Sýningin Hreiðrum okkur | Þreifuðu sig áfram í hreiðurgerð

Sýningin Hreiðrum okkur stendur nú yfir í Borgarbókasafninu Spönginni. Þar hefur hönnunarteymið ÞYKJÓ stillt upp þremur hreiðrum úr eigin smiðju þar sem börnum gefst kostur á að hreiðra um sig og lesa eða kúra inni í hljóðinnsetningu fuglasöngva eftir tónlistarkonuna Sóleyju Stefánsdóttur, sem hún vann fyrir hópinn.

 

Barnasáttmálinn hornsteinn

Sigríður Sunna Reynisdóttir, búninga- og leikmyndahönnuður, er stofnandi ÞYKJÓ, en ásamt henni skipa hópinn Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningahönnuður, Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, klæðskeri og fatahönnuður. Sigríður segir að hópurinn hafi 31. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hornstein í hönnuninni, en greinin er svohljóðandi: 

31. gr. 1. Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum. 2. Aðildarríki skulu virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju.

„Þess vegna fannst okkur svo rétt fyrir þessi hreiður og líka kyrrðarrýmin sem við gerðum, að þau væru á opinberum stofnunum. Það væri eitthvað sem allir geta notið, óháð fjárhag og aðstöðu,“ segir Sigríður.

Nánar um sýninguna Hreiðrum okkur

 

Þreifuðu sig áfram í hönnuninni

Sigríður segir að hópurinn leiti stöðugt að samstarfsaðilum, með það að markmiði að leita uppi og nýta verkþekkingu hérlendis og halda framleiðslu sömuleiðis innan landssteinanna. Hönnuðir ÞYKJÓ voru staðarlistamenn Menningarhúsanna í Kópavogi árið 2021 og fóru þá að skoða hreiður, ásamt líffræðingum Náttúrufræðistofu.

„Þá fórum að hugsa – ef við myndum ætla að flétta hreiður fyrir krakka, hvar væri þekkingin hér á landi? Og Blindravinnustofan kom fljótt til okkar,“ segir Sigríður. Blindravinnustofan hefur framleitt ungbarnavöggur við góðan orðstír í  áratugi, en vöruþróun hefur nær engin verið. Sigríður segir ferlið hafa verið ótrúlega skemmtilegt. „Stundum er það þannig að hönnuðir mæta með teikningu og segja Geturðu búið til svona? En það var auðvitað ekki hægt í þessu tilfelli, þegar unnið er með einhverjum sem getur ekki séð teikningu. Þetta var svo falleg áskorun og lærdómsrík fyrir okkur. Það er svo mikið á forsendum augans í nútímahönnun, að gúggla og finna sjónrænan innblástur. En þarna þurftum við að hugsa út fyrir þann kassa. Við fengum lánuð hreiður úr safni Náttúrufræðistofu, sem við fórum með til Denna í Blindravinnustofuna, og þá fórum við bókstaflega að þreifa okkur áfram, að skoða með lófunum: „Denni finndu þessa kúrvu.“ Og svo stækkuðum við það upp.“

 

Denni

Stefán B Stefánsson, eða Denni, er handverksmaður, sem hönnuðirnir lýsa sem mögnuðum, en hann hefur fléttað vöggur og körfur úr tágum fyrir Blindravinnustofu í yfir þrjátíu ár. Ekki leið á löngu þar til hann var orðinn nánasti samstarfsaðili hópsins. „Og til að samstarfið gæti gengið upp þá þurftum við að skilja handverkið og forsendurnar fyrir því að Denni geti byrjað. Hann þurfti að stíga inn í okkar hönnunarhugsun og við að stíga inn í hans handverkshugsun,“ útskýrir Sigríður.

 

Af hverju hreiður?

„Fyrsta kveikjan var kannski fyrsta verkefnið okkar, sem er búningalínan Ofurhetjur jarðar. Þar er búningur sem heitir Ástarfuglinn; innblásinn af trönum, paradísarfugli og blásúlu. Þessir fuglar eiga það allir sameiginlegt að notast við ótrúlega flott dansspor þegar þeir stíga í vænginn hver við annan. Við bjuggum til þennan Ástarfugl sem speglar ákveðna eiginleika mannsins í dýralífinu, í þessu tilviki þegar við erum extróvert, með ástarhormónið, oxytósín. Það þarf ekki að tengjast „þess konar ást“, bara þegar við erum í gleði og ást og viljum dansa og sýna fjaðrirnar. Vera páfuglar. Það er kveikjan að þessu verkefni sem heitir Fuglasöngvar. Það urðu afleiður af því, hreiðrin og svo egg með fuglahljóðum, sem eru samblanda af því að vera gagnvirk leikföng og hljóðfæri.

 

Hreiðrin eru einstök, ólík að formi og lögun. Var hægt að sjá fyrir hvernig lokaútkoman yrði, áður en samstarfið við Denna hófst?

„Við erum auðvitað búnar að vera að skoða það sem Blindravinnustofan gerir, en við ákváðum – því við vorum að ýta honum Denna hressilega út fyrir þægindarammann – að halda okkur allavega við hráefnið sem hann er vanur að vinna með. Þetta var þó í raun ákveðið óvissuferðalag. En þegar maður horfir á fyrirmyndirnar, sem eru spörfuglahreiður, þá eru þau að forminu mjög áþekk,“ segir Sigríður.

„En það var nýtt fyrir Denna að ná útlitinu, ýmsum sveigjum og beygjum, og það þurfti nokkrar atlögur að því. Í byrjun gerði hann þetta næstum því of vel. Við höfum oft hlegið að þessu með honum eftir á, þegar hann kom með fyrstu prótótýpuna og hún var bara of fullkomin. Við vorum að þreifa okkur áfram og sögðum að þetta mætti vera aðeins óreglulegra, grófara og þá sagði hann þessa eftirminnilegu setningu: „Viljið þið að ég geri þetta eins og andskotinn sjálfur?“ Og við fórum að hlæja og svöruðum: „Já, nákvæmlega, það er það sem við viljum!“,“ segir Sigríður hlæjandi og bætir við: „En Denni er búinn að prófa hreiðrin og er sáttur við útkomuna.“

 

Þurfti að stilla sig inn á „Denna-tíma“

„Þetta gerist ekki í hraða. Við þurftum tíma með líffræðingunum á Náttúrufræðistofu, tíma til að fá að grúska í safneigninni þeirra, tíma með Denna og tíma með krökkum sem voru sérfræðingarnir okkar. Við gerðum mjög gróf pappahreiður og fengum krakka til að rýna þau með okkur. Þau komu með marga góða punkta, til dæmis varðandi stærðina. Það væri gott að hafa eitt lítið, þar sem er bara pláss fyrir einn, því stundum vill maður vera einn. En svo væri gott að hafa annað stærra, því stundum er gaman að vera saman,“ segir Sigríður og bætir við að tíminn hafi reyndar verið lykilatriði, ekki síst í samstarfi við Denna.  

„Ninna var sú sem vann mest með Denna, þau voru mikið tvö saman að finna út úr þessu jafnt og þétt. Við tölum oft um að hún hafi stillt sig inn á Denna-tíma, því hann er bara eins og árrisull fugl. Hann mætir upp úr klukkan fimm til sex í vinnu og er hættur klukkan 13. Og þá er ekkert í boði fyrir hönnuð að mæta seinna. Svo Ninna bara bókstaflega stillti sig inn á hans tíma til að ná honum. Hún lærði líka mikið af honum og fór að skilja handverkið betur.“

 

Er þá bara uppskrift að þessum hreiðrum?

Ja, uppskrift sem Denni gæti skilið.

 

Hvattar til að fara til Kína

En hvernig virkar framleiðsluferlið?

„Ferlið kallast vöruþróunarferli: Nú erum við komin með prótótýpu, þá er spurningin Hvernig getum við endurtekið? Þau verða auðvitað aldrei alveg eins, því þau eru svona lífræn. Það er eitthvað sem Blindravinnustofan gæti skoðað. Að hafa fyrirtæki eins og Blindravinnustofuna er gríðarlega mikið verðmæti fyrir okkur hér heima,“ segir Sigríður og bætir við að hópnum sé gjarnan bent á – af innlendum framleiðendum – að best fyrir þær væri að fara með framleiðsluna sína til Kína.

„Og já, auðvitað er það rétt, það væri kannski hagkvæmast, en það er ekki best fyrir okkur, þú veist, Best með stóru B-i og Okkur með stóru O-i, í stóra samhenginu. Við viljum ekki missa verkþekkinguna héðan og innviðina – þetta eru verðmæti fyrir Ísland að hafa fyrirtæki eins og Blindravinnustofuna, sem er að ráða lögblinda, sjónskerta og fatlaða í vinnu og er búið að byggja það upp. Það eru verðmæti sem á að passa,“ segir Sigríður. „Þetta ferli varð mun fljótlegra og einfaldara fyrir okkur vegna þess að við höfðum beinan aðgang að Denna, sem hefur yfir þrjátíu ára reynslu af þessu handverki.“

Ljósmynd af hreiðrum. Ljósmyndari: Sigga Ella

ÞYKJÓ-hópurinn hefur leitað samstarfs við ýmsa aðila með sérþekkingu. Líffræðinga, náttúrufræðinga, tónlistarfólks …

„Það er auðvitað „auðveldara og fljótlegra“ að gúggla og verða „þykjó“-sérfræðingur í einhverju, en það er bara svo ótrúlega gjöfult – og það er ekkert sjálfgefið að finna einhvern sem mætir manni. Við höfum verið ótrúlega lánsamar að finna okkar fólk, þar sem við finnum sameiginlegan flöt. Fyrir þessa sýningu fórum við í samstarf við hönnunarstúdíó sem heitir Gæla, en þær nýta afskorninga af lambsull og lita hana svona skemmtilega. Sigurbjörg Stefánsdóttir, fatahönnuður og klæðskeri, vann náið með Mörtu Hreiðarsdóttur í Gælu að litríku og mjúku innra byrði hreiðranna. Í spörfuglahreiðrum er nefnilega oft að finna ull, sem fuglarnir nota til að mýkja hreiðrið fyrir ungana.“

 

Svo spörfuglar sækja dálítið í samstarf líka við aðrar stéttir...?

Já, þeir eru í þverfaglegum pælingum líka!

Category
UpdatedMonday October 17th 2022, 14:40