Bókaklúbbur í poka
Hvað er nú það?
Bókaklúbbur í poka er þjónusta við notendur Borgarbókasafnsins. Notendur geta fengið sérstakan poka lánaðan sem inniheldur allt sem þarf til að halda bókaklúbb. Hvort sem það er fyrir vini, vinnustaði eða fjölskyldu er hægt að rúlla upp bókaklúbb með lágmarksfyrirhöfn. Eina sem þú þarft að gera er að velja poka, bjóða fólki og … jú, lesa bókina.
Hver poki inniheldur:
- Sex númeruð eintök af bók sem listrænn stjórnandi (sjá neðar) hefur valið
- Ávarp frá listrænum stjórnanda
- Umræðukveikjur í formi spilastokks (það má líka spila með honum!)
- Mappa með aukaefni (bókaklúbbum er frjálst að bæta við ef tilefni þykir til!)
- Leiðbeiningar til Bókaklúbbsstjóra (það er notandinn sem er ábyrgur fyrir útláninu)
- Upplýsingar um höfund og baksvið verksins
- Spjaldskrá (sem er líka hálfgerð gestabók, bókaklúbbar gefa einkunn)
Hvað er listrænn stjórnandi?
Listrænn stjórnandi er aðili eða stofnun (rithöfundar, listafólk, fræðafólk) sem Borgarbókasafnið hefur fengið til að velja bók í pokann. Listrænn stjórnandi ber ábyrgð á vali bókarinnar og skrifar stutt ávarp til klúbbsins, sem fylgir með í pokanum, þar sem hann segir frá vali sínu. Það er upplagt að hefja bókaklúbbinn með því að lesa ávarpið upphátt fyrir viðstadda.
Hvernig fæ ég poka að láni?
Pokana má taka frá í afgreiðslu eða á netinu. Þeir pokar sem tilbúnir eru til frátektar eru eftirfarandi:
- Fuglarnir, eftir Tarjei Vesaas. Listrænn stjórnandi: Auður Ava Ólafsdóttir
- Baróninn, eftir Þórarin Eldjárn. Listrænn stjórnandi: Þórarinn Eldjárn
- Litla land, eftir Gaël Faye. Listrænn stjórnandi: Félag Sameinuðu þjóðanna
- Stúlka, kona, annað; eftir Bernardine Evaristo. Listrænn stjórnandi: Kvenréttindafélag Íslands