Gersemar og grúv með Valla
Valgeir og kollegar hans í Grófinni taka gjarnan lagið við mismunandi tilefni og grafa fram ýmsar gersemar sem leynast í tónlistardeild safnsins. Hér má sjá myndböndin sem orðið hafa til úr grúvinu.
Gersemar og grúv í Grófinni | Paul McCartney
Við tölum ekki um The Beatles heldur Bítlana. Það er tímabil kennt við þá, hér á landi höfum við Bítlabæ, Bítlahár, Bítlaskó og svo framvegis. Þegar tónleikum Led Zeppelin á Listahátíð 1970 var útvarpað voru það kallaðir Bítlatónleikar. Engin hljómsveit hefur komist með tærnar nálægt Bítlahælunum í vinsældum og áhrifum.
Paul McCartney varð áttræður þann 18. júní 2022 og því fannst tónlistardeildinni ekki annað koma til greina en að gera lítið myndband honum til heiðurs. Hér skoðum við til dæmis nýútkomna bók eftir Paul sjálfan og tökum eitt gamalt og gott lag!
Gersemar og grúv í Grófinni | Bob Dylan
Bob Dylan er ennþá að, er alltaf að og hefur alltaf verið að. Okkur fannst því ekkert að því að halda upp á 60 ára feril og 80 ára afmæli hans með myndbandi úr tónlistardeildinni í Grófinni.
Við kíkjum á gersemar og gamansögur tengdar nóbelsskáldinu og tökum lagið með tilþrifum!
John Lennon: Gersemar og grúv í Grófinni
Þann níunda október 2020 hefði John Lennon orðið áttræður ef hann hefði lifað.
Við á Borgarbókasafninu eigum fágætan, dularfullan safngrip sem Yoko Ono gaf okkur og við viljum endilega sýna ykkur. Í leiðinni skoðum við hvað við eigum í hillunum okkar tengt afmælisbarninu. Svo tökum við líka lagið í tilefni dagsins!
Gersemar og grúv í Grófinni | Beethoven og Jólaráðgátan
Nú eru tvöhundruð og fimmtíu ár síðan Ludwig van Beethoven fæddist og við á Borgarbókasafninu ætlum að gefa honum það eina sem hann vantar í afmælisgjöf: Jólalag!
Hér blandast sagnfræði, safnkostur, söngur og synthar í sönnum jólaanda!
Í tilefni 55 ára afmælis okkar ástsælu söngkonu Bjarkar Guðmundsdóttur bjuggum við til vídeó henni til heiðurs.
Í þessu myndbandi látum við þung orð falla og tölum um hvernig farið var að fyrir tíma Internetsins.
Síðast en ekki síst taka starfsmenn í Grófinni lagið! Getið bara hvaða lag...
Gjörið svo vel!