Um þennan viðburð

Tími
17:15 - 18:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Bókmenntir

KVEIKJA | Að skapa rými fyrir hugsun

Fimmtudagur 26. janúar 2023


Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur og Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki eiga stefnumót og ræða saman um innblástur og þreytu og ólíkar leiðir til að endurnýja andlega orku til að skapa rými fyrir eigin hugsun fjarri suði samtímans.

Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur, hefur hlotið mikið lof fyrir skáldsögur sínar allt frá því hún gaf út sína fyrstu bók fyrir meira en tveimur áratugum. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV, Fjöruverðlaunin og viðurkenningu úr rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Skáldverk Guðrúnar Evu, eru oft djúpsjávarkönnun á sálarlífi og tengslum manneskjunnar, og hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Næstsíðasta skáldsaga hennar, Aðferðir til að lifa af, var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nýjasta bók frá Guðrúnu Evu kom út fyrir jólin og ber heitið Útsýni.
 

Sigríður Þorgeirsdóttir er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Hún nam heimspeki í Boston og Berlín, lauk doktorsprófi frá Humboldt háskólanum árið 1993 þar sem hún rannskaði heimspeki Friedrich Nietzche. Sigríður var fyrst kvenna til að gegna fastri stöðu í heimspeki við H.Í. og hefur jafnframt stundað rannsóknir á feminískri heimspeki, fyrirbærafræði og heimspeki umhverfis og náttúru, fjallað um líkamann og veruna og höfunda á borð við Hannah Arendt, Simone de Beauvoir, Luce Irigaray og Judith Butler, í ræðu og ritum. Sigríður hefur kennt víða um heim og er eftirsóttur hugsuður.
 

Kveikja er samtal lista og fræða um eld, innblástur, skynjun og sköpunarferli. Fjallað er um áhrif og eilífa glímu við andagift. Fræðimenn og listafólk koma saman og flytja hugvekju og bregðast við hugmyndum hvors annars um sköpunar- og vinnuferli.

Sjá viðburð á Facebook.
 

Umsjón:
Soffía Bjarnadóttir, verkefnastjóri | bókmenntaviðburðir
Miðlun og nýsköpun | Borgarbókasafnið, s. +354 411 6122
www.borgarbokasafn.is