Borðspilið Carcassonne

Um þennan viðburð

Tími
19:30 - 21:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Aldur
16 ára og eldri
Tungumál
Íslenska og enska
Fræðsla
Spjall og umræður

Spilastund | Carcassonne

Miðvikudagur 3. september 2025

Svo miklu meira en bara Lúdó!
Komdu, prófaðu og lærðu um hinn fjölbreytta heim borðspila!

Heimur borðspila er mun stærri en Skrafl, Monopoly og Lúdó. Árlega eru gefin út yfir 5000 ný borðspil. Hvert og eitt spil virkar á sinn sérstaka hátt en getur átt ákveðna virkni sameiginlega með öðrum spilum.

Í vetur ætlar spilameistarinn Tryggvi Björgvinsson að bjóða upp skemmtilega nýjung á safninu í Úlfarsárdal: vikuleg borðspilakvöld fyrir fullorðna (16 ára og eldri) miðvikudaga milli kl. 19:30-21:30.

Tryggvi er einarður borðspilaáhugamaður úr Grafarholtinu og hefur verið viðloðandi spilamennsku frá barnsaldri. Í dag á hann borðspilasafn sem gerir honum kleift að spila mismunandi spil hvern einasta dag almanaksársins.

Í hverjum mánuði mun Tryggvi taka fyrir eitt tiltekið borðspilagangverk/mekanisma (e. mechanic) og fara í gegnum hvernig þau virka. Í hverri viku verður svo spilað eitt spil sem inniheldur viðkomandi gangverk. Þannig geta þátttakendur fundið sitt uppáhalds gangverk og hvernig spil þeim finnst skemmtilegust.

Það verður kósý stemmning inni á safni þar sem spilarar geta fengið sér kaffi, komið sér vel fyrir við borð og spilað spil úr spilasafni Tryggva.

 

Fyrirkomulag

  • Til að byrja með verður fyrirkomulagið þannig að til þess að taka þátt þarf að skrá sig - skráning fer fram neðar á þessari síðu.  Þau sem mæta fá svo forgang til að skrá sig á næsta spilakvöld.
  • Gert er ráð fyrir fjórum spilurum í hvert skipti en verði áhuginn mikill verður það fyrirkomulag endurskoðað.
  • Það þurfa ekki að vera sömu spilarar hvert skipti en tekið skal fram að í upphafi mánaðar eru spilin auðveldari og svo mun erfiðleikastigið aukast eftir því sem líður á mánuðinn.
  • Ef þú ert með áhuga en vilt ekki skrá þig strax er þér velkomið að mæta og fylgjast með.

 

Spil kvöldsins – miðvikudagur 3. september

Carcassonne - Reisum vegi, klaustur og kastalaborgir í Frakklandi. Valið spil ársins 2001. Spilatími: 30-45 mín.

kl. 19:30-21:30 á Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal.

Skráning nauðsynleg - Öll velkomin - Kostar ekkert!

Viðburður á Facebook.

 

Dagskrá vetrarins

September: Flísalagnir

Spilarar vinna annaðhvort saman eða hver í sínu lagi að leggja niður flísar eða skífur og búa til spilaborðið sjálft, mynstur eða ná markmiðum.

  • mið 3. sept: Carcassonne - Reisum vegi, klaustur og kastalaborgir í Frakklandi. Valið spil ársins 2001. Spilatími: 30-45 mín.
  • mið 10. sept: Harmonies - Útbúum fullkomin landsvæði fyrir fjölmargar dýrategundir með því að leggja flísar í þrívídd. Spilatími: 20-40 mín.
  • mið 17. sept: Azul - Manuel I, konungur Portúgals leitar að besta flísaleggjaranum til að skreyta veggi konungshallarinnar í Évora. Spil ársins 2018. Spilatími: 30-45 mín.
  • mið 24. sept: Alhambra - Ráðum til okkar bestu byggingameistarana til að reisa hina frægu Alhambra í Granada á Spáni. Spilatími: 45-60 mín.

 

Október: Kapphlaup

Spilarar keppast um að vera fyrst að komast í mark eða klára ákveðið markmið á undan öllum öðrum.

  • mið 1. okt: Garden Guests - Bjöllur keppast við að komast milli blóma og yfir garðinn eða að koma í veg fyrir að hinar bjöllurnar nái því. Spilatími: 20-30 mín.
  • mið 8. okt: New York Zoo - Flýttu þér að búa til dýragarð fullan af allskonar dýrum og skemmtitækjum áður en aðrir spilarar verða á undan þér. Spilatími: 30-60 mín.
  • mið 15. okt: Flamme Rouge - Taktu þátt í hjólreiðakeppni og komdu fyrst í mark með því að halda þig til hlés, hvíla og gefa svo í á réttum tíma. Spilatími: 30-45 mín.
  • mið 22. okt: VETRARFRÍ
  • mið 29. okt: RoboRally - Forritaðu vélmenni í gegnum ringulreið og hasar til að ná fánunum en passaðu þig á leysigeislum og öðrum gildrum. Spilatími: 45-120 mín.

 

Nóvember: Stokkasmiðir

Spilarar skapa sín eigin örlög með því að setja saman spilastokk eða annarskonar blöndu sem leyfir þeim að vera betri en aðrir.

  • mið 5. nóv: Dominion - Tryggðu yfirráð þín yfir bestu landsvæðunum með því að setja saman viðburði, reisa byggingar og lokka til þín rétta fólkið. Spilatími: 30 mín.
  • mið 12. nóv: Quacks of Quedlinburg - Bæjarbúar veikjast og leita til þín og annarra skottulækna til að búa til rétta seyðið til að hressa þau við. Spilatími: 45 mín.
  • mið 19. nóv: Mystic Vale - Verndaðu náttúruna með því að setja saman réttu náttúruöflin í spili þar sem spilin sjálf breytast. Spilatími:  45 mín.
  • mið 26. nóv: Concordia - Leggðu undir þig verslun og viðskipti Rómarveldis svo guðirnir verðlauni þig með sigri. Spilatími 100 mín.

 

Nánari upplýsingar veitir:
Stella Sif Jónsdóttir | Viðburðir
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is | 411 6270