Guðjón Jesson
Guðjón í bílskúrnum sínum sem er fullur af áhugaverðum bókum sem auðvelt er að gleyma sér við að grúska í.

Viðtal | „Stóð í klukkutíma biðröð til að komast á bókasafnið“ 

Guðjón Jensson bókasafnsfræðingur og leiðsögumaður starfaði um árabil á bókasafninu í Iðnskólanum efst á Skólavörðuholti, núna Tækniskólinn.

„Þar var mjög skemmtilegt að vinna, safnkosturinn auðvitað mikið tengdur hinum ýmsu iðngreinum. Það eru ekki margir sem vita það enda svo langt síðan en á efstu hæð í austurálmu skólans var heimavist nemenda þar sem bókasafnið er núna í skólanum. Erró leigði vinnuaðstöðu á sömu hæð þegar hann kom heim frá París og greiddi leiguna með tveimur listaverkum við innganga skólans.“

Njósnari í dulargervi svifflugskennara

Þessa dagana leggur Guðjón lokahönd á sagnfræðilegu skáldsöguna Löngu horfin spor sem hann hefur unnið að undanfarin tíu ár. Bókin fjallar um Carl Reichstein sem sendur var til Íslands af SS sveitum þýska nasistaflokksins til að kenna Íslendingum svifflug í seinni heimsstyrjöldinni en Guðjón telur þó að það hafi aðeins verið yfirskin, aðal ástæðan sé að hann hafi átt að stunda njósnir. Carl fannst látinn í húsi við Freyjugötu sumarið 1938.

„Ýmsar upplýsin gar sem ég fann á timarit.is og kveikti hjá mér áhugann að skoða málið frekar fyrir tíu árum síðan, stendur að hann hafi tekið eigið líf en ég hef grun um að andlát hans geti hafa borið að með saknæmum hætti,“ segir Guðjón sem hefur leitað fanga og heimilda víða fyrir skrifin, í bókum, tímaritum og skjalasöfnum, hérlendis og í Þýskalandi. Eftir nokkra leit fannst lögregluskýrslan á Þjóðskjalasafninu, í skjalasafni borgarfógeta.

„Þar kemur fram að líkið hafi ekki verið krufið heldur málið afgreitt samdægurs sem sjálfsvíg jafnvel þótt aðkoman hafi bent til að honum kunni hafa verið veittur bani. Nafnið, Carl Reichstein, bendir til að hann hafi verið gyðingur sem var vissulega sjaldgæft, að gyðingar væru í SS sveitinni, en ekki óþekkt. Á heimilinu fundust þrjú bréf merkt honum, þar af tvö með nasistakveðjunni Heil Hitler. Í síðasta bréfinu er honum tilkynnt að réttindi hans sem svifflugkennari hafi verið afturkölluð og honum fyrirskipað að snúa aftur til Þýskalands sem hann ekki gerði.“

Guðjón segir Löngu horfin spor í raun fjalla um mannréttindi.

„Hún kallast á við það ástand sem er núna í gangi í Austur Evrópu þar sem einræðisherra telur að lýðræði og mannréttindum sé ofaukið í þjóðfélaginu.“

Ein persóna bókarinnar er Günter Timmermann, vel menntaður náttúrufræðingur sem starfaði sem aðalkonsúll Þjóðverja hér á landi á árunum 1934-1939 en Guðjón ritaði æviágrip hans sem birtist í tímariti Fuglaverndar, Fuglar, vorið 2015.

„Günter giftist íslenskri konu, Þóru, sem var frá Hornafirði. Dóttursynir þeirra eru Frímann Andrésson, útfararstjóri í Hafnarfirði og Markús Þór Andrésson sýningarstjóri sem sett hefur upp fjölda sýninga hér á landi og erlendis.“

Beið í biðröð fyrir utan bókasafnið

Bókin gerist að hluta til á Bæjarbókasafninu Ingólfsstræti 12, forvera Borgarbókasafnsins, en sjálfur á Guðjón góðar minningar frá því að safnið var í Þingholtsstræti 29a.

„Ég fór oft á safnið í Þingholtsstræti 29a til að lesa námsbækurnar á sunnudögum þegar ég var nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þar var aðeins pláss fyrir um 20 til 25 manns í lestraraðstöðinni á efri hæðinni svo ég mætti gjarnan um kl.12 og beið í röð fram að opnun kl.13.00. Þau sem náðu lestrarbás máttu vera þar allan daginn fram til lokunar kl. 18.00. Dagurinn á safninu fór að mestu í skólabækurnar en ef ég hafði staðið mig vel, sérstaklega fyrir frönskutíma, þá verðlaunaði ég mig með því að líta í blöðin áður en ég fór heim. Vigdís Finnbogadóttir kenndi frönsku og var frábær kennari. Hún sagði okkur frá París, frá söfnum, sögusviði Vesalinganna og fleiru með þeim hætti að við nemendurnir fengum góða innsýn í franska sögu og menningu.“

