Barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs

Tilnefningar til Barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs voru opinberaðar þann 29. mars 2022. Verðlaunin hafa verið veitt samhliða Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs frá árinu 2013, með það að markmiði að lyfta fram barna- og ungmennabókmenntum. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð tilnefna tvær bækur hvert, en Grænland, Færeyjar, Álandseyjar og samíska tungumálasvæðið tilnefna eina hvert.

Verðlaunin árið 2021 hlaut sænska bókin De afghanska sönerna, eftir Elin Persson.

Í ár eru þrettán bækur tilnefndar, en verðlaunin verða veitt 1. nóvember næstkomandi.


Tilnefndar eru eftirfarandi bækur

Frá Danmörku:

O PO POI eftir Jan Oksbøl Callesen. 

O PO POI er tilnefnd fyrir ærslafengna frásagnargleði sína, merkingarauðgi, einstakan húmor og djúpan frumleika. O PO POI tekst að hnika til hugmyndum okkar um það hvernig myndabók fyrir börn eiga að líta út.

Den om Rufus eftir Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn Smet. 

Erum við afsprengi náttúru eða menningar? Þessi kunnuglega tvískipting er í brennidepli í þessari heillandi og skemmtilegu myndabók um refinn Rufus, sem býr í borginni en villist eina nóttina inn í skóginn þar sem hann hittir fyrir flokk villtra refa. Áður en langt um líður hefur „villt og framandi tilfinning“ tekið sér bólfestu í Rufusi, sem hleypur um og ærslast allsnakinn – og án þess að sakna íbúðarinnar sinnar, hægindastólsins eða bolla af heitu tei.


Frá Finnlandi:

 

Om du möter en björn eftir Malin Kivelä, Martin Glaz Serup og Linda Bondestam

Manneskja með bakpoka, tjald og sveppakörfu býr sig í skógarferð til að njóta þess að upplifa náttúruna. Hún hyggur meðal annars á berjatínslu og dýfu í ísköldum læk, en hvað ef það kemur nú björn! Hvað gerist þá?

Oravien sota eftir Riina Katajavuori og Martin Baltscheit 

Tveir íkornabræður búa í næsta nágrenni hvor við annan. Eldri bróðirinn býr í tré þar sem vex mikið af könglum. Í tré yngri bróðurins er minna af könglum, og þegar harður vetur hefur innreið sína verður hann uppiskroppa með fæðu. Mikið rifrildi brýst út á milli bræðranna, sem þróast í stríð milli allra íkornanna í skóginum. Annar bróðirinn er klæddur rauðum fötum, hinn hvítum. Þessi frásögn, sem skrifuð er í stíl hefðbundinnar dæmisögu með dýrum í aðalhlutverki, lýsir borgarastríðinu sem geisaði í Finnlandi árið 1918. 


Frá Færeyjum: 


Abbi og eg og abbi eftir Dánial Hoydal og Annika Øyrabø

Í þessari myndabók sem er í senn uppfull af húmor, depurð og von, fær lesandinn innsýn í náið samband lítils drengs við afa sinn. Með drenginn sem sögumann fylgjum við tvímenningunum þegar þeir fara að gefa öndunum niðri við tjörnina, þegar afi segir sögur og þegar drengurinn gistir hjá honum. Um miðbik frásagnarinnar fáum við þó pata af því að ekki sé allt með felldu, og það kemur á daginn að afi drengsins er farinn að tapa minni. Með móður drengsins sem millilið og leiðsögumann snýst myndin smám saman við og við sögulok er drengurinn farinn að hjálpa afa sínum, þó að áður hafi því verið öfugt farið.


Frá Grænlandi:


Lilyp Silarsuaa eftir Sørine Steenholdt og Ivínguak` Stork Høegh

Í bókinni fylgjum við fjörugri og félagslyndri grænlenskri borgarstúlku að nafni Lily frá þriggja til níu ára aldurs. Stíll og innihald bókarinnar samanstendur af dásamlegum tilvitnunum í setningar og spurningar sem Lily hefur látið falla við móður sína, rithöfundinn Sørine Steenholdt. Sterkar og spennandi myndskreytingar eftir listakonuna Ivínguak` Stork Høegh ramma tilvitnanirnar inn í litríkan heim sem einkennist af rökvísi barna og er eins og að horfa í fallega og spennandi kviksjá.


