Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld
Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld.

Viðtal | Las tvítugur öll leikrit í hillum Borgarbókasafnsins

Tyrfingur Tyrfingsson hefur verið kallaður undrabarn í íslensku leikhúsi og ekki að ósekju enda hefur hann á skömmum tíma sent frá sér hvert verðlaunaverkið á eftir öðru. Nú síðast Sjö ævintýri um skömm sem fór heim með flestar Grímur í júní eða sex talsins. Við heyrðum í Tyrfingi, sem er búsettur í Amsterdam, og ræddum aðeins við hann um leikhúsið, samtímann og helstu áhrifavalda í listinni.

Það er engum ofsögum sagt að Tyrfingur sé vel að sér um leikhúsið. Hann fylgist auðheyrilega vel með því sem er að gerast í leikhúsheiminum og hefur lesið aragrúa af leikritum í gegnum tíðina. Sjálfur segist hann halda mikið upp á leikskáldin Jean Genet, Rainer Werner Fassbinder, Lorraine Hansberry og Wagner.

Niflungahringurinn er ótrúlega vel saminn, hörku leikritun, segir hann. „Ég fylgist líka vel með Martin Crimp sem hittir reglulega í mark.“

Honum finnst íslensk leikskáld frábær líka.

Óli Egils, ótrúlega gott leikskáld, sama má segja um Kristínu Eiríks, Brynhildi Guðjóns og Hrafnhildi Hagalín. Ég dýrka allt sem Mikael Torfason hefur gert og Jón Atli,“ telur hann upp.

„Mér finnst hinsvegar leiðinlegt hversu oft við missum sterk leikskáld yfir í sjónvarp og kvikmyndir. En sumir halda því fram að besta leikritun heimsins eigi sér þessa dagana stað í sjónvarpi, því auðvitað eru The Sopranos eða The White Lotus bara leikrit, nema það að einhver kveikti á upptökuvél.“

Afber ekki óheiðarleika og leiðindi

Spurður hvers konar leikverkum hann heillist almennt af segir Tyrfingur að þau þurfi alls ekkert að vera raunsæ en þau verði á sinn hátt að segja satt. „Eða hafa það sem góður vinur minn kallar „vilja til heiðarleika“, kannski uppfull af bulli og lygi, bara ekki óheiðarleg, ef það meikar sens. Og alls ekki leiðinleg,“ segir hann með áherslu.

Sem dæmi um áhugaverða leiksýningu nefnir Tyrfingur Is God Is eftir Aleshea Harris sem var sett upp í Royal Court síðasta vetur.
„Þetta er hip-hop spagettívestri um systur sem ákveða að hefna móður sinnar með því að myrða pabba sinn. Drepfyndið leikrit,“ segir hann og glottir við tilhugsunina. „Leikhópurinn De Warme Winkel, sem starfar í Amsterdam, bjó til leikverk með hollenskum raunveruleikastjörnum og kallaði það Einlægan óð til kaldhæðninnar. Raunveruleikastjörnur stripluðust um sviðið á sundfötum en leikararnir töluðu fyrir þær, svolítið eins og búktalarar á meðan stjörnurnar hreyfðu varirnar í takt.  Leiksviðinu breyttu þau í upptökuver á sólarströnd, líkt og í raunveruleikaþætti, og stjörnurnar kepptu í alls konar leikjum, fóru í sleik og í pottinn, drukku ógeðsdrykk og allt.“

Merkilegast við Einlægan óð til kaldhæðninnar þótti Tyrfingi að sjá hvernig sjarminn sem einkennir raunveruleikastjörnur og aðdráttarafl þeirra svínvirkar á sviði. „Það stirndi á raunveruleikastjörnurnar og leikararnir áttu í stökustu vandræðum með að halda í við þær. Góður „performer“ er nefnilega alltaf góður „performer“,“ bendir hann á. „Það sem gerir sig á Instagram getur alveg eins gert sig á sviði.“

Safnkostur Borgarbókasafnsins valdi áhrifavaldana

Tyrfingur er talinn meðal eftirtektarverðari leikskálda yngri kynslóðarinnar og hefur verið kallaður undrabarn í íslensku leikhúsi. Hann byrjaði að skrifa leikrit í menntaskóla og var aðeins 23 ára þegar leikrit hans, Skúrinn á sléttunni, var sett upp í atvinnuleikhúsi. Í framhaldinu hefur fjöldi verka litið dagsins ljós; verðlaunaleikritin Bláskjár, Helgi Þór rofnar og Sjö ævintýri um skömm þeirra á meðal.

Sjálfur hefur Tyrfingur látið hafa eftir sér í viðtölum að hann sé ekki af leikhúsfólki kominn. Hann hafi ekki einu sinni farið mikið í leikhús sem barn og þar af leiðandi hafi leikhúsið kannski ekki legið beint við.  En hvar komst hann þá í kynni við leikritun? Og hverjir voru helstu áhrifavaldar hans í þeim efnum?

Tyrfingur hugsar sig um andartak. 

