Carolina Schindler

Viðtal | „Alltaf einhver sem maður þekkir sem tekur á móti manni með bros á vör“

Þegar Carolina Schindler var í fæðingarorlofi mættu hún og sonur hennar Jakob Magni, sem nú er rúmlega tveggja ára, reglulega á opinn leikskóla Memmm Play á Borgarbókasafninu Gerðubergi. Memmm eru félagasamtök sem vinna að fjölskylduvænna samfélagi. Þar starfa  einstaklingar áhugasamir um að skapa tækifæri fyrir fjölskyldur til að njóta samveru og gæðastunda á fjölbreyttan hátt.

Segir Carolina afar mikilvægt að hafa haft fastan punkt í tilverunni þar sem hún fór út úr húsi til að hitta aðra fullorðna með ung börn.

„Það er nauðsynlegt að hitta fólk og geta talað um allt sem er í gangi, spjalla og deila reynslu af uppeldinu. Andlega léttir mikið að vita að það má mæta þegar manni hentar og það er alltaf einhver sem maður þekkir sem tekur á móti manni með bros á vör“.  

Gott að fá ábendingar um barnvæna staði

Á fjölskyldumorgnum syngja gestir saman, börnin leika sér og fullorðna fólkið fær sér bolla í boði hússins á meðan það spjallar um daginn og veginn, en mest þó kannski um börnin.

„Það er gaman að kynnast nýju fólki í sömu aðstæðum, deila hvert með öðru um eigin líðan og þroska barnsins, heyra um ólíkar uppeldisaðferðir í mismunandi löndum og ræða um hvernig kerfið virkar á Íslandi. Það er líka mjög gott að fá ábendingar um hvert er gott að fara með börn, til dæmis hvaða kaffihús og sundlaugar henta vel“.   

Gestir Memmm leikskólans koma víða að og má heyra hin ýmsu tungumál töluð á fjölskyldumorgnunum enda allt að 25% með annað móðurmál en íslensku.

Fjölbreytt fræðsla, bækur og tímarit

Opni leikskólinn býður reglulega upp á fræðslu tengda börnum sem Carolina segir frábært og nefnir sérstaklega námskeið um málþroska ungbarna og skyndihjálp. Meðal annarra fræðsluerinda sem haldin hafa verið má nefna hreyfiþroska ungbarna, tákn með tali, bleyjulaust uppeldi og hvernig kírópraktor vinnur með ungabörnum.

Hún segir Gerðuberg henta vel fyrir stundir eins og fjölskyldumorgna

„Mjög vel, algjörlega frábær staðsetning, nóg af bílastæðum í Gerðubergi - ég fer líka oft á kaffihúsið á efri hæðinni og á bókasafnið“. 

Auk þess að mæta á fjölskyldumorgna hafa mæðginin nýtt sér leiksvæði bókasafnsins, farið á sögustundir og fengið lánaðan safnkost. Í hillum safnsins má finna mikið af forvitnilegum og fræðandi bókum og tímaritum tengdu barnauppeldi og auðvitað aragrúa af barnabókum. 

Memmm Play bíður foreldrum/forsjáraðilum og börnum þeirra upp á fallegt og þroskandi leiksvæði, í salnum Fell, á neðri hæð í Borgarbókasafnsins í Gerðubergi, alla miðvikudagsmorgna milli klukkan 10 og 12.

Alls eru fjölskyldumorgnar þrisvar í viku á Borgarbókasafninu en auk opins leikskóla hjá Memmm Play eru fjölskyldumorgnar á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal á þriðjudagsmorgnum og í Grófinni á fimmtudagsmorgnum.  Engin skráning er á viðburðina sem eru öllum opnir. 
Hér má lesa meira um fjölskyldumorgna Borgarbókasafnsins.