Spennuþrungin þögn ríkti meðal áheyrenda
Það ríkti spennuþrungin þögn meðal áheyrenda undir upplestri höfundanna Unnar Lilju og Stefáns Mána á bókakaffinu í Borgarbókasafninu Árbæ á dögunum er þau sögðu frá og lásu brot úr nýjustu glæpasögunum sínum. Á þriðja tug áheyrenda voru mættir og búnir að koma sér vel fyrir með rjúkandi kaffibolla í hendi til að fá nasaþef af nýjum bókum.
Unnur Lilja sagði frá því hvernig hún lenti fyrir tilviljun á glæpasagnabrautinni þegar henni var ráðlagt að senda handritið að bókinni Höggið inn í keppnina um Svartfuglinn, en svo fór að hún hreppti verðlaunin. Unnur Lilja gefur nú út þriðju bók sína í flokki glæpasagna og er hún þó að hennar sögn sú fyrsta sem hún skrifar meðvitað sem glæpasögu. Þar segir frá ungri lögreglukonu sem er að feta sín fyrstu spor í starfi. Lítil stúlka hringir í neyðarlínuna og í ljós kemur að foreldrar hennar hafa verið myrtir á hrottalegan hátt. Höfundur las brot úr fyrstu köflum bókarinnar og skildi áheyrendur eftir með spennu og eftirvæntingu í maganum. Nýja bókin mun koma út innan tíðar á Storytel, í raf- og hljóðútgáfu.
Stefán Máni sagði frá því hvernig Hörður Grímsson, hinn litríki lögreglumaður, varð til í kolli höfundar. Hvernig hann þróaðist frá því að vera frekar ómerkileg aukapersóna í fyrstu bókinni Hyldjúpið yfir í að verða þessi stórkostlegi karakter sem lesendur bóka hans þekkja svo vel. Stefán Máni las brot úr fyrsta kafla nýju bókarinnar sem lofar svo sannarlega góðu fyrir aðdáendur Harðar. Stefán þurfti að halda fast um prufueintakið af bókinni sinni og harðneitaði að láta hana af hendi til spenntra lesenda á staðnum! Bókin verður gefin út í nóvember á pappír og er síðan væntanleg sem raf- og hljóðbók eftir áramótin.
Takk öll fyrir komuna!
Næsti viðburður undir hatti verkefnisins Glæpafár á Íslandi:
Lifandi hljóðbók – Glæpasögur á Hrekkjavöku
Borgarbókasafnið Úlfarsárdal, fimmtudaginn 31. október kl. 18:00 - 19:00
Birna Pétursdóttir leikkona og sprelligosi og Vilhjálmur B. Bragason, betur þekktur sem vandræðaskáld, leikari og tónlistarmaður lesa kafla úr sínum uppáhalds glæpasögum. Auk þess mun Vilhjálmur leika undir áhrifshljóð og tóna á nýjan flygil hússins.