Ljós bakgrunnur með hvítum snjókornum og textinn "Jólalag 2024"

Viðtal | Jólalag Borgarbókasafnsins 2024

Úrslit í jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2024 voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal mánudaginn 9. desember. Í dómnefnd sátu þau Andrés Þór Þorvarðarson tónlistarmaður og húsvörður á Borgarbókasafninu í Grófinni, Sigríður Stephensen, sérfræðingur á Borgarbókasafninu í Spönginni og fyrrum menningarþáttastjórnandi á Rás 1 og síðast en ekki síst Hildur Kristín Stefánsdóttir, formaður dómnefndar. Hún hefur getið sér gott orð sem lagahöfundur og pródúsent fyrir sína eigin tónlist og fyrir aðra listamenn.  

Hnyttnir textar settu svip sinn á lögin sem send voru inn í keppnina í ár. Textarnir fjölluðu um allt frá því að eiga enga vini á jólunum og þurfa því ekki að kaupa neinar jólagjafir yfir í að eyða öllum peningunum sínum í annað en jólagjöf handa kærustunni. Lögin sjálf voru af ýmsum toga en það var samdóma álit dómnefndar að eitt lag skaraði fram úr. 

Í umsögn dómnefndar segir: “Sigurlagið skartaði skemmtilegri nálgun á þekkta íslenska jólasögu og margslungna persónu sem ýmist hefur hrætt eða glatt Íslendinga um árabil. Textinn var hnyttinn og með góðar vísanir í íslensk jól. Bæði útsetning og hljóðfæraleikur voru flott og hentuðu laginu vel. Kórinn gaf einnig skemmtileg blæbrigði. Í laginu voru margir grípandi kaflar sem auðvelt væri að syngja með."  

Dómnefnd var einróma í ákvörðun sinni um að sigurvegari í Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins 2024 væri lagið: “Ég er jólakötturinn”. 

Lagahöfundar

Höfundar lagsins eru frændurnir Gummi Grétar tónlistarmaður og Ingi Hrafn leikari og leikstjóri. Þegar hringt var í Inga Hrafn til að tilkynna honum úrslitin varð hann að vonum glaður. Hann gat samt því miður ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna í Úlfarsárdal þar sem hann var staddur uppi á fæðingardeild með konunni sinni. Eldri synir Inga Hrafns tóku því á móti verðlaununum fyrir hönd pabba síns, ásamt Gumma Grétari sem tilkynnti að frændi hans hefði eignast barn bara nokkrum klukkustundum fyrir athöfnina. Við óskum Inga Hrafni og konu hans innilega til hamingju með nýjasta fjölskyldumeðliminn. 

Lagahöfundarnir Ingi Hrafn og Gummi Grétar sitja í tröppum Lagahöfundarnir og frændurnir Ingi Hrafn og Gummi Grétar í tröppunum í Úlfarsárdal

Gummi Grétar, Hildur Kristín, Birkir Freyr og Emil Hrafn taka á móti verðlaunumGummi Grétar, annar lagahöfunda, Hildur Kristín, formaður dómnefndar og synir Inga Hrafns, þeir Birkir Freyr 5 ára og Emil Hrafn 8 ára

 

Hvernig varð lagið til?    

Ég (Ingi Hrafn) hef verið að sýna barnaleikrit þar sem Jólakötturinn er bæði sögumaður og aðalpersónan. Í verkinu leitast ég við að sýna Jólaköttinn á barnvænni hátt en áður. Til dæmis fer enginn í jólaköttinn en í staðinn fremur hann þeim mun fleiri prakkarastrik. Í laginu vildi ég sýna mína útgáfu af því hvernig það atvikaðist að Jólakötturinn flutti í Grýluhelli.  

 

Hafið þið samið jólalag áður?  

Gummi Grétar hefur samið fjöldann allan af frábærum lögum og hann er bara rétt að byrja á því sviði. Það var mikill fengur fyrir mig að fá hann til liðs við mig. Ég veit að hann á eftir að ná langt í framtíðinni og heilla alla landsmenn. Við höfum ekki verið virkir í jólalagasenunni, en þetta er annað jólalagið sem við semjum saman.  

 

Stefnið þið á að semja fleiri lög í framtíðinni?  

Þriðja jólalagið er í vinnslu og draumurinn er að gefa út jólaplötu fyrir næstu jól. 

 

Í texta sem fylgdi laginu þegar það var sent inn í keppnina segist Ingi Hrafn vera umboðsmaður jólakattarins? Ætlar þú eða þið að vinna eitthvað meira með jólakettinum? Eru einhver verkefni á dagskrá?   

Ég fylgi jólakettinum eftir inn í leik- og grunnskóla og flyt einleikinn: ,,Jólakötturinn og dularfulla kistan”. Verkið segir frá því þegar Jólakötturinn fremur prakkarastrik í Grýluhelli með þeim afleiðingum að allir í hellinum týna jólagleðinni. Nú þarf Jólakötturinn að bæta ráð sitt, og með hjálp barnanna finnur hann leið til að færa hina sönnu jólagleði aftur í Grýluhelli.  

Nú er bara að setjast niður með Gumma frænda og semja enn fleiri lög. Vonandi nær Jólakötturinn svo að efna til jólatónleika/leiksýningar um næstu jól, og hver veit nema við getum nýtt okkur aðstöðuna í Borgarbókasafninu fyrir þann viðburð.   

