Magma

Tilnefningar | Dublin Literary Award

Í dag 30. janúar 2023 var tilkynnt hvaða bækur eru tilnefndar á langlista Bókmenntaverðlauna í Dublin - Dublin Literary Award –  sem eru bókmenntaverðlaun almenningsbókasafna um víða veröld. Alls voru 70 bækur tilnefndar að þessu sinni, en það eru 84 bókasöfn frá 31 landi sem tilnefna bækur.

Bækur sem eru tilnefndar til verðlaunanna árið 2023 verða að hafa verið útgefnar:

- á ensku á tímabilinu 1. júlí 2021 til 30. júní 2022

- eða þá að bækurnar hafa fyrst verið útgefnar á öðru tungumáli en ensku á tímabilinu 1. júlí 2012 til 30. júní 2022 og þýddar á ensku og útgefnar frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2022.

Þetta er í 28. sinn sem verðlaunin eru haldin af Borgarbókasöfnum í Dublin og styrkt af borgarstjórninni í Dublin ásamt Dublin bókmenntaborg.

Tilnefndar bækur eru frá ýmsum löndum og í ár eru þær upprunalega skrifaðar á m.a. ensku, arabísku, búlgörsku, hindí, kóresku, slóvensku, japönsku og íslensku.
Sjá lista af tilnefndum bókum sem finna má á Borgarbókasafninu og Rafbókasafninu (neðst hér á síðunni).


Skáldsagan Magma/Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur er tilnefnd í enskri þýðingu Meg Matich.

Kvika er fyrsta skáldsaga Þóru Hjörleifsdóttur, hún kom út á Íslandi árið 2019 hjá Forlaginu og í enskri þýðingu sem Magma í júlí 2021 bæði í Bandaríkjunum og Kanada hjá útgáfunni Black Cat. Þóra er fædd árið 1986 og hefur lokið MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Auk Kviku þá hefur hún gefið út skáldskap, ljóðabækur og eina skáldsögu, í samstarfi við skáldakollektívið Svikaskáld sem er skipað 6 skáldum.

Kvika/Magma er sögð í fyrstu persónu af ungri konu, Lilju, og er sláandi frásögn af andlegu og kynferðislegu ofbeldi í nánu sambandi árið 2007 í Reykjavík. Sagan er tileinkuð þeim sem hafa rofið þögn um ofbeldi og sagt frá. Hún vekur athygli á veruleika sem hefur verið þagað yfir og hversu mikilvægt er að uppræta þá skömm sem þolendur ofbeldis geta upplifað, en skömmin þrífst best í þögn og einangrun.

Skáldsagan er knöpp og vel eimuð. Brotakennt frásagnarformið er stór hluti af sögunni, eykur slagkraftinn og heldur lesanda föngnum í eyðandi vef aðalpersónunnar sem talar sterkt inn í samtímann, um myrkar hliðar ástarsambanda, um ofbeldi í nánum samböndum, um þráhyggju og sjúka ást.

 

 Alls eru 14 bækur á 70 bóka listanum frumraun höfunda.
Hér er hægt að fræðast nánar um Bókmenntaverðlaunin í Dublin og hvaða bækur eru tilnefndar - og einnig á facebook-síðu verðlaunanna. Í mars verður styttri listi tilkynntur með 6 tilnefndum bókum og að lokum verða verðlaunin veitt einum höfundi og þýðanda (ef bókin er þýðing) í maí 2023.

Dublin Literary Award

Hér að neðan gefur að líta brot af tilnefndum bókum til Dublin Literary Award sem finna má á Borgarbókasafninu og einnig á Rafbókasafninu. Um að gera að lána og lesa þessi djásn, mynda sér skoðanir á bókmenntum sem almenningsbókasöfn um allan heim mæla með.

Svo minnum við lánþega á að ef þeir finna ekki bókina sem leitað er að þá má gjarnan senda til okkar innkaupatillögur - sjá leiðbeiningar hér. 

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 16. maí, 2023 10:13
Materials