öðru mikilvægu samhengi.“
Aðkoma Borgarbókasafnsins ómetanleg
Ásta Kristín segist því vera mjög þakklát og glöð með hinsegin safnkost Borgarbókasafnsins, sérstaklega í Grófinni, annars vegar og í Rafbókasafninu hins vegar. Hann sé gríðarlega mikilvægt framtak. „Ég held að þetta sé svolítið sérstök aðgerð í bókmenntasamhengi,“ segir hún hugsi. „Það er að segja að ákveðinn efnisflokkur sé tekinn svona alvarlega og hafður sýnilegur út af fyrir sig.“
Mikill meirihluti bókanna sé vissulega á ensku og það sé bæði umhugsunarvert og gott.
„Hið góða er auðvitað að úrvalið er frekar mikið. Miklu meira en það sem ég og mín kynslóð höfðum úr að moða. Ég tala nú ekki um þau sem eru eldri en ég,“ segir hún. Skortinn á íslensku efni megi einfaldlega rekja til þess hversu fámenn þjóð við erum. Það séu ekkert gefnar út „brjálæðislega margar bækur á íslensku“ miðað við hinn enska málheim. „Þannig að ég held að við ættum ekkert að vera að fórna höndum yfir því. Þetta kemur allt saman og íslenskum hinsegin bókmenntum fjölgar líka ár frá ári sem er mjög gleðilegt.“
Í því sambandi bendir Ásta Kristín á að ef núverandi bókakostur sé borinn saman við gamla bókasafn Samtakanna ´78 þá sé í raun verið að bera saman himin og haf. Munurinn sé svo rosalegur. „Á þeim tíma sem bókasafn Samtakanna ´78 fór að taka á sig mynd, í kringum 1980, þá komu í raun allir sem fóru til útlanda tilbaka með kannski eina eða tvær bækur til þess að gefa bókasafninu. Þetta var svona samfélagslegt verkefni. Fólk vissi að það þyrfti að safna bókum saman svo að hinsegin samfélagið hér heima hefði eitthvað að lesa og að margir þyrftu þá að leggja hönd á plóg til að það gæti orðið. Nú er þetta samfélagslega verkefni orðið að verkefni Borgarbókasafnsins, það hefur tekið það að sér,“ segir Ásta Kristín og vísar þar til þess þegar Samtökin ´78 færðu Borgarbókasafninu hluta af samtakasafninu að gjöf árið 2014.“ Þar fyrir utan geti auðvitað allir nálgast bækur núna í gegnum netið.
Megum ekki sofna á verðinum
Ásta Kristín segir að það í raun tímanna tákn fyrir fyrstu áratugi 21. aldar að litla sérhæfða bóksafnið sem sem eitt sinn var samfélagslegt verkefni sé nú orðinn hluti af almenningsbókasöfnum á Íslandi. Fyrst og fremst Borgarbókasafni, en líka Landsbókasafni. Það sé táknrænt fyrir þá staðreynd að hinsegin fólk á Íslandi þurfi að vissu leyti minna á sínum sérstöku rýmum að halda þar sem almennt umburðarlyndi og sýnileiki hafi aukist í samfélaginu.
„Hins vegar held ég að við þurfum alltaf á þessum litlu, sérstöku, sérhæfðu rýmum að halda,“ tekur hún fram. „Það er þess vegna sem ég held að framtak eins og hjá Borgarbókasafninu að hafa þessar bækur sýnilegar og á sérstökum stað og undir sérstökum efnisflokki sé gríðarlega mikilvægt.“
Ennfremur þykir henni vænt um að bækurnar eigi sinn stað á safninu. „Ég held að það sé mjög mikilvægt. Við þurfum á þessum sýnileika að halda. Vegna þess að það er fullt af hinsegin fólki sem þarf á þessum hinsegin bókum að halda af persónulegum ástæðum. Og pólitískum líka, eins og ég hef áður nefnt. Við þurfum að passa upp á þennan sýnileika og skáldskapurinn er hluti af því og verkefni eins og þetta hjá Borgarbókasafninu er hluti af því að passa upp á og viðhalda þeim sýnileika sem hinsegin fólk hefur. Þetta hjálpar okkur að sofna ekki á verðinum,“ segir hún með áherslu, „og láta okkur glepjast af þeirri blekkingu að allt sé orðið gott og við þurfum ekki lengur að hugsa um hinsegin málefni sérstaklega.“
Ásta Kristín segist vera sannfærð um að margt af því hinsegin fólki sem var að leita sér að bókmenntum sem sýndu þeirra reynslu og þeirra heim fyrir 15-20-30-40 árum hefðu virkilega tekið fagnandi á móti þeim bókmenntum sem eru í boði núna og glaðst yfir því hversu gott og auðvelt er að nálgast að þær.
Seinni myndin af Ástu er tekin af Betka Vass Photography.