Ingi Hrafn í gervi jólakattarins, í bláum jakka, rauðköflóttum buxum með pípuhatt og staf úti í náttúrunniIngi Hrafn í gervi jólakattarins

 

Nú var lagið tekið upp í stúdíói Borgarbókasafnsins í Úlfarsárdal. Hvernig líkaði ykkur aðstaðan þar? Vissuð þið af þessum möguleika áður en þið ákváðuð að taka þátt í jólalagakeppninni?   

Ég er sjálfur búsettur í Grafarholtinu og við fjölskyldan nýtum okkur aðstöðuna í Úlfarsárdal mjög mikið. Börnin æfa íþróttir með Fram, við sækjum mikið í Dalslaug og svo er alltaf notalegt að setjast niður og glugga í bækur á bókasafninu eftir sundferð. Ég vissi að Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal býður upp á fullbúið hljóðver, svo þegar við Gummi sömdum lagið fannst mér spennandi að prófa að nýta aðstöðuna þar. Það er tilvalið fyrir fólk eins og mig sem er að stíga sín fyrstu skref í upptökum.   

Það gekk síðan vonum framar að taka upp lagið, og Haraldur Ernir upptökustjóri reyndist okkur frábærlega í öllu ferlinu.   

 

Hvernig fréttuð þið af jólalagakeppninni?  

Það var í einni af fjölmörgum sundferðum fjölskyldunnar að röltum um bókasafnið og rákum augun í auglýsinguna. Okkur fannst tilvalið að senda lagið inn, sérstaklega af því það ,,fæddist” jú innan veggja Borgarbókasafnsins.  

 

Hvar er hægt að hlusta á jólalag Borgarbókasafnsins 2024?   

Það er hægt að hlusta á lagið inni á Spotify undir nafninu Jólakötturinn eða Ég er Jólakötturinn. Svo er líka hægt að hlusta á YouTube

Frekari upplýsingar um Jólaköttinn má finna hér:

Heimasíða jólakattarins: www.jolakotturinn.is

Facebook-síða jólakattarins: www.facebook.com/Leikrit

Instagram jólakattarins: www.instagram.com/jolakotturinn.is/

 

Ég er Jólakötturinn 

       Einn á götunni í þorpinu 

       Var ég kötturinn sem lifði í harkinu 

       Átti ekkert dót 

       Engan samastað 

       Þó ég hafi leitað allstaðar. 

       Ég blautur var og í burtu gekk 

       Eftir að engan mat ég fékk 

       Fólkið vildi ekkert með mig hafa 

       Á hraðri leið ég var til grafar. 

  

       Upp við grenitré hann lá 

       Og kaldur inn við bein 

       Stórar krumlur tóku hann 

       Honum hlýnaði um leið. 

  

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

  

       Í slyddu og snjó 

       Ég átti enga skó 

       Mig skorti allan kjark sem í mér bjó 

       Hvað varð um mig 

       Í stormi og byl 

       Það gleymdu allir að ég væri til 

       En ég var týndi kötturinn. 

  

       Inn í hellinn kom, allir á mig störðu 

       Ég reyndi að flýja, en þar stóð vörður 

       Hún var stór og ljót 

       Og hún heitir Grýla 

       Og lyktaði eins og pissufýla 

       Hún starði á mig væmnum augum 

       Sem glönsuðu yfir svörtum baugum 

       Ást og faðmlag frá henni þáði 

       Þá var ég orðinn hennar snáði 

  

      Þrettán kátir jólasveinar 

      Ég er einn af þeim 

      Grýla sífellt kvartar, kveinar 

      En hann er kominn heim. 

  

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

  

      Í slyddu og snjó, ég átti enga skó 

      En nú á ég kattarbæli og mömmuskjól 

      Fæ nóg af mat 

      Ét á mig gat og passa varla í buxurnar 

      En það eru að koma jól. 

  

       Í borginni eru jólaljós 

       Grænar, gular baunir í dós. 

       Snjórinn fallinn og hátíð í bæ 

       Allt er breytt með öðrum blæ 

       Ég finn til föt fyrir jólasveina 

       Þá geta þeir hætt að kvarta og kveina 

       Rauður jakki og rauðar buxur 

       Þetta og fleira til að hugsa um. 

       Hérna ég ræð og engin annar 

       Nema kannski Grýla mamma 

       Ég er sá sem kann að siða alla til 

       Í hellinum geri ég það sem ég vil. 

  

       Þegar ég segi jóla, segið þið köttur! 

       Jóla - köttur! 

       Jóla - köttur! 

       Þegar ég segi jóla, segið þið köttur! 

       Jóla - köttur! 

       Jóla - köttur! 

  

       Ég dýrka jólin 

       Það er besti tíminn 

       Ef þau koma aftur 

       Hringið aftur í mig! 

  

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

       Ooo... Hann er Jólakötturinn. 

 

Höfundur lags: Guðmundur Grétar Magnússon 

Texti: Ingi Hrafn Hilmarsson og Guðmundur Grétar Magnússon 

Söngur: Ingi Hrafn Hilmarsson  

Gítar: Guðmundur Grétar Magnússon  

Trommur: Gunnar Örn Arnarson  

Bassi: Gunnar Sigfús Björnsson   

Upptökustjóri: Haraldur Ernir Haraldsson  

Hljóðblöndun: Ernir Þór Valsson  

Framleiðsla: Ingi Hrafn Hilmarsson  

  

Jólasveinakór:  

Tryggvi Rafnsson  

Magnús Theodórsson  

Eiríkur Orri Agnarsson  

Sveinbjörn Skúli Óðinsson  

Orri Már Arnarson  

Kristófer Páll Sigurðsson 

Category
UpdatedWednesday December 18th 2024, 13:59