Guðrún Sóley Gestsdóttir las mikið í kófinu
Guðrún Sóley Gestsdóttir las mikið í kófinu

Lesandinn | Guðrún Sóley Gestsdóttir

Guðrún  Sóley Gestsdóttir, sjónvarpskona, menningarblaðakona og rithöfundur, er landsmönnum kunn af sjónvarpsskjánum, en hún er annar umsjónarmanna sjónvarpsþáttarins Menningarinnar á RÚV. Eins er hún þekkt fyrir að vera ötull baráttumaður fyrir réttindum dýra. Vegna vinnu sinnar fer stór hluti tíma hennar í ýmiss konar viðburði, en í samkomubanninu var sagan önnur. Hún hefur nýtt tímann undanfarna mánuði í lestur. Guðrún Sóley deilir hér með okkur nokkrum bókum sem hafa haft áhrif á hana: 

Þessir kófmánuðir hafa verið blómlegt lestrartímabil. Loksins, loksins gafst næði til að lesa og ég hámaði í mig nokkurn veginn allar bækur sem ég komst yfir. Skáldsögur áttu sviðið yfir hátíðarnar og nú er ég á smá ljóðatímabili. Kannski janúarþyngslin etji manni út í ljóðalestur, svo gott að láta hreyfa við sér og skerpa á tilfinningalífinu í skítakulda og myrkri.  

Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur - masterpís eins og allt sem Kristín lætur frá sér. Þessi er létt og þung, flakkar í tíma og reynslu og sest djúpt ofan í  meðvitundina.

„Ég treysti 
konunni sem vökvar plönturnar 
á hjúkrunarheimilinu og velvilja 
næstum því allra og hæfileikum þeirra til að 
sía frá harminn 
en um leið vangetu þeirra
til að bregðast við öðruvísi
en í ótta við 
harminn“

 

Eldarnir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Það er glórulaust að fjalla um ástina án tengingar við einhvers konar hamfarir. Þetta veit Sigríður Hagalín mætavel og fléttar svo stórkostlega saman ástarsögu og öðrum katastrófum. Þessa bók er líka fullkomlega ómögulegt að leggja frá sér, ég vakti framundir morgun eina góða nótt í jólafríinu til að klára, í spennukleinu fram á síðustu blaðsíðu.

 

Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Fjallar um hvað það er stundum flókið og stundum létt og stundum sárt að vera manneskja. Tregi marar í hálfu kafi gegnum alla bókina án þess að harmsaga taki yfir, svo fallegur vitnisburður um tengsl og djúpur mannskilningur í áreynslulausri frásögn. Mikill gimsteinn.

 

Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttir. Ég er mikið Bergþóru-fan, en hafði ekki kynnst þessari ljóðabók fyrr en ég mætti á frábæran húslestur í Gerðubergi nýverið, þar sem lesið var upp úr Daloon dögum. Það eru svo margir geggjaðir litir í verkinu, alls kyns senur sem manni líður eins og maður hafi lifað eða dreymt. Nammi út um allt; húmor og gróteska og poppkorn á sveimi. Svo, eins og þetta sé ekki nóg, myndskreytir Rakel McMahon bókina listavel.
Ég held að bókin sé ófáanleg, nema kannski hjá höfundi, og þess vegna tilvalið að finna hana á bókasafni og njóta hennar í góðu tómi. 

Merki
UppfærtÞriðjudagur, 6. apríl, 2021 08:42
Materials