Tilnefndar bækur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024
Tilnefndar bækur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024

Bækurnar Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar

Við óskum rithöfundunum Hildi Knútsdóttur, Tómasi Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur innilega til hamingju með tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024. Verðlaunin verða afhent í Reykjavík 22. október n.k. í tengslum við þing Norðurlandaráðs.

Hildur Knútsdóttir

Í rökstuðningi dómnefndar um Hrím eftir Hildi Knútsdóttur segir m.a.:

„Lesandinn getur auðveldlega speglað sig í áhugamálum Jófríðar, eins og perlusaumuðum fatnaði úr kópaskinni eða snúnum ástamálum þar sem hún þarf að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa. Líf Jófríðar umturnast hins vegar þegar henni er gert að taka á sig þunga ábyrgð á velferð og framtíð alls skarans. Hún leggur ein af stað í leiðangur þar sem hún hefur aðeins á sjálfa sig að treysta og verður að finna sína eigin leið til að tryggja velferð fólksins síns.“ 

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Tómas Zoëga

Í rökstuðningi dómnefndar um Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur segir m.a.:

„Bókin tekur á vináttu, flækjunum þegar tvíeyki verður að þríeyki, því að verða útundan eða fá að vera með. Hún býður upp á spjall um ákvarðanir í daglegu lífi barna, hverjar séu afleiðingar fyrir þau sjálf og aðra og hvernig hægt sé að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Umfjöllunarefnið er beintengt raunveruleika íslenskra barna, en vandamálin sem fjallað er um verða samt aldrei stærri en ævintýrið.“

Materials