Styttri listi Booker verðlaunanna 2022

Stuttlisti Booker Prize tilnefninga

Stysta bókin og elsti höfundurinn

Á vefsíðu Booker verðlaunanna eru taldar upp áhugaverðar staðreyndir um tilnefndu höfundana og bækurnar í ár. Til dæmis má nefna að stysta bók sem nokkurn tímann hefur verið tilnefnd til téðra verðlauna er í bunkanum, en einnig elsti höfundur sem tilnefndur hefur verið. Einnig er gaman að segja frá því að helmingur bókanna á stuttlistanum er gefinn út af sjálfstæðum útgefendum og helmingur er önnur skáldsaga höfundarins. Helmingur höfunda eru konur og helmingur karlar. Höfundarnir koma frá fimm löndum og fjórum heimsálfum. Já, svona er tölfræðin áhugaverð og stundum afhjúpandi. En vindum okkur í bækurnar: 

 

Glory

eftir NoViolet Bulawayo

Úr umsögn dómnefndar:

Þessi kraftmikla og hrífandi bók er saga uppreisnar, sögð af líflegum kór dýraradda sem hjálpa okkur að sjá okkar mennsku veröld skýrari.

Fyrir löngu síðan, í gjöfulu landi ekki svo langt í burtu, lifðu dýrin nokkuð hamingjusöm. Svo komu landnámsmennirnir. Eftir næstum hundrað ár færði blóðugt frelsisstríð dýrunum nýja von - ásamt nýjum leiðtoga: Hrífandi hesti sem skipaði sólinni fyrir og stjórnaði og stjórnaði - og hélt áfram að stjórna ...

Glory segir sögu af landi sem er föst í ævafornri hringrás. En hún afhjúpar einnig hinar óteljandi brellur sem þarf til að viðhalda blekkingunni um algjört vald - og minnir okkur á að vegsemd harðstjórnar varir aðeins svo lengi sem fórnarlömb þess eru tilbúin að leyfa það.

 

Small Things Like These

eftir Claire Keegan

Úr umsögn dómnefndar:

Þetta er ljúf saga um von og hljóðláta hetjudáð, sem fagnar samkennd mannsins, en minnir um leið á syndir sem drýgðar eru í nafni trúarbragða.

Sögusviðið er írskur bær, árið 1985. Á aðventunni er mest að gera hjá Bill Furlong, kola- og timbursala. Þar sem hann sinnir störfum sínum um bæinn verður fortíðin á vegi hans - og sömuleiðis þögn hins litla samfélags, sem stjórnað er af kirkjunni, og (sam)sektin sem í henni felst. 

Það liðu 11 ár frá útgáfu síðustu bókar Keegan, Foster, og þeirrar sem hér er tilnefnd, Small Things Like These. Keegan segist ekki vilja hugsa um hversu langan tíma ferlið tók, en bókin hafi ásótt hana í allan þennan tíma. Hún segist alltaf vera treg til að taka af stað þegar kemur að skrifum, en á urmull af handskrifuðum nótum og yfir fimmtíu frumrit. Við mælum með að lesa viðtalið við Keegan á vefsíðu Booker verðlaunanna. 

 

The Seven Moons of Maali Almeida

eftir Shehan Karunatilaka

Úr umsögn dómnefndar:

Æðisgengin epík Shehan Karunatilaka er nístandi, hrífandi fyndin ádeila sem gerist innan um morðóða ringulreið á Sri Lanka, í miðri borgarastyrjöld.

Höfuðborgin Kólombó, árið 1990. Maali Almeida, stríðsljósmyndari, fjárhættuspilari og skápadrottning, vaknar upp eftir eigið andlát, á því sem virðist vera himnesk vegabréfsáritunarskrifstofa. Sundrað lík hans sekkur í Beira-vatninu og hann hefur ekki hugmynd um hver drap hann. Á tímum þar sem dauðasveitir, sjálfsmorðssprengjumenn og fábjánar gera upp málin sín á milli, er listinn yfir grunaða langur.

En jafnvel eftir dauðann er tíminn að renna Maali úr greipum. Hann hefur sjö tungl til að reyna að ná sambandi við manninn og konuna sem hann elskar mest og leiða þau að földum birgðum ljósmynd sem munu skekja Sri Lanka.

