
Fyrirlestur um (kvenna)sögu saumavélarinnar
LÆSI Á STÖÐU OG BARÁTTU KVENNA | Samstarfsverkefni almenningsbókasafna um land allt í tilefni Kvennaárs 2025
Bókasafnasjóður veitti styrk til verkefnisins.
 __________________________________________________________
__________________________________________________________
Laugardaginn 25. október 2025 hélt Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðingur, fyrirlestur um sögu saumavélarinnar á Bókasafni Ísafjarðar sem bar titilinn Að atvinnu og í hjáverkum. Áhrif saumavélarinnar á líf og störf kvenna 1865–1920. Húsfyllir var á viðburðinum og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið þar sem fólk deildi frásögnum um saumavélar og saumakonur úr eigin fjölskyldusögu. Kvennasaga var í brennidepli en til þess að skilja hvar við erum stödd og hvert við stefnum þá þurfum við að átta okkur á því hvaðan við komum.
Almenningsbókasöfn um land allt hafa sameinað krafta sína undir merkjum verkefnisins Læsi á stöðu og baráttu kvenna þar sem vakin er athygli á jafnréttisbaráttunni.
        
           
      
Fyrirlesturinn byggði á MA ritgerð Arnheiðar, Saumavélar á Íslandi 1865–1920. Útbreiðsla, efnismenning og samfélagsleg áhrif. Markmið ritgerðarinnar var m.a. að rannsaka þau áhrif sem tilkoma saumavélarinnar hafði á líf og störf kvenna út frá sjónarhorni kvenna- og kynjasögu. Saumavélar voru sannarlega hreyfiafl í sögunni, enda sáu konur snemma möguleikana sem þeim fylgdu og hagnýttu sér þá. Að eignast saumavél gat skipt sköpum, bæði til þess að létta á heimilisverkunum og til þess að afla tekna – að atvinnu og í hjáverkum.
Á fyrirlestrinum var fjallað um þann fjölda saumavéla sem fluttar voru til landsins á tímabilinu en árið 1910 var nánast búið að flytja inn nægilega margar vélar fyrir hvert einasta heimili á landinu. Það má því segja að á þessum tíma hafi saumavélin farið úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á fjölmörgum heimilum. Þessu fylgdu ýmsar breytingar. Tískan breyttist eftir því sem sérhæfingin jókst og þó saumavélin hafi boðað vinnusparnað þá er ekki þar með sagt að vinnustundunum hafi fækkað. Kröfurnar breyttust og verkefnin tóku mið af því.
        
           
      
Saumavélin auðveldaði konum að hafa atvinnu af saumaskap. Saumakonustarfið gat gert konum kleift að halda sér yfir fátæktarmörkum og jafnvel öðlast borgaraleg réttindi á tímum þegar kvenréttindabarátta var skammt á veg komin. Þar má nefna ísfirsku saumakonuna Andreu Friðriku Guðmundsdóttur (1845–1911) sem kaus í sveitarstjórnarkosningum á Ísafirði árið 1884 og var þar fyrst kvenna á Íslandi til þess að nýta sér kosningarétt sem Alþingi hafði samþykkt tveimur árum áður. Kosningarétturinn var m.a. háður því að konur ættu með sig sjálfar; væru ekkjur eða ógiftar og stæðu fyrir búi. Andrea átti með sig sjálfa því hún var saumakona.
Þrátt fyrir að klæðagerð í gegnum aldirnar hafi að miklu leyti verið í höndum kvenna þá gátu konur ekki orðið fullnuma klæðskerar á þessum tíma. Til þess þurfti að vera ólaunaður lærisveinn í sjö ár en konur höfðu ekki kost á því. Þar skorti bæði fjármagn og tíma, enda gerði samfélagið ekki ráð fyrir því að konur menntuðu sig svo mikið. Klæðskerar gátu því krafist hærra kaups en saumakonur. Það var svo ekki fyrr en árið 1944 sem saumakonur öðluðust iðnréttindi.
        
           
      
Markmið viðburðarins var að vekja fólk til umhugsunar um sögu kvenna. Hvar hún leynist í bókum, hvernig við höldum henni uppi og með hvaða hætti vinna kvenna hefur verið metin í gegnum tíðina. Gestir fyrirlestursins voru hvattir til þess að segja frá saumavélum úr eigin fjölskyldusögu í umræðunum. Við undirbúninginn hafði Bókasafnið samband við kvenfélögin á svæðinu og þeim var sérstaklega boðið að mæta með hvatningu um að taka þátt í umræðunum.
Umræðurnar voru afar líflegar og studdu þær enn fremur við þær niðurstöður rannsóknarinnar að saumavélin hafi verið hreyfiafl í sögunni – ekki aðeins þegar kemur að atvinnusögu landsins heldur einnig í persónulegu lífi kvenna. Á viðburðinn mættu m.a. saumakonur og afkomendur saumakvenna sem höfðu skemmtilegar sögur að segja. Eðlilega var mikil rætt um saumakonur úr sögu Ísafjarðar og nágrennis en ljóst er að nánari rannsókna á þeirra störfum er þörf.
Viðburðurinn heppnaðist afar vel og ljóst er að áhugi á sögu saumavélarinnar og ekki síður sögu kvenna er mikill. Að eiga samtal um söguna út frá sjónarhorni kvenna með þessum hætti skiptir máli, bæði til þess að miðla þeim rannsóknum sem unnið er að en einnig til þess að hvetja til áframhaldandi rannsókna á þessu sviði.
 
        