Stuðningur, samstaða og auðlindir | 2023

Opin samtöl ársins

Við byrjuðum árið 2023 á að leita að samstarfsaðilum til að þróa með okkur verkefni sem gæti stutt fólk í að draga úr sóun og útfæra með okkur fjölbreyttar útgáfur af deilihagkerfum inni á bókasafninu. Aðgengi að tækifærum til háskólanáms var einnig eitt af umræðuefnunum. Opið samtal fór fram með fólki sem þekkir af eigin raun hvernig er að fóta sig innan menntakerfisins eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd eða flutt til Íslands af öðrum ástæðum. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri vinna í sameiningu að því að stuðla að félagslegum hreyfanleika með því að opna aðgengi að háskólanámi og sóttust eftir að nota vettvanginn til þarfagreiningar. Upplýsingaflæði og mikilvægi stuðningshópa voru rædd ásamt möguleikum á að þróa óformlegri og nýrri leiðir þekkingarmiðlunar á stöðum eins og bókasafninu. 

Opið samtal í hópum

Þátttakendur á vinnustofu

Stuðningur getur verið með ólíkum hætti. Í kjölfar fyrstu samtala hafði notandi samband og stakk upp á að ræða fátækt í opnu samtali, þar sem þessu málefni fylgi mikil skömm og erfitt væri að sækja og veita stuðning til hópa fólks sem lifðu í fátækt. Samstaða með fólki sem glímir við fátækt var rædd og það hvernig bókasöfn, félagasamtök og góðgerðarfélög geti betur tengst og stutt við bakið á fólki sem býr við skort. Hvaða miðlunarleiðir eru bestar og hvernig samtök geta veitt gagnkvæman stuðning í þessum efnum til að ná til breiðari hópa var sérstaklega rætt.  

Sameiginlegar áskoranir og skapandi lausnaleit hófst með samtarfi við nágranna okkar í hafnar.haus. Arnar Sigurðsson og Anna Marjankowska leiddu samtalið um það hvað gæti talist sem hlutlaust tungumál í fjölbreyttu starfsumhverfi.  Samtalið var síðan færð yfir í Hugmyndaþorpið. Þar var kannað hvernig hið staðbundna samtal gæti verið skrásett í stafrænni vídd til að tengja fleiri hagaðila við vettvanginn og prófa sig áfram í aðferðafræði lýðræðisumræðu

Tengjast umræðu

Á seinni hluta ársins beindist athyglin að félagslegum og efnislegum grunnþörfum. Hvernig er aðgengi jaðarsettra hópa að styðjandi samfélagi? Hvernig upplifir fólk að vera virkir meðlimir í verkalýðsfélagi og taka þátt í verkfallsaðgerðum? Gætu almenningsrými eins og bókasöfn verið vettvangur samstöðu verkafólks fyrir bættum kjörum? Ekki einungis stuðningur við meðlimi verkalýðsfélaga var ræddur heldur einnig starfsaðstæður sjálfstætt starfandi listafólks og skapandi hópa og framleiðenda í borginni. Getur borg verið skapandi pláss án þess að skaffa aðgengileg rými fyrir skapandi geirann sem mætir þeirra þörfum? Ef við byggjum við skilyrðislausan stuðning eins og borgarlaunum til að mæta grunnþörfum okkar, hverju myndi það breyta? Hefðum við aðrar venjur og störf eða iðjur? Myndum við nýta okkur almenningsrými eins og bókasöfn með öðrum hætti, ef við hefðum meiri tíma til að hlúa að því sem er okkur kærast? Við höldum áfram að endurhugsa hlutverk almenningsrýma og hvernig við getum skapað stað sem styður við ólíka hópa. 

Við þökkum kærlega öllum þeim sem settu málefni á dagskrá og lögðu til umræðunnar.  

Þátttakendur á vinnustofu

Þátttakendur á vinnustofu

Viltu vita meira um Opið samtal? Þetta er vettvangur fyrir heiðarleg og opin samskipti. Hér könnum við ólík samræðuform og í sameiningu lærum við nýjar leiðir til að ræða málefni sem standa okkur nærri.      

Frekar upplýsingar    
Dögg Sigmarsdóttir    
Verkefnastjóri | Borgaraleg þátttaka    
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is 

Category
UpdatedFriday December 29th 2023, 14:19