Anna María Bogadóttir og Kristín Eiríksdóttir
Anna María Bogadóttir og Kristín Eiríksdóttir

Tól og Jarðsetning tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024

Við óskum Önnu Maríu Bogadóttur og Kristínu Eiríksdóttur innilega til hamingju með tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir bækurnar Jarðsetning og Tól. Útgefendur eru Angústúra og Forlagið.

Við hvetjum lesendur að kynna sér allar bækurnar sem tilnefndar eru í ár á vef Norðurlandaráðs.

Í rökstuðningi dómnefndar um bókina Jarðsetningu segir m.a.:

Með frumlegum texta og heillandi myndefni tekst höfundi að brúa bilið milli arkitektúrs og bókmennta. Jarðsetning er áhrifamikið verk og persónulegt þar sem höfundur speglar sig sem manneskju og eigið æviskeið í sögu umræddrar byggingar. Því eins og Anna María orðar það þá geymir hús, líkt og líkaminn, minningar og kannski erum við öll byggingar – ýmist á leið í urðun eða uppfyllingu. 

Í rökstuðningi dómnefndar um bókina Tól segir m.a.:

Smám saman verður ljóst að saga allra aðalpersónanna snýst um baráttu við að halda ævi sinni í línulegri frásögn sem samfélaginu geðjast að. Sú línulaga frásögn er alls ekki „sannari“ en hinn tilfinningatengdi skáldskapur Villu, sem Kristín Eiríksdóttir hefur sett saman og tengt við söguna af Jóni Loga og Ninju. Hvaðan kom eiginlega sú hugmynd að mannlífið ætti að vera rökrétt og línulaga?

Tilnefndar bækur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 og að þessu sinni verða þau afhent á þingi Norðurlandaráðs sem haldið verður í Reykjavík í haust.

Allar nánari upplýsingar um verðlaunin er að finna á vef Norðurlandaráðs.

Materials