Þegar mamma dó og Hirðfíflið

Um þennan viðburð

Tími
17:00 - 18:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Tungumál
Íslenska
Bókmenntir
Spjall og umræður

Rými fyrir höfunda | Anna Ragna Fossberg og Sigrún Alba Sigurðardóttir

Miðvikudagur 26. nóvember 2025

Miðvikudaginn 26. nóvember kl. 17-18 munu rithöfundarnir Anna Ragna Fossberg og Sigrún Alba Sigurðardóttir lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum og spjalla við gesti um efni þeirra.

Í bókunum Hirðfíflinu eftir Önnu Rögnu og Þegar mamma mín dó eftir Sigrúnu Ölbu er tekist á við erfiða lífsreynslu í gegnum bókmenntatexta sem skilgreina má sem sannsögur.

Hér fyrir neðan má lesa um bækurnar.
 

HIRÐFÍFLIÐ EFTIR ÖNNU RÖGNU FOSSBERG

Inga Stella elst upp á þriggja kynslóða heimili í Reykjavík. Þegar mamma verður veik eða skrítin töltir hún niður til ömmu og frænku sem hafa endalausan tíma fyrir lítið barn. Þannig varðveitir hún sakleysið þangað til pabbi verður líka skrítinn - og alltaf skrítnari og skrítnari. Það er ekki fyrr en hún er orðin fullorðin sem það rennur upp fyrir henni að lífið hefði orðið miklu betra ef mamma hefði haft kjark til að flýja pabba og taka hana með sér.

Hirðfíflið tekur á nýstárlegan, hugrakkan og áhrifamikinn hátt á umfjöllunarefnum sem eru í deiglunni, á fíkn og andlegum veikindum foreldra og áhrifunum sem þau hafa á lítið barn.

Hirðfíflið er þriðja bók Önnu Rögnu Fossberg. Hún sigraði handritakeppni Sparibollans með skáldsögunni Hugfanginn árið 2021. Fyrsta bók hennar Auðna kom út 2018 og hlaut afar góðar viðtökur.

ÞEGAR MAMMA MÍN DÓ EFTIR SIGRÚNU ÖLBU SIGURÐARDÓTTUR

Að fylgja nánum ættingja síðasta spölinn er djúpsár reynsla sem setur mark sitt á einstaklinginn, viðhorf hans, tilfinningar og samskipti við aðra. Bókin Þegar mamma mín dó er sannsaga þar sem Sigrún Alba Sigurðardóttir rithöfundur fjallar á persónulega og einlægan hátt um þá reynslu að fylgja dauðvona móður sinni í gegnum veikindi og sitja við hlið hennar þegar hún mætir dauðanum. Áhrifarík frásögnin er í senn persónuleg og opinská um þær sterku tilfinningar sem togast á þegar dauðinn knýr dyra; ást og umhyggju, samviskubit og vanmátt. Um leið er bókin hugleiðing um það kerfi sem við höfum búið dauðvona fólki og það álag og ábyrgð sem hvílir á aðstandendum við þessar aðstæður.

Sigrún Alba Sigurðardóttir er rithöfundur og sýningarstjóri en hefur einnig starfað sem háskólakennari um árabil. Hún hefur áður sent frá sér fjölda bóka um listir, menningu og söguleg efni, seinast Snóflygsur á næturhimni (2022), og árið 2023 sendi hún frá sér skáldsöguna Sumarblóm og heimsins grjót.

 

Rými fyrir höfunda á söfnunum okkar

Rithöfundar og skáld sem eru að gefa út bók og hafa áhuga á að standa fyrir kynningu á nýju verki og/eða eldri verkum sínum geta pantað rými á Borgarbókasafninu sér að kostnaðarlausu. Höfundum er frjálst að nýta rýmið eins og þeim hentar, til dæmis fyrir upplestur (jafnvel í samráði við aðra höfunda), útgáfuhóf og kynningar.

Nánari upplýsingar veitir:

Þorgerður Agla Magnúsdóttir
verkefnastjóri | bókmenntir og lestrarhvatning
thorgerdur.agla.magnusdottir@reykjavik.is  

Bækur og annað efni