 

Treacle Walker

eftir Alan Garner

Garner mun eiga 88 ára afmæli þegar verðlaunin verða afhent, þann 17. október. Booker verðlaunin væru lagleg afmælisgjöf, en Garner er jafnframt elsti höfundur sem tilnefndur hefur verið til verðlaunanna. 

Í umsögn dómnefndar segir:

Þessi nýjasta skáldaga frá eftirtektarverðum höfundi, sem hefur sýnt langvarandi hæfileika, varpar ljósi á hugarheim ungs drengs sem reynir að átta sig á heiminum í kringum hann.

Joe Coppock horfir útundan sér á heiminn með lata auganu. Hann les teiknimyndasögurnar sínar, safnar fuglaeggjum og passar upp á marmarakúlurnar sínar. Þegar Treacle Walker birtist ofan af heiði einn daginn - flakkari og heilari - myndast ólíkleg vinátta og ungi drengurinn er kynntur fyrir heimi sem hann hefði aldrei getað ímyndað sér.

Í þessari fjörugu, áhrifamiklu og ögrandi dæmisögu, sem gerist enn og aftur í hans ástkæra Cheshire, birtir Alan Garner bæði töfrandi samruna goðsagna og þjóðsagna og djúpstæða könnun á flæði tímans.

 

The Trees

eftir Percival Everett

Everett hefur gefið út yfir 30 bækur, frá því fyrsta skáldsagan hans, Suder, kom út árið 1983. 

Úr umsögn dómnefndar um The Trees:

Ofbeldissaga neitar að gleymast grafin í sláandi skáldsögu Percivals Everett, sem sameinar óhugnanlega morðgátu með kröftugri fordæmingu kynþáttafordóma og lögregluofbeldis.

Eitthvað undarlegt er á seyði í Money, Mississippi. Röð hrottalegra morða eru á hræðilegan hátt tengd, með viðurvist annars líks á hverjum glæpavettvangi, líks sem líkist Emmett Till, ungum svörtum dreng, sem var tekinn var af lífi án dóms og laga, í sama bæ 65 árum áður.

Rannsóknarlögreglumennirnir komast fljótlega að því að óhugnalega svipuð morð eiga sér stað um allt land. Þegar líkin hrannast upp, leita rannsóknarlögreglumennirnir svara hjá rótarlækni á staðnum, sem skrásett hefur allar aflífanir í landinu í mörg ár...

 

Oh William!

eftir Elizabeth Strout

Í umsögn dómnefndar um bókina segir:

Metsöluhöfundurinn Elizabeth Strout snýr aftur til ástkæru kvenhetju sinnar Lucy Barton í skínandi skáldsögu um ást, missi og fjölskylduleyndarmál, sem geta skotið upp kollinum og ruglað okkur hvenær sem er.

Lucy Barton er farsæll rithöfundur sem býr í New York og er að koma sér fyrir í seinni hluta lífs síns, hún er nýlega orðin ekkja og dætur hennar tvær eru vaxnar úr grasi. Óvæntur fundur leiðir til þess að hún tengist aftur William, fyrsta eiginmanni sínum og barnsföður.

Í sögunni rifjar Strout upp háskólaár sögupersónanna, fæðingu dætra þeirra, sársaukafulla upplausn hjónabands þeirra og líf sem þau byggðu með öðru fólki. Strout vefur töfrandi mynd, af blíðu, flóknu, áratuga löngu samstarfi.

Áður en hún byrjaði ritferilinn sinn starfaði Elizabeth Strout um skamma hríð sem lögfræðingur. Hún hélt þá rithöfundadraumum sínum leyndum fyrir fólki og ástæðan var einföld, að hennar sögn: „Af því að þá var horft á mig með þvílíkum vorkunnarsvip. Ég bara þoldi það ekki.“

 

Booker verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 17. október 2022. 
Við fylgjumst spennt með, en þangað til er upplagt að lesa og reyna að giska á sigurvegarann. 

Á RAFBÓKASAFNINU getur þú fundið nýjar og eldri tilnefndar bækur. Sjá Booker tilnefningar.

Flokkur
Merki
UppfærtMánudagur, 16. október, 2023 14:59