Atli Sigþórsson Kött Grá Pje
Atli Sigþórsson, eða Kött Grá Pje eins og hann er gjarnan kallaður.

Bækurnar sem breyttu lífi mínu | „Algjört spark í punginn“

Atli Sigþórsson, rithöfundur og rappari með meiru, dýrkar bjánalegar vísindaskáldsögur og skringilegheit. „Stundum er frábært að fá bara að vera hissa og hlessa og heillaður,“ segir hann og glottir.

Atli, eða Kött Grá Pje eins og hann er gjarnan kallaður, segist helst heillast af bókum sem hann skilur ekki alveg. „Um daginn varð ég til dæmis dálítið hrifinn af Death with Interruptions, sem er ensk þýðing á As Intermitências da Morte eftir José Saramago,“ nefnir hann í því sambandi. „Oft hrífst ég bara af bókum sem ég botna samt ekki fullkomlega í. Eins og bjánalegum vísindaskáldsögum og alls konar skringilegheitum.“

Af hverju?

„Af því þótt ég vilji auðvitað skilja hlutina þá þykir mér líka gott þegar ég næ ekki að skilja allt - og þarf þess ekki,“ svarar hann blátt áfram. „Stundum er frábært að fá bara að vera hissa og hlessa og heillaður.“

Er Atli mikill lestrarhestur?

„Heilt yfir já, en stundum tek ég mér lestrafrí og les þá varla staf,“ viðurkennir hann.

Hvenær kviknaði lestraráhuginn?

„Alveg frá því að ég man eftir mér hefur mér þótt gott að sitja einhvers staðar einn með bók. Ég var náttúrulega hálfpartinn umvafinn bókum í æsku og byrjaði ungur að læða mér í alls konar bókmenntir, og valdi þær þá oft út frá kápu eða kili,“ segir Atli og rifjar upp minnisstæða verslunarferð.

„Þegar ég var gríslingur fór ég einu sinni með foreldrum mínum í fornbókabúð og fékk að velja mér bók. Fyrir valinu varð Draugar, svipir og dularfull fyrirbrigði, þýddar frásagnir af reimleikum og alls konar djöfulgangi. Ég drakk sögurnar í mig en lengi á eftir var ég svo nervöss að ég meig frekar undir en að fara á klósettið á nóttunni. Ekki að það hafi nú þurft mikið til að ég pissaði í mig af hræðslu á þessum tíma.“

Þegar Atli er beðinn um að nefna bækurnar sem hafa haft hvað mest áhrif á hann stendur ekki á svörum.

Goð, menn og meinvættir eftir Michael Gibson, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar

Fyrsta bókin sem Atli nefnir hafði veruleg áhrif á hann í æsku. „Ég varð mjög upptekinn af grískri goðafræði á tímabili sem krakki og þessi bók, Goð, menn og meinvættir, hefur að geyma myndskreyttar endursagnir á nokkrum þekktum sögum úr grískri goðafræði. Medúsa á bókarkápunni ásótti mig lengi í draumum og píning óþekktarangans Prómóþeusar á klettinum vekur enn með mér hroll.“

Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson

„Ég þurfti að lesa Sálminn um blómið og skrifa ritgerð um hana þegar ég var unglingur í grunnskóla. Mér fannst hún dálítið bjánaleg – á þessum tíma fannst mér reyndar allt bjánalegt sem var ekki rapp,“ upplýsir Atli og brosir við tilhugsunina. „En svo heillaðist ég af efnistökunum og stílnum og mig minnir að ég hafi skrifað frekar fallega um bókina. En auðvitað sagði ég engum frá því,“ segir hann og kímir.

The Left Hand of Darkness eftir Ursulu K. Le Guin

„Áreiðanlega ein mannlegasta saga sem skrifuð hefur verið um kosmískan menningarmun. Hún tekur á ólíkri menningu íbúa mismunandi pláneta, svo sem ólíkri líffræði og kynjakerfi, en líka því sem þeir eiga sameiginlegt. Ritgerð eftir höfundinn Ursulu K. Le Guin fylgir minni útgáfu þar sem hún fjallar um vísindaskáldskap sem rýni á okkar eigin heim og tíma. Þessi bók var algjört spark í punginn. Ég kolféll fyrir henni,“ segir Atli.

Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov

„Rússnesk ástarsaga sem teygir sig frá himnaríki til helvítis. Maður veit aldrei hverju maður gæti verið að missa af í þýðingum úr málum sem eru manni framandi en það skiptir ekki máli hér því þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur er svo dásamleg. Ein persónan, kötturinn Behemot, er mögulega ættaður norðan úr Eyjafirði.“

The Sacred Book of The Werewolves eftir Victor Pelevin

„Önnur rússnesk furðusaga, en þessi er skrifuð í rústum Sovétríkjanna. Ég greip hana fyrir rælni í Máli og menningu á Laugavegi fyrir mörgum árum og fékk höfundinn á heilann. Ekki hans besta verk en kom mér á bragðið. Refir og úlfar og alls kyns hyski í Moskvu 10. áratugarins. Fyndin og rugluð saga.“