Halla Þórlaug hlýtur Maístjörnuna fyrir Þagnarbindindi

Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns voru veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðinni þriðjudaginn 8. júní.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir, sem er reyndar Verkefnastjóri bókmenntaviðburða hér á Borgarbókasafninu, hlaut verðlaunin í þetta sinn fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi sem gefin er út af forlaginu Benedikt. Við óskum Höllu innilega til hamingju með verðskuldaða Maístjörnu!

Í umsögn dómnefndar segir:

Þagnarbindindi er áhrifarík ljóðsaga sem sver sig í ætt við ýmis eftirtektarverð verk frá síðasta áratug, jafnt innlend sem erlend, þar sem konur skrifa á hugdjarfan og hispurslausan hátt um sára og erfiða reynslu. Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar.

Dómnefnd skipa Sverrir Norland fyrir hönd Rithöfundasambandsins og María Logn Kristínardóttir Ólafsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir er fædd 1988 og uppalin í Reykjavík. Hún lauk BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2012 og MA prófi í ritlist frá Háskóla Íslands 2014. Halla Þórlaug starfar sem verkefnastjóri bókmennta á Borgarbókasafninu. Áður starfaði hún sem dagskrárgerðarmaður á menningardeild Rásar 1. Halla Þórlaug hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við á ritvellinum og hefur t.d. auk ljóðagerðar samið verk fyrir leiksvið og útvarp.

Aðrar tilnefndar bækur:

Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús.

Draumstol eftir Gyrði Elíasson. Útgefandi: Dimma.

Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Útgefandi: Mál og menning.

1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Útgefandi: Bjartur.

Flokkur
Merki
UppfærtÞriðjudagur, 8. júní, 2021 19:03