Guðbergur Bergsson, rithöfundur

Bókmenntavefurinn | Guðbergur Bergsson

Guðbergur hefur reynt að semja lífsverk byggt á eigin fagurfræði og hann vissi að henni yrði ekki vel tekið. Í öllu tók hann mið af hrauninu þar sem hann ólst upp. Hraun er þannig: Glóandi magn grjóts sem rennur úr eldfjalli. Það stöðvast, kólnar og deyr, en aðeins að vissu marki. Í þannig úfnu ástandi safnar það smám saman á sig mosa sem molnar og breytist í jarðveg sem úr geta jafnvel vaxið há tré við réttar aðstæður.

Guðbergur Bergsson, Bókmenntavefurinn


Rithöfundurinn Guðbergur Bergsson fæddist 16. október árið 1932 í Grindavík. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Lesa má æviágrip, rýni í og brot úr skáldskap hans á Bókmenntavefnum.

Fyrstu útgefnu bækur eftir Guðberg komu út árið 1961, skáldsagan Músin sem læðist og ljóðabókin Endurtekin orð og á eftir þeim hafa fylgt fjöldi skáldverka og þýðinga úr spænsku og portúgölsku. Meðal þýðinga hans má til að mynda nefna Don Kíkóta eftir Miguel de Cervantes. Skáldsagan Svanurinn er meðal þekktari skáldsagna hans, verið þýdd á fjölda tungumála og kvikmynduð. Þá hefur Guðbergur meðal annars gert uppruna sinn að stóru viðfangsefni í skáldævisögum og segir þar:  „Uppruni manns er alls staðar og hvergi, en hann er jafnan að finna í hugsuninni og orðunum.“ (Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar, bls. 27). Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin, Norræn verðlaun sænsku bókmenntaakademíunnar og verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Deild erlendra tungumála í Háskóla Íslands. 

Í pistli um skáldskaparskrif á Bókmenntavefnum frá árinu 2001 skrifar Guðbergur:

[...]að höfuðeinkenni á skáldskap hans sé ekki tilraun til að vekja samúð heldur íhugun, undrun, uppreisn gegn aðstæðum og spurninguna:

Hvernig getur maður staðist þá flóknu þraut sem náttúran leggur fyrir líf og eðli hans og annarra?

Borgarbókasafnið óskar skáldinu hjartanlega til hamingju með 90 ára afmælið þann 16. október 2022 og birtir hér að neðan brot af annars mjög stórbrotnu og fjölbreyttu höfundarverki Guðbergs Bergssonar sem finna má á safninu.

UppfærtMánudagur, 17. október, 2022 17:59
Materials