Alfredo Flores Algleidy Zerpa
Alfredo Flores og Algleidy Zerpa.

Vinna að nýrri plötu á Borgarbókasafninu

Undanfarið hafa venesúelskir listamenn hreiðrað um sig í tónlistar- og myndvinnsluveri Borgarbókasafnsins í Grófinni. Þau Alfredo Flores og Algleidy Zerpa vinna þar að gerð nýrrar EP plötu og eru hæstánægð með aðstöðuna.

„Þessi þjónusta er alveg mögnuð, í raun bara ómetanleg. Við erum ótrúlega þakklát Borgarbókasafninu fyrir að bjóða upp á hana,“ segja Alfredo og Algleidy, sem vinna nú hörðum höndum að EP plötu tónlistar- og myndvinnsluverinu á 5. hæð Borgarbókasafnsins í Grófinni.

Þeim finnst hreinlega með ólíkindum að á safninu skuli almenningi standa til boða að vinna í öllum helstu skapandi forritum, þar með talið myndvinnslu- og tónlistarforritum, og það sér að kostnaðarlausu.

„Já, það er í raun magnað að safnið skulið bjóða frítt upp á öll þessi tæki og tól,“ segja þau hálf hissa.

Spurð hvernig þau hafi frétt af aðstöðunni segjast Alfredo og Algleidy hafa séð það auglýst á netinu. Það hafi orðið til þess að þau römbuðu á heimasíðu Borgarbókasafnsins og lásu sér til um þjónustuna.

En hvað rak þau til landsins? „Platan og þetta verkefni okkar í heild sinni. Ein ástæðan fyrir komu okkar hingað til Íslands var vinnsla og þróun plötunnar og vinnsla kynningarefnis fyrir hana, þar sem sem okkur tókst ekki að klára plötuna í Venesúela,“ svara þau.  

Byrjaði sem hálfgerð tilraun

Í ljós kemur að Alfredo og Algleidy eru búin að vera á landinu síðan í apríl að viða að sér efni og vinna í plötunni. „Samstarfið byrjaði sem hálfgerð tilraunastarfsemi, okkur langaði til að gera eitthvað frumlegt og persónulegt og það hefur þróast út í þetta,“ útskýra Alfredo og Algleidy, sem bæði eru menntuð í tónlist, Alfredo í dægurtónlist á meðan Algleidy er menntuð í klassískri tónlist og arkitekt að auki.  Bæði höfðu starfað lengi sem tónlistarmenn í heimalandinu Venesúela áður en þau ákváðu að sameina krafta sína undir merkjum Galaxia Paraíso fyrir ári síðan. Þau segja þennan ólíka bakgrunn í tónlist hafa komið að góðum notum. 

Spurð nánar út í Galaxia Paraíso segja þau að í verkefninu fari saman hljóð, mynd, dans og drag. Verkefnið er unnið í samstarfi við hljóðblöndunarteymi í Venesúela, Marco Imperatori og Francesco Imbriago, sem báðir eru reynsluboltar í tónlistarbransanum þar í landi, auk þess sem leikstjórinn og listamaðurinn Fabio Rincones kemur að verkefninu á fyrstu stigum þess. Núna eru þau með nokkur vídeó í vinnslu, þar á meðal myndband við nýtt lag, Nebula, sem verður aðgengilegt á netinu innan tíðar. „Myndbandið skiptir okkur gríðarlegu máli, vegna þess að það fangar vini okkar, borgina okkar, staðina sem við komum frá og samböndin sem við mynduðum áður en við fórum frá Venesúela,“ segja þau.

Laginu sjálfu lýsa Alfredo og Algleidy sem samblandi  af latneskri tónlist með diskó takti, sellóleik, umhverfishljóðum og fleiru en með því vilja þau vekja athygli á mikilvægi mannlegrar tilveru og minna á að eigum okkur bara eitt heimili, jörðina.

 

Íslandsförin eitt stórt ævintýri

Alfredo og Algleidy segja samvinnuna í raun hafa verið eitt stórt ævintýri frá upphafi. Íslandsförin sé gott dæmi um það.

„Við höfðum alveg heyrt að hérna væri mikil náttúrufegurð. Það var nú önnur ástæða fyrir því að við ákváðum að gera okkur ferð hingað, náttúrufegurðin. Við vorum að vonast til þess að sjá eldgos eða norðurljósin eða getað svamlað um í heitri náttúrulaug á meðan heimsókninni stæði, en í hreinskilni sagt þá bjó okkur ekkert undir það að árnar og fossarnir á landinu hérna væru svona fallegar,“ segja þau með aðdáunarsvip. „Og sömuleiðis hafið - það er náttúrulega alveg magnað!“

Þau segja listasenuna líka koma skemmtilega á óvart.

„Við vissum auðvitað vel hver Björk og Sigur Rós eru en við gerðum okkur hins vegar ekki grein fyrir því að það væri svona mikil gróska  í tónlistarlífinu á Íslandi,“ játa þau. „Bríet, Of Monsters and Men, GusGus, BSÍ, Bassi Maraj og Hildur Guðnadóttir; allt saman flott listafólk og gaman að fá tækifæri til að berja sumt af því augum á tónleikum í Reykjavík.“

„Takk fyrir okkur!“

Það er auðheyrilegt að Alfredo og Algleidy una sér vel á landinu. „Já, enda ótrúlega ánægjulegt að geta sótt heim þjóð sem virðist jafn menningarlega sinnuð og Íslendingar og vera vel tekið,“ segja þau.  „Fólk hefur, að því er virðist, svigrúm til þess að prófa sig áfram og finna sig. Fyrir utan það er áhugavert að sjá hvað fólk virðist búa við mikið öryggi hérna og hversu mikil virðing virðist vera borin fyrir ólíkum skoðunum.“

Alfredo og Algleidy finnst líka skemmtilegt að þau skuli hafa endað á Borgarbókasafninu í ljósi þess að þegar Galaxia Paraíso byrjaði að koma fram hafi dúettinn meðal annars troðið upp í bókabúð í Venesúela, bókabúðinni La Rama Dorada . Bækur séu því búnar að vera hálfgert leiðarstef á þessari vegferð þeirra.

Já og svo skemmi heldur ekki fyrir góða viðmótið sem Alfredo og Algleidy finnst mæta þeim á safninu. „Þjónustan hér hefur komið að verulega góðum notum,“ segja þau. „Takk fyrir okkur!“

Þau hvetja áhugasöm að kynna sér betur Galaxia Paraíso en hægt er fylgjast með tvíeykinu á Instagram undir @galaxiaparaiso og á Twitter undir @Galaxyparadise1Spanish Version