Bókmenntavefurinn | Þessi eilífi núningur

Fegurðin felst í óreiðunni, náttúrunni og þeim öflum sem uppfinningar mannsins eru máttvana gegn. Fegurðin sem Elín Edda dregur fram í hinum manngerða heimi felst frekar í því sem tíminn hefur heimt eða náttúran endurheimt. Að sama skapi felst fegurð hins mannlega ekki í rökhugsun eða mælingum, heldur tilfinningum og öðrum eiginleikum sem við fáum ekki fyllilega stjórnað.

Smári Pálmarsson um ljóðabókina Núningur eftir Elínu Eddu, Bókmenntavefurinn

Á ferli sínum hefur Elín Edda Þorsteinsdóttir gefið út fjórar myndasögur, tvær ljóðabækur og myndlýst eftirmyndasöguna Klón í samstarfi við Ingólf Eiríksson sem yrkir. Hún er fædd í Reykjavík árið 1995  og fjalla allar bækur hennar á einstakan hátt um samband manns og náttúru, málefni sem er höfundi hugleikin og hrífa lesendur með í ljóðrænan myndheim hennar. Þrjár af myndasögum hennar, Gombri (2016), Glingurfugl (2018) og Gombri lifir (2019) gerast í sama söguheimi en þar eru átök milli manns og náttúru í algjöru fyrirrúmi.

Elín Edda er teiknari, skáld og grafískur hönnuður. Auk þess að skrifa og teikna sögur sínar hefur hún einnig séð um hönnun og uppsetningu bókanna af mikilli alúð sem gerir heildarupplifunina af verkum hennar enn ánægjulegri, segir á Bókmenntavefnum en þar er að finna nýja yfirlitsgrein um verk og feril Elínar Eddu og þar á meðal ritdóm í nýjustu ljóðabók hennar, Núningur.  Það er Smári Pálmarsson sem skrifar og segir m.a.:

Í sinni annarri ljóðabók, Núningur (2022), kafar Elín Edda enn dýpra í samband manneskjunnar við náttúruna og hið manngerða; hliðstæður og andstæður þessara tveggja heima. Tiltill bókarinnar er ef til vill sprottin úr árekstrum þar á milli, eða þá árekstrum manneskjunnar við hvort tveggja. Mannvirki geta speglað tilfinningar okkar og andlega líðan alveg eins og náttúran.

Bókmenntavefurinn

 

Á Bókmenntavefnum er hægt að lesa ritdóminn um Núning í heild sinni - og einnig um önnur verk höfundar í grein sem nefnist Lítill maður, stór náttúra – umfjöllun um verk Elínar Eddu Þorsteinsdóttur (undir um höfund).

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 25. nóvember, 2022 13:35
Materials