Borgarbókasafnið hlýtur styrki úr bókasafnasjóði
Úthlutun úr bókasafnasjóði fyrir árið 2024 fór fram í Safnahúsinu þann 27. maí. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra úthlutaði styrkjunum, en Borgarbókasafnið tók á móti þremur veglegum styrkjum með miklu þakklæti.
Borgarbókasafnið hlaut styrki fyrir eftirfarandi verkefni
Glæpafár á Íslandi
Glæpafár á Íslandi er heiti á röð viðburða sem Hið íslenska glæpafélag efnir til í samstarfi við almennings-bókasöfn til að fagna 25 ára afmæli félagsins. Viðburðirnir tengjast íslenskum glæpasögum og glæpasagnaritun.
Litla bókasafnið – leggjum grunn að lestraruppeldi
Litla bókasafnið er ný nálgun á farandbókasafni sem kynnir yngstu börnum leikskólanna fyrir almennings-bókasafninu og ævintýraheimi bókanna í gegnum leik. Með Litla bókasafninu fá foreldrar kynningu á safnkosti, starfsemi og þjónustu almennings-bókasafna fyrir yngstu börnin.
Ylfa og Úlfur, lesum allan heiminn!
Verkefnið Ylfa og Úlfur, lesum allan heiminn! er ætlað að efla málþroska og læsi með áherslu á lesskilning hjá börnunum í hverfinu okkar. Markmiðið er að efla lestur nemenda með leikjum og listsköpun, gera lestur enn skemmtilegri og aðgengilegri.
Norræna húsið hlaut styrk fyrir sýninguna Tréð, en sýningin byggir á fræðsluefni Norræna bókagleypisins, sem er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Amtsbókasafns Akureyrar og Norræna hússins.
Það var einstaklega ánægjulegt að heyra um þá grósku og hugmyndaauðgi sem á sér stað á bókasöfnum um allt land, en hægt er að lesa nánar um verkefni allra styrkjahafa bókasafnasjóðs þetta árið á síðu Stjórnarráðs Íslands.