Rambaði á glæpasöguna af slysni

Á degi íslenskrar tungu í ár hlaut rithöfundurinn Arnaldur Indriðason Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1996 til einstaklinga sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

Þá hlaut Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV, sérstaka viðurkenningu fyrir þætti sína Í ljósi sögunnar.

 

Arnaldur Indriðason sagði í viðtali við Menninguna á RÚV að hann læsi almennt mikið af ljóðum og ljóðskáld væru hans helstu áhrifavaldar þegar kemur að íslenskri tungu. Einnig nefndi hann lestur á Íslendingasögum sem mikilvægan grunn. Arnaldur hefur í gegnum tíðina hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir glæpasögur sínar um allan heim. Í rökstuðningi verðlaunanefndar var meðal annars nefnt að bækur hans hefðu notið gríðarlegra vinsælda meðal ungra sem aldinna úr öllum stéttum íslensk þjóðfélags og þar með gegnt mikilvægu hlutverki í að viðhalda og auka lestraráhuga þjóðarinnar.

Fyrsta spennusagan frá Arnaldi nefnist Synir duftsins og kom út árið 1997, þegar glæpasagnaskrif voru lítt stunduð á Íslandi. Þá vann hann sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Morgunblaðinu, 36 ára gamall. Síðan þá hefur komið út bók um sakamál á hverju ári frá höfundinum, lesendahópur hans hefur stækkað gríðarlega og verk hans verið þýtt um víða veröld. Nýjasta skáldsagan, Sigurverkið, er komin í búðir!

Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, skrifar um höfundarverk Arnaldar Indriðasonar á Bókmenntavefnum í grein frá árinu 2017 og segir þar:

„Arnaldur Indriðason er merkilegur höfundur í íslenskri bókmenntasögu. Honum hefur tekist að hrinda af stað bylgju íslenskra glæpasagna og með því festa íslenskar glæpasögur í sessi sem viðurkennt og vinsælt bókmenntaform. Það að koma íslenskum glæpasögum á íslenska bókmenntakortið hefur síðan haft þau áhrif að önnur form bókmennta hafa smám saman rutt sér til rúms, eins og auknar vinsældir furðusagna eru til marks um. Ennfremur hafa vinsældir sagna Arnaldar náð langt út fyrir landsteinana með þeim afleiðingum að áhuga erlendra lesenda á íslenskum bókmenntum – og Íslandi almennt – hefur aukist til muna.“

 

Borgarbókasafnið óskar Arnaldi Indriðasyni, handhafa Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2021, hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.

Ég held ég hafi rambað inn á sakamálasögugerð af slysni. Það var að minnsta kosti ekki meðvituð ákvörðun og ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég var búinn með fyrstu söguna mína að hún gæti flokkast sem spennu- og sakamálasaga. Hún fjallar um ungan mann sem á bróður á geðsjúkrahúsi er fremur sjálfsmorð. Það er ákveðin ástæða fyrir því, sem hann leitar að bókina á enda. […] það er ekkert sem segir að góð sakamálasaga geti ekki líka verið góður skáldskapur og meiri og betri bókmenntir en það sem kallaðar eru vandaðar skáldsögur. Vönduð sakamálasaga getur verið vönduð skáldsaga og ég held að þegar frá líður muni þetta verða viðurkennt.
– Svo skrifar Arnaldur sjálfur í pistli á Bókmenntavefnum fyrir tveimur áratugum síðan, árið 2001 – og hann virðist sannarlega hafa haft eitthvað til síns íslenska máls.

 

Handhafar Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar frá upphafi, árin 1996-2021:

 1. Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og grunnskólakennari, 1996
 2. Gísli Jónsson menntaskólakennari, 1997
 3. Þórarinn Eldjárn rithöfundur, 1998
 4. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, 1999
 5. Magnús Þór Jónsson, Megas, 2000
 6. Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, 2001
 7. Jón Böðvarsson, 2002
 8. Jón S. Guðmundsson, 2003
 9. Silja Aðalsteinsdóttir, 2004
 10. Guðrún Helgadóttir, 2005
 11. Njörður P. Njarðvík, 2006
 12. Sigurbjörn Einarsson, 2007
 13. Herdís Egilsdóttir, kennari, 2008
 14. Þorsteinn frá Hamri, rithöfundur og skáld, 2009
 15. Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra Sameinuðu Þjóðanna í tungumálum, fyrrverandi forseti Íslands og leikhússtjóri, 2010
 16. Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur, 2011
 17. Hannes Pétursson rithöfundur, 2012
 18. Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður, 2013
 19. Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur 2014
 20. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur 2015
 21. Sigurður Pálsson skáld 2016
 22. Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, 2017
 23. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, 2018
 24. Jón G. Friðjónsson prófessor, 2019
 25. Gerður Kristný, skáld og rithöfundur 2020
 26. Arnaldur Indriðason, rithöfundur, 2021
Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 18. nóvember, 2021 17:30