Loftslagskaffi | Gerjun og lífrænt ræktað í Gerðubergi
Á fyrstu vinnustofu Loftslagskaffis þennan veturinn kynnti Anna María Björnsdóttir hvaða þýðingu vottanir á lífrænum afurðum hafa fyrir lífríkið, dýr og fólk og hvað liggur að baki þeim. Anna María starfar sem heimildamyndagerðarkona og verkefnisstjóri Lífræns Íslands, og svo er hún aktívisti sem brennur fyrir heildrænu viðhorfi til umhverfisverndar. Á viðburðinum sköpuðust líflegar umræður í kringum viðhorf okkar til matar og gæðavísa, út frá sjónarhorni neytenda, ræktenda og foreldra.
Í kjölfarið sýndi Marina Ermina hvernig gerja má grænmeti með einföldum hætti og geyma til neyslu – umhverfinu og heilsunni til bóta. Einnig sagði hún frá sinni persónulegu vegferð í að þróa eigið kimchi. Þátttakendum var boðið að bragða á dýrindis krukkumat og taka með sér uppskriftir til að prófa sig áfram heima.
Næstu Loftslagskaffi verða á Amtbókasafninu á Akureyri 20. og 21. september. Þær Marissa og Marina snúa svo aftur til okkar á Borgarbókasafnið með Loftslagskaffið í Úlfarsárdal um umhverfisaktívisma 14. nóvember og svo aðra um jólahald í tengslum við náttúrulegt umhverfi þann 5. desember í Grófinni.
Fylgist með ferðalaginu um landið á Facebook-síðu þeirra: Loftslagskaffi, Ísland- Climate Cafe, Iceland