„Ætli megi ekki hreinlega nefna leikritahillurnar í Borgarbókasafninu,“ segir hann svo. „Tvítugur ákvað ég að lesa öll leikritin í hillunum,“ útskýrir hann. „Í þeim mátti finna kynstrin öll af þýðingum, þar á meðal þýðingar Sigurðar Pálssonar á Arthur Miller - sem hljómar betur á íslensku en á ensku, lipurri, þökk sé Sigurði,“ skýtur hann inn í. „Þannig að já, safnkosturinn stýrði því hvað hafði áhrif á mig.“

Nú hafa verk hans verið kölluð áleitin - einn gagnrýnandi sagði til að mynda að Tyrfingur hikaði ekki við að rýna í það myrkur sem blasir við okkur þegar við lyftum brúnum og lítum okkar heimskringlu“. Einhver gæti því spurt: Hvaðan kemur þessi „tilhneiging“ eða „þörf“ fyrir - að því er virðist - að láta allt flakka?

„Nú, úr hillunum í Borgarbókasafninu,“ er Tyrfingur snöggur að benda á. „Ykkur að kenna.“

Á annarri hæð Borgarbókasafnsins í Grófinni má finna leikritahillu og þægileg sæti

Fólki finnst gaman að láta ganga fram af sér

Sumum finnst verk Tyrfings engu að síður ansi djörf. Finnst honum gaman að ganga fram af fólki?

„Nei, en fólki finnst gaman að láta ganga fram af sér,“ er hann fljótur að segja. „Viðkvæmni reynist eiginlega alltaf uppgerð í fólki, það ruglast og skartar henni eins og dyggð, það trúir því að viðkvæmni auðgi eða jafnvel dýpki persónu þess - þegar hún sprengir bara út egó fólks - en viðkvæmni kallar fram tilhæfulausan sársauka og þessa barnalegu frygð sem þjáningunni fylgir. Viðkvæmni kvelur okkur, en kennir svo heiminum um kvalirnar. Fátt einangrar fólk eins og viðkvæmni en sem betur fer eru örfáir raunverulega viðkvæmir og enginn er brothættur.

Vonandi minna verk mín á það – þið þolið þetta alveg, og hafið gaman af þessu, hættið þessu væli, það er ekkert að óttast, þið eruð stórfengleg, himnesk, ekkert fær grandað ykkur.“

Viðkvæmni er fölsk og lærð

Tyrfingur segir að þegar öllu er á botninn hvolft þrái fólk að láta hrista viðkvæmnina af sér, hún kalli bara fram taugaveiklun og tilgerð því hún sé fölsk og lærð, bara enn eitt leikfang leiðans. Innst inni vitum við það öll.

„En að því sögðu, að ganga vasklega fram er vissulega góð leið til að ná stjórn á áhorfendum í sal,“ bætir hann við. „Skáldið, leikstjórinn og leikararnir verða að ráða ferðinni, við verðum að halda um taumana, eða eins og frægur reiðkennari í Víðidal spurði nemendur sína þegar illa gekk: „Ert þú að ríða hestinum eða er hesturinn að ríða þér?“ Það er mikilvægt að ríða hestinum, annars fer illa.“

En ertu frakkur að eðlisfari?

„Nei, þetta eru óttaleg gestalæti í mér. Ég er prúður.“

Hvernig týpa ertu inn við beinið?

„Prúð týpa.“

 

Lætur skoðanir annarra ekki hafa áhrif á sig

Tyrfingur hefur þó sagt í viðtölum að leikhúsið sé griðastaður fyrir kaldhæðið grín og af þeim sökum þurfi hann ekki að halda aftur af sér. Í leikhúsi geti hann látið allt flakka. Er hann virkilega enn þeirrar skoðunar að þar megi allt – jafnvel nú á tímum púrítanskrar rétthugsunar?

„Ég má skrifa það sem ég vil. En fólki má líka finnast hvað sem því sýnist um það sem ég skrifa. Það er svolítið díllinn. Ég get ekki tekið mér allt þetta leyfi og ætlað síðan að vera voða sár ef fólki finnst ég of mikið svona eða of mikið hinsegin. En svo er ég auðvitað þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa meira áhuga á því hvað mér finnst um fólk en hvað fólki finnst um mig,“ segir hann yfirvegaður.

Hefur kaldhæðnin aldrei komið honum í klandur utan leikhúsheimsins?

Tyrfingur veltir spurningunni fyrir sér og hún verður til þess að hann rifjar upp nýlegt atvik.

„Um daginn sat ég í sporvagni hérna í Amsterdam aðframkominn í steikjandi hita en laxableik dama úr Miðríkjum Ameríku blaðraði látlaust, hátt og skerandi þannig að heyrðist ekki í öðru í vagninum. Loks gat ég ekki stillt mig, hreytti framan í hana: „Dorothy, you‘re not in Kansas anymore ...“, sem er auðvitað elegant tilvísun í Galdrakarlinn í Oz. Daman trylltist en sessunautar mínir klöppuðu fyrir mér og það finnst mér alltaf voða gaman, að láta klappa fyrir mér.“

Og hvar getur maður klappað fyrir Tyrfingi? Hvar og hvenær getum við séð verkin hans á sviði?

„Þú ferð á Sjö ævintýri um skömm í leikstjórn Stefáns Jónssonar í Þjóðleikhúsinu strax í haust, fyrstu sýningar í október og nóvember eru komnar í sölu.“