Stofan | Philippe Clause um þróunarferlið

Við hittum Philippe Clause til að ræða sköpunarferli hans og hvað það var sem stýrði hans útgáfu af Stofunni. Kíktu á okkur í Grófina þegar Philippe opnar sitt rými á  bókasafninu þriðjudaginn 28. mars kl. 16:00.

1. Hvaða stað valdir þú fyrir þína Stofu? 
Ég valdi staðinn sem mér fannst skrýtnastur af öllum í byggingunni. Það var einhver sem ákvað að hanna lesstofu í kringum risastóra súlu. Ég hef aldrei séð neinn nota þetta rými til þess en þegar ég sé staðsetninguna, formið og notkunin líður mér illa. Ég vil geta yfirstígið hluti sem mér líður ekki vel með og þessi súla var áskorun við fyrstu sýn. 

2. Hvað ætlar þú að gera í þinni Stofu 
Ég mun bjóða fólki að koma sér fyrir í kringum súluna og deila með okkur upplifun, þar sem við búum til sögu sem byggir á æfingunni um ferð hetjunnar (e. the hero´s journey) sem er hugmynd sem Joseph Campell þróaði sem frásagnartækni. Ég byrja á að leiða stutta hugleiðslu til að virkja skynfærin og meðvitundina, síðan spilum við leik með hluti úr bókasafninu þar sem við giskum. Hver hlutur er lykilatriði í ferð hetjunnar en mun vera pakkað inn með þeim hætti að við sjáum ekki hvað það er. En við verðum að giska. Kannski hittum við naglann á höfuðið eða við erum langt frá því að vita hvað er í pakkanum, sem skiptir ekki öllu máli. Ágiskunin er byggð á reynslu okkar sem stýrir því hvernig sagan skrifast. 

3. Hvers konar tilfinningu viltu vekja meðal notenda?  
Mikilvægast finnst mér að þátttakendur upplifi að þeirra reynsla (og svo heimspekilegar vangaveltur) skipti meira máli en endalaust magn af upplýsingum. 

4. Ef þú myndir breyta einhverju á bókasafninu og setja nýja reglu fyrir bókasafnið, hver væri hún? 
Ég myndi vilja færa líf inn á bókasafnið með einum eða öðrum hætti. Bókasöfn eru musteri kaldra upplýsinga og mig myndi langa að finna leið til að færa hlýju í hjarta fólks svo tengsl við þekkingaröflun sé náttúrulegri. Kannski ætti að byrja á að fjarlægja allar plastplöntur úr bókasafninu og koma með lifandi plöntur í staðinn. Notendur bókasafnsins gætu deilt ábyrgð á að hlúa að plöntunum með starfsfólki bókasafnsins og það gæti skapað annars konar tengsl milli þeirra og  myndi dreifa meiri hlýju um gangana.  

5. Hvaða merkingu leggur þú í vellíðan og hvernig munt þú miðla henni óháð tungumáli á þínum opnunarviðburði? 
Vellíðan er fyrir mér að upplifa að þú sért öruggur á stað sem skapar nægt traust til þess að ég upplifi að ég geti lifað og vaxið á öllu mínu litrófi og í takt við þarfir mínar.  Vonandi hjálpar hugleiðslan í byrjun opnunarinnar við að draga úr hvers konar vanlíðan sem þátttakendur gætu upplifað í kringum súluna. Og kannski mun upplifun í gegnum ferð hetjunnar styrkja okkur í að upplifa að við skiptum máli og getum staðið keik á móti upplýsingaskrímslinu sem virðist allt í kringum okkur. Vonandi göngum við frá þessari æfingu með meiri hlýju í hjarta en áður. 

Frekari upplýsingar um Stofuna
Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur fjölmenningarmála
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is

UppfærtÞriðjudagur, 21. mars, 2023 09:36