Guðjón hefur verið duglegur að viða að sér bókum sem margar hverjar eru afar gamlar líkt og þetta eintak af Njálu frá árinu 1772

Stútfullur bílskúr af bókum

Guðjón segist reglulega fara á bókasafnið í Mosfellsbæ þar sem hann er búsettur, mest til að lesa blöð og tímarit en fer einnig á einstaka viðburði á safninu. Einnig kíkir hann á Borgarbókasafnið Grófinni þegar hann á leið í miðbæ Reykjavíkur. Hann hefur þegar gert samning við bókaútgáfu um útgáfu bókarinnar sem hann reiknar með að komi út í haust. Þrátt fyrir að tíu ára verkefni sé senn að ljúka óttast hann ekki að sitja auðum höndum enda áhugamálin mörg.

„Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á sagnfræði og er alltaf eitthvað að grúska. Það sem mig langar næst að skoða er sel Viðeyjarklausturs sem var stærsta klaustur á Íslandi. Bílskúrinn minn er stútfullur af bókum, margar yfir 100 ára gamlar sem ég hef sankað að mér frá bernsku, mér leiðist aldrei.“


Hér fyrir neðan má sjá 24.kafla í væntanlegri bók Guðjóns, Löngu horfin spor, þar sem því er lýst þegar þeir félagarnir Carl og Leifur heimsækja Bæjarbókasafnið að Ingólfsstræti 12.

Tilefnið að stofnun Alþýðubókasafnsins í Reykjavík 1923, sem seinna varð Bæjarbókasafn og enn síðar Borgarbókasafn, verður að teljast mjög sérkennileg að ekki sé meira sagt.

Í heimsstyrjöldinni fyrri bauðst Íslendingum að allur togarafloti landsmanna eins og hann lagði sig væri keyptur af Bretum og Frökkum við góðu verði. Mikill skortur var á litlum skipum til landvarna og flutninga með ströndum fram við Bretland og Frakkland. Um þær mundir hafði kafbátafloti Þjóðverja valdið mjög miklu tjóni og grisjað umtalsvert skipaflota Bandamanna. Auk þess höfðu tundurdufl sökkt fjöldanum öllum af skipum stórum sem smáum. Þegar þarna var komið sögu vildu Bretar og þá einkum Frakkar kaupa togara Íslendinga á sanngjörnu verði. Það verður að teljast hafi þá verið kostakjör enda togaraflotinn Íslendinga bæði orðinn gamall og að mörgu leyti úr sér genginn.

Alþýðuflokkurinn í bæjarstjórn Reykjavíkur var samþykkur þessu samkomulagi með einu ófrávíkjandi skilyrði: að hluti þess fjár sem fengist fyrir skipin eða 20.000 krónum yrði varið til að stofna og koma á fót Alþýðubókasafni í Reykjavík. Þetta fé var umtalsvert því áratug áður var kýrverð um 100 krónur. Kýrverðið var lengi vel ein besta verðmiðunin á Íslandi, allt verðlag snérist um afurðir og framleiðslu landsmanna. Hentaði það mjög vel í landbúnaðarsamfélagi þar sem verðlag breyttist lítið gegnum aldirnar. Það þurfti ekki gulltryggingu þessa gjaldmiðils. Síðar þá íslenska krónan var fundin upp varð breyting sem einkum kom mörgum auðmönnum til góða.

Nær fjórum áratugum áður hafði íslenskur bókavörður í Cambridge á Englandi, Eiríkur Magnússon að nafni, ritað grein í landsmálaritið Þjóðólf  í júlí 1884 þar sem hann hvatti til að efnt yrði til almenningsbókasafns í Reykjavík. Þar gætu íbúar bæjarins sótt sér fræðslu og aukinnar þekkingar á eigin spýtur. Nú hafði þetta allt gengið eftir og snemma vorið 1923 tekur Alþýðubókasafnið í Reykjavík til starfa eins og það hét upphaflega. Var það fyrst í fremur þröngu húsnæði að Skólavörðustíg 3 en nokkru síðar árið 1928, var það flutt í Ingólfsstræti 12 og enn síðar, 1952 í eitt fegursta húsið í Reykjavík að Þingholtsstræti 29a. Þar var starfsemi þess lengi vel í þessu fagra húsi sem Obenhaupt kaupmaður í Reykjavík hafði látið byggja af mikilli rausn á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það var nefnt Esjuberg eftir að maður einn, Ólafur Johnsen stórkaupmaður og stofnandi fyrstu heildsölunnar á Íslandi, Ó Johnson & Kaaber, hafði fest kaup á húsinu. Móðir hans, Ingibjörg, var frá Esjubergi á Kjalarnesi.

