Agnes Sigurðardóttir

Lesandinn | Agnes Sigurðardóttir

Agnes Sigurðardóttir þekkir gólf bókasafnanna betur en flestir, en hún sér um að halda þeim hreinum – sópar, skúrar, skrúbbar og bónar. Auk þess stundar hún sálfræðinám við Háskóla Íslands. „Þetta reddast“ er setning sem henni er töm þegar krefjandi verkefni koma til sögunnar, en hún fór að velta fyrir sér hvort það væri alltaf svo – er öruggt að þetta reddist? Hún mælir með bókinni Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný eftir Sirrý Arnardóttur.

Bókin inniheldur frásagnir kvenna sem hafa gengið í gegnum ýmis áföll, hvernig þær tóku á þessum áföllum og hvernig þeim líður í dag. Það sem kom mér mest á óvart var að kulnun á ekki bara við um fólk sem upplifir kulnun í starfi heldur einnig á öðrum sviðum lífsins eins og til dæmis foreldrar langveikra barna, fólk í námi, einstaklingar sem hafa lent í einhvers konar ofbeldi og svona mætti lengi telja. Mér fannst mjög áhugavert að lesa þessar reynslusögur, að gera mér betur grein fyrir hvað kulnun er og að þetta getur hent hvern sem er, ekki bara þá sem vinna mikið og hafa gert lengi. Það var ekki síður áhugavert að lesa um þau úrræði sem eru í boði og hvert hægt er að leita aðstoðar ef þess þarf. Heilsan er sjaldan jafn dýrmæt og þegar henni hrakar og bókin er góð áminning um hversu mikilvægt það er að þekkja eigin takmörk, að gefa okkur tíma til að hugsa vel um okkur sjálf, því að hvert og eitt okkar er sannarlega þess virði.

UppfærtFöstudagur, 4. júní, 2021 13:27
Materials