Heart Lamp vinnur Bookerinn

Smásagnasafn hlýtur alþjóðlegu Booker verðlaunin í fyrsta sinn í sögu verðlaunanna. Verkið kallast Heart Lamp og er eftir indverska höfundinn Banu Mushtaq, í þýðingu Deepa Bhasthi. Sögurnar voru upphaflega gefnar út á frummálinu (kanarísku eða kannada) á tímabilinu 1990–2023 og fjalla um líf kvenna og stúlkna í suðurhluta Indlands. 

Banu Mushtaq, sem hefur verið virk í kvenréttindabaráttu, byggði sögurnar á reynslu kvenna sem leituðu til hennar eftir aðstoð. Þetta er í fyrsta sinn sem verk þýtt úr kanarísku vinnur verðlaunin, en um 65 milljónum manna talar tungumálið.

Um verkið segir höfundurinn: „Sögur mínar fjalla um konur – um hvernig trúarbrögð, samfélag og stjórnmál krefjast skilyrðislausrar hlýðni af þeim og beita þær í kjölfarið grimmd og ofbeldi, svo þær verða að valdalausum undirmönnum. Daglegar fréttir í fjölmiðlum og mín eigin reynsla hafa veitt mér innblástur. Sársauki, þjáning og hjálparleysi þessara kvenna snerta mig djúpt. Ég stunda ekki rannsóknir í hefðbundnum skilningi – hjarta mitt er mitt rannsóknarsvið.“

 

Þýðandinn Deepa Bhasthi, sem er fyrsti indverski þýðandinn til að vinna alþjóðlegu Booker verðlaunin, lýsti þýðingarferlinu sem „að þýða með hreim“ og lagði áherslu á að varðveita fjöltyngt eðli sagnanna. Verkið var gefið út af breska sjálfstæða forlaginu And Other Stories.

Dómnefndin, undir forystu rithöfundarins Max Porter, lýsti verkinu sem „algjörlega nýju fyrir enskumælandi lesendur“ og hrósaði því fyrir „líflegar, fjölbreyttar og lífsglaðar sögur“ sem endurspegla félagslegt og pólitískt samhengi. Verðlaunaféð, 50.000 pund, skiptist jafnt milli höfundar og þýðanda.

Dómnefndin segir Heart Lamp vera mikilvægt framlag til alþjóðlegrar bókmennta og sýna hvernig þýðingar geta opnað dyr að nýjum heimum og reynsluheimi fyrir lesendur um allan heim.

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 21. maí, 2025 10:00