Söguhornið | Vel heppnuð fjölmenningarhátíð

Það var margt um manninn á Borgarbókasafninu Grófinni sunnudaginn 1.október þegar haldin var allsherjar fjölmenningarhátíð í tilefni opnunar Söguhornsins. José Luis Anderson lék á gítar og söng falleg lög á íslensku, ensku og spænsku og boðið var upp á notalegar sögustundir á arabísku, ensku, farsi, íslensku, pólsku, spænsku, úkraínsku og rússnesku. Rósa Björg Jónsdóttir hjá bókasafni Móðurmáls var með skiptibókamarkað og bekkurinn var þétt setinn í skemmtilegri föndurstund hjá Jurgitu Motiejunaite þar sem hvert listaverkið á fætur öðru leit dagsins ljós. Hátíðin endaði síðan á allsherjar krakkadiskói þar sem ungir og aðeins eldri gestir dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn.

Krakkadiskó

Söguhornið er nýtt verkefni á Borgarbókasafninu þar sem öll áhugasöm geta skipulagt sína eigin sögustund á safni að eigin vali, á hvaða tungumáli sem er. Starfsfólk safnsins aðstoðar við að gera sögustundirnar sem notalegastar og ef bókað er tímanlega er fundinn til safnkostur á tungumáli sögustundarinnar fyrir gesti til að lesa á staðnum eða fá lánaðar heim.

Hér má lesa meira um Söguhornið og bóka sína eigin sögustund á hvaða tungumáli sem er, á safni að eigin vali.