Þeir Carl og Leifur komu þennan vetur oft við á Bæjarbókasafninu að Ingólfsstræti 12. Stundum hittust þeir þar og mæltu sér mót eftir að hafa sinnt einhverju öðru fyrr um daginn. Carl sótti reglulega tíma í íslensku hjá dr. Alexander í Alþingishúsinu en Leifur stundaði stopul störf við bókhald og önnur kontóristastörf í miðbæ Reykjavíkur. Hann naut þess að hafa stundað nám einn vetur í Verslunarskólanum, hafði náð góðum tökum á bókhaldsþekkingu og var auk þess sæmilega vel að sér í þýsku sem margir atvinnurekendur kunnu vel að meta.

Dagblöðin lásu þeir gjarnan spjaldanna á milli sem og nokkur tímarit og jafnvel bækur. Carl var eðlilega mjög áhugasamur að lesa allt sem hann rakst á í dagblöðunum og gerðist í heimalandi hans. Sjaldnast voru tíðindin góð og framtíðin leit hvorki út fyrir að vera góð né björt. Honum var oft hugsað til fundarins með þýska konsúlnum á dögunum. Hugur hans varð gagnrýnni með hverri vikunni sem leið. Hvernig Þýskalandi var nú stjórnað með aukinni harðneskju af þröngsýnu valdaklíkunni í Berlín. Þar var hvorki lýðræði, þingræði né mannréttindi talin vera nokkurra fiska virði lengur. Allt miðaðist við að Þýskaland skyldi verða mikilvægasta land heims og Þjóðverjar þar með æðstir meðal Aría! Hvorki meira né minna! Hvað vakir í raun fyrir þýsku ríkisstjórninni, hvað vill hún og hvers ætlast hún til af þjóðinni? Af hverju vill ríkisstjórnin að þrengt sé stöðugt að almennum mannréttindum? Hvers vegna er lýðræðið og þingræðið algjörlega afnumið og innleitt einræði eins flokks í staðinn? Hafði það ekki tíðkast fyrr á tímum einvaldra konunga og keisara þar sem þingið hefur engin völd?

Valdaklíkan grípur öll völd í sínar hendur sem tæplega getur talist nokkurri þjóð hollt. Það voru runnir upp alveg hræðilegir tímar sem gætu endað með skelfingu enda eiga stjórnvöld aldrei að geta stjórnað landi nema í umboði og í fullu samráði við þorra þeirrar þjóðar sem hlut á að máli.

Nasistar nutu aldrei þeirrar stöðu að meirihluti þýsku þjóðarinnar veldi þá til forystu í frjálsum opnum kosningum og stæði heils hugar að baki þeim. Fylgi þeirra í kosningum varð aldrei meira en tæplega 44% af öllum kjörnum atkvæðum.

Bæjarbókasafnið í Ingólfsstræti var flesta daga svo troðfullt af fólki að stundum var ekkert sæti laust. Þá stóðu þeir sætislausu við bókahillurnar meðan nægt olnbogarými var fyrir. Atvinnulaust fólk var ótalmargt í Reykjavík á þessum árum og sótti mikið í safnið til að „drepa tímann.“ Stundum einfaldlega til að komast inn í hlýjuna í köldu veðri. Þá var þetta fátæka fólk auðvitað að afla sér af sjálfsdáðum aukinnar fræðslu og menntunar, lesa fréttir í dagblöðunum og annan fróðleik í tímaritum og bókum, víkka sem best og mest sjóndeildarhringinn eftir því sem tök voru á. Aðgangur að lestrardeildinni var ókeypis en greiða þurfti hóflegt árgjald ef einhver vildi hafa bók að láni heim með sér.

Bókavörðurinn Sigurgeir Friðriksson hafði ákveðna skoðun á þessu atriði. Hann var menntaður í Danmörku og taldi að allt ætti að vera ókeypis tengdu bókasöfnum enda ætti að vera eitt af hlutverkum sveitarfélagsins að kosta að öllu leyti til starfsemi bókasafna. Innheimtu fylgir óhjákvæmilega kostnaður og aukin fyrirhöfn sem unnt væri þá að spara á móti. Vísaði bókavörðurinn þá til reynslu sinnar frá Danmörku. En ráðamenn í Reykjavík vildu gjarnan sjá í rekstrinum einhvern dálítinn tekjustofn þó auðvirðilegur væri.

Á Bæjarbókasafnið kom saman þverskurður samfélagsins, ekki aðeins atvinnuleysingjar og verkafólk, heldur einnig handverksmenn, iðnaðarmenn, jafnvel verslunarmenn, læknar, lögfræðingar og prestar sem og aðrir menntamenn, skólanemendur, skáld og rithöfundar. Ósjaldan mátti sjá þar kunnugleg andlit sem komu aftur og aftur, sum nokkuð reglulega en önnur sjaldnar.

Blöð, tímarit og sumar bækur báru þess augljós merki að margar hendur fóru um safnkostinn, sem eðlilega mátti ekki vænta langra ævidaga. Var bókavörðurinn oft spurður af fátæku verkafólki hvort taka mætti riflindið a tarna með sér heim. Dagblöðin voru bókstaflega lesin upp til agna. Og svo var unnt að nota þau að lokum til uppkveikju í kolaofnum fátæklinganna.