Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður, í hverfismiðstöðinni Úlfarsárdal.

Nýtt bókasafn opnar í Úlfarsárdal

Borgarbókasafnið Úlfarsárdal er sjöunda safnið okkar og hefur nú opnað, með gleði og vellíðan borgarbúa að leiðarljósi.

Það ríkir kátína yfir opnuninni en safnið er mjög sérstakt fyrir margra hluta sakir því það er ekki bara bókasafn heldur hluti af hverfismiðstöð íbúa í Úlfarsárdal og Grafarholti; sundlaug, bókasafni og skóla. Fagurt bókasafn við sundlaugarbakka býður upp á gjöfula næringu fyrir huga og líkama.


Fullbúið hljóðver

Hönnun staðarins er öll hin glæsilegasta, hugað að fegurð, birtu, góðum búnaði og aðstöðu sem og vellíðan gesta. Á Verkstæðinu er fullbúið hljóðver, aðstaða fyrir almenning til að taka upp tónlist; bæði söng og hljóðfæraleik. Auk þess hafa notendur aðgang að tölvuveri, smiðju og sal. Þá er að sjálfsögðu boðið upp á fjölbreytt úrval af bókum, borðspilum og tímaritum. 


Hverfismiðstöð

Miðstöðin skapar nýjan vettvang fyrir samstarf milli leik- og grunnskóla, sundlaugar, bókasafns, íþróttafélags og félagsmiðstöðvar.

Safnið í Úlfarsárdal hefur lengri opnunartíma en önnur bókasöfn í borginni, frá klukkan 6:30 að morgni og til 22:00 að kvöldi alla virka daga, og frá 9:00 til 22:00 um helgar, eins og sundlaugin.

Þjónustutími safnsins er frá 10:00 – 18:00 á virkum dögum, þá eru starfsmenn safnsins til aðstoðar en utan þjónustutíma er hægt að fá lánaðan safnkost í sjálfsafgreiðslu. 


Nóg um að vera

Spennandi námskeið og viðburðir verða í boði fyrir alla aldurshópa í framtíðinni. Borgarbókasafnið er opið rými allra og í Úlfarsárdal er hægt að synda, flatmaga, lesa, spila, fá lánaðar bækur, spjalla saman, taka upp tónlist og nýta alla aðstöðu, tæki og búnað í leik og starfi.

Verið öll velkomin á Borgarbókasafnið Úlfarsárdal - við tökum vel á móti ykkur.

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 13. janúar, 2022 14:15