Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022
Skáldverkin Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Truflunin eftir Steinar Braga eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd árið 2022.
Hér eru brot úr umsögnum dómnefndar sem í þetta sinn er skipuð þeim Kristjáni Jóhanni Jónssyni, Silju Björk Huldudóttur og Soffíu Auði Birgisdóttur:
APRÍLSÓLARKULDI
Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni. [...] Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.
TRUFLUNIN
Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar. [...] Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. [...] Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund
okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða. [...]
Af Bókmenntavefnum um skáldskap Elísabetar Jökulsdóttur:
Skáldskapurinn verður þessi leið að sjálfsverunni, en skáldskapur Elísabetar er bæði sjálfleitandi og sjálfskapandi. „Ég er að skrifa um myndina af mér til að öðlast sjálfstæði“ segir Elísabet sjálf um eigin skrif. Með þessum orðum – að skrifa um myndina af sjálfum sér, má segja að hún tengi sig við langa hefð sem rekja má allt aftur til upphaf rómantíkur á 18. öld, en þá fer að örla á slíkri sjálfsköpun skálda. Að leita upphafs síns í orðum, í öðrum heimi, draumnum sem er kannski á tíðum gerður úr sterkara efni en sjálfur efnisheimurinn og það sem við köllum raunveruleika.
Sjá einnig brot úr Aprílsólarkulda á Bókmenntavefnum.
Af Bókmenntavefnum um verk Steinars Braga:
Eitt af því sem gerir Steinar Braga svo eftirtektarverðan er hvernig hann nær að skapa ólgu og óreiðu úr því sem virðist vera hin fullkomna kyrrð (og þetta er það sem minnir mig á Braga Ólafsson). Dæmi um þetta er „Biðstofan,“ en þar segir frá því að sögumaður hefur verið rúmliggjandi heilt sumar. Um haustið er hann orðinn afslappaður „að því marki að ég átti erfitt með að fletta; dagarnir einkenndust af syfjulegum óróa í ætt við andvöku.“ Þessi órói heldur áfram þar til hann verður hin fullkomna kyrrð, sögumaður gefur allt frá sér á þeim forsendum að hann sé að flytja úr landi, en heldur eftir völdum gripum, meðal annars fiskabúri með sokknu skipi. Svo bíður hann og eftir nokkrar vikur finnst honum eins og hann sé „staddur í skjákynningu á kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins“ og þegar veturinn kemur er hann orðinn svo afslappaður að hann á „erfitt með að blikka augunum og kyngja.“ Svo lætur hann sig dreyma um „sokkna skipið í búrinu, hvort einhver hafi komist af eða lifði undir þiljum á hverfandi súrefni.“ Og þannig heldur ördeyðan áfram en að lokum kemur í ljós að bráðum verður hann að flýja. Það sem ætti að vera róandi og sefandi er óþægilegt og þrúgandi og þó flótti sé yfirvofandi getur lesandi ekki ímyndað sér að sögumanni takist að finna útgönguleið úr þessu ástandi.
Sjá einnig brot úr Trufluninni á Bókmenntavefnum.
Á næsta bókakaffi Borgarbókasafnsins þann 2. mars í Gerðubergi, mun Elísabet Jökulsdóttir vera gestur og fjalla um skáldsöguna Aprílsólarkulda ásamt fleiri höfundum, en umfjöllunarefni kvöldsins er arfur og áföll í skáldskap: Skáldskapurinn er sá magíski kraftur sem getur veitt innsýn og aukið skilning okkar á gömlum sárum, sársauka, áföllum okkar sjálfra og annarra og jafnvel varðað leiðina út úr þeim.
Hér að neðan gefur að líta fjölda verka eftir þau Steinar Braga og Elísabetu; skáldsögur, ljóð og leikrit. Við óskum þessum frábæru höfundum innilega til hamingju með heiðurinn og bjóðum lesendum og lánþegum að koma á safnið og líta á gersemarnar.