Frá Íslandi:
Bál tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Sigmund B. Þorgeirsson

Hvernig skrifar maður um eldgamalt skinnhandrit og mörg hundruð ára gamlan þjóðararf þannig að nútímabörn langi til að lesa? Arndísi Þórarinsdóttur hefur tekist það listilega vel með því að setja sig í spor Möðruvallabókar og skrifa þvæling hennar í gegnum Íslandssöguna sem háskalega spennusögu.

Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason og Rán Flygering

Hispurslaust en með næmu innsæi og kímni dregur Gunnar Helgason upp sannfærandi mynd af sögupersónunni Alexander Daníel Hermanni Dawidsson í Bannað að eyðileggja. Alexander upplifir heiminn á alveg einstakan hátt sem hefur bæði neikvæð og jákvæð áhrif á alla hans tilvist. En eitt er alveg skýrt frá upphafi: Við erum með Alexander í liði og í því liggur styrkur bókarinnar. Samkenndin með honum er rík og það er sárt þegar Alexander og heimurinn rekast saman.


Frá Noregi:

Georg er borte eftir Ragnar Aalbu

Lítill drengur saknar kattarins síns, hans Georgs. Georg hefur ekki komið heim dögum saman. Strákurinn og pabbi hans fara út að leita. Þeir leita og leita, en Georg finnst hvergi. Ætli hann hafi orðið fyrir bíl? Ætli hann sé … dáinn? Hvað gerist þegar einhver deyr?

Ubesvart anrop eftir Nora Dåsnes

Mánuður er liðinn frá hryðjuverkunum sem framin voru í Noregi 22. júlí, og Rebekka og Fariba eru að byrja í menntaskóla. Fariba er búin að skrá sig í ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins og Rebekka reynir að átta sig á því sem gerðist í stjórnarhverfinu í Ósló og í Útey. Mamma hennar er lögreglukona og eldri bróðir hennar, Joakim, er á kafi í tölvuleikjum og í mikilli andstöðu við móður þeirra sem reynir að setja honum mörk.


Frá samíska málsvæðinu:

Gárži eftir Sara Vuolab.

Norðursamíska ljóðabókin Gárži er eftir Söru Vuolab og er hennar fyrsta bók. Helsta viðfangsefni ljóðabókarinnar er átraskanir, og það að átraskanir eru annað og meira en bara átraskanir. Höfundurinn lýsir á eigin móðurmáli tilraunum sínum sem ungrar konu til að lifa með þessari miklu byrði, hvernig það að borða, svelta sig, þyngjast og grennast hefur áhrif á hversdaginn, hvernig allt þetta étur upp krafta hennar og tekur stjórnina í lífi hennar.


Frá Svíþjóð:

Naturen eftir Emma Adbåge. 

Í Naturen („Náttúran“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Emmu Adbåge fara íbúar smábæjar frá því að elska náttúruna yfir í það að ergja sig á henni. Náttúran neitar að hegða sér eins og mannfólkið vill þrátt fyrir að það rækti flauelsblóm, malbiki götur, sagi niður stóra linditréð og grilli flankasteik yfir eldi með eldiviðnum úr trénu.

Himlabrand eftir Moa Backe Åstot. 

Eru til samkynhneigðir hreindýrahirðar? Með þessari spurningu er tónninn sleginn strax á fyrstu blaðsíðu í Himlabrand („Eldur himinsins“, hefur ekki komið út á íslensku). Í bókinni er nýkviknaðri ást lýst af mikilli innlifun, með tilheyrandi sálarangist, hiki og óvissu sem við ættum öll að kannast við.Áhrifin verða enn meiri þar sem aðalpersónan Ánte er hrifinn af besta vini sínum, Erik. Báðir eru þeir Samar og hreindýrahirðar.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 29. mars, 